Selma Líf Noregsmeistari í hástökki

Selma Líf með verðlaunpeninginn eftir glæsilegan árangur.
Selma Líf með verðlaunpeninginn eftir glæsilegan árangur.

Selma Líf Þórólfsdóttir, sem hefur æft með Ungmennafélagi Akureyrar, varð Noregsmeistari í hástökki stúlkna 17-19 ára nýverið þegar hún stökk yfir 1,69 m. Selma var í viðtali á vef UMFÍ þar sem hún sagði árangurinn ótrúlegan, en hún hefur aldrei stokkið þessa hæð áður.

„Mér hefur ekki gengið vel á árinu. Ég hef verið föst með sömu hæðina og ekkert bætt mig. Ég var alveg að gefast upp á þessu. Ég var alltaf að keppa en fór alltaf sömu hæðina. Þar til núna allt í einu. Eftir að ég náði yfir í fyrstu tilraun ákvað ég að vinna mótið,“ segir Selma og lýsir því hvernig hún flaug yfir hverja hækkunina á fætur annarri í fyrstu tilraun. Hún reyndi við hærri stökk en það gekk illa.

Selma hefur keppt á Íslandsmeistaramótum, Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina síðustu og á minni mótum. Hún hefur hins vegar farið sér hægt til þessa því hún meiddist í baki á fyrsta móti sumarsins. Selma hefur búið í Stavanger í Noregi síðastliðið árið og æft í Sandness. Þetta er fyrsta stórmótið ytra sem hún keppti á eftir að hún fékk keppnisréttinn á dögunum.

„Ég keppi í öllu enda stefni ég á sjöþraut næsta sumar,“ segir Selma og setur nú stefnuna á að ná yfir 1,7 m í hástökki. Keppnistímabilinu ytra er nú lokið og er framundan hart æfingatímabil. En hverju þakkar Selma árangurinn? „Ég bara veit það ekki. Ég fékk nýjan þjálfara á keppnisdaginn sem ég hafði aldrei áður hitt. Hún kom á sunnudag og sagði mér að hún væri með mér í hástökkinu. En kannski er það þrjóskan í mér að gefast ekki upp,“ segir Selma Líf Þórólfsdóttir í viðtali á vef UMFÍ.

 


Nýjast