Ásgeir Sigurgeirsson semur við KA

Ásgeir Sigurgeirsson samdi við KA til tveggja ára. Mynd: KA.is
Ásgeir Sigurgeirsson samdi við KA til tveggja ára. Mynd: KA.is

Í gær undirritaði sóknarmaðurinn ungi og efnilegi Ásgeir Sigurgeirsson tveggja ára samning við KA. Ásgeir lék með KA síðasta sumar á láni frá Stabæk og óhætt er að segja að hann hafi slegið í gegn hjá stuðningsmönnum Akureyrarliðsins.

Ásgeir tók þátt í 17 af 22 deildarleikjum KA og skoraði í þeim átta mörk, þar á meðal markið mikilvæga gegn Selfossi á heimavelli sem tryggði KA sæti í Pepsi-deildinni. Ásgeir lék mest á hægri kantinum en hann getur einnig leikið aðrar stöður fremst á vellinum.

Ásgeir er 20 ára gamall og alinn upp hjá Völsungi á Húsavík. Þaðan var hann keyptur til Stabæk í Noregi. Meiðsli settu strik í reikningin hjá norska félaginu og fór svo að hann var lánaður til KA.

Ásgeir hristi meiðslin af sér hjá KA og þótti spila afar vel í sumar. Nú hefur KA náð samkomulagi við Stabæk um kaup á Ásgeiri og hefur hann skrifað undir tveggja ára samning.

Ásgeir var valinn efnilegasti leikmaður KA á sigurhátíð félagsins. Þá valdi fotbolti.net hann einnig efnilegasta leikmanninn í uppgjöri sínu á Inkassodeildinni í sumar. 


Nýjast