Að duga eða drepast fyrir Akureyringa

Menn voru vel á nótunum á bekknum í leik gegn Haukum fyrir tæpu ári síðan. Mynd: Þórir Tryggvason/ak…
Menn voru vel á nótunum á bekknum í leik gegn Haukum fyrir tæpu ári síðan. Mynd: Þórir Tryggvason/akureyri-hand.is

Akureyri tekur á móti Fram í Olísdeild karla í handbolta á laugardaginn. Liðin sitja í tveim neðstu sætum deildarinnar og aðeins eitt stig sem skilur liðin að. Það má því segja að þetta sé sannkallaður úrslitaleikur fyrir bæði lið og ekkert annað en sigur í boði ef tryggja á veru sína í deildinni á næsta tímabili.

Frítt á leikinn – gos og pylsur í boði fyrir áhorfendur

Á heimasíðu KA kemur fram að þar sem um síðasta heimaleik Akureyrar í Olís deildinni á þessu tímabili er að ræða, verður frítt inn á leikinn fyrir alla sem vilja og auk þess verður boðið upp á gos og pylsur á meðan birgðir endast.

Akureyri og Fram hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur, fyrri leikurinn sem var heimaleikur Fram var æsispennandi þar sem Fram vann að lokum eins marks sigur. Seinni leiknum lauk með öruggum sigri Fram. Nú fær Akureyrarliðið annað tækifæri til að takast á við Fram og það er næsta víst að heimamenn ætla sér bæði stigin úr þessum leik á heimavelli.

„Við heitum því á alla sem vettlingi geta valdið til að troðfylla KA heimilið og styðja strákana með öllum tiltækum ráðum, það kostar sem sé ekkert inn á leikinn og hressandi pylsa og gos til að gefa mönnum orku í átökin,“ segir á heimasíðu KA. Leikurinn hefst klukkan 16 en fólk er hvatt til að mæta tímanlega.

 


Nýjast