Bubbi og KK og Gaukur á Græna hattinum

KK og Gaukur verða á Græna hattinum um helgina.
KK og Gaukur verða á Græna hattinum um helgina.

Í tilefni af útkomu nýrrar plötu Bubba Morthens, Regnbogans stræti, sem kom út 9. ágúst s.l. verða haldnir útgáfutónleikar á völdum stöðum um landið og verða þeir á Græna hattinum á föstudagskvöldið 20. september.

Þrjú lög af plötunni eru komin í spilun og viðtökurnar hafa ekki látið á sér standa. Lagið Velkomin rataði í 1. sæti vinsældarlistanna og er Bubbi þar hárbeittur að vanda í umræðunni um flóttamenn. Án þín, þar sem hann syngur dúett með Katrínu Halldóru Sigurðardóttir, sló einnig og nú er þriðja lagið komið í spilun sem ber nafnið Límdu saman heiminn minn.

Margir tónlistarspekúlantar halda því fram að að Regnbogans stræti sé eitt af meistaraverkum Bubba. Með Bubba Morthens í för eru þeir tónlistarmenn sem spiluðu á plötunni með honum. „Gæfa Bubba er að hafa í gegn um tíðina náð að velja með sér framúrskarandi fólk að vinna með og hér er það svo sannarlega raunin,“ segir um tónleikana. Guðmundur Óskar Guðmunsson stjórnaði upptökum ásamt Bubba og Adda 800 sem sá um upptökur og hljóðblöndun. Guðmundur Óskar mundar bassann og ásamt honum í hljómsveitinni eru þei Þorvaldur Þór Þorvaldsson trommur, Örn Eldjárn gítar, Aron Steinn Ásbjarnarson blástur og Hjörtur Yngvi Jóhannsson hljómborð. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.

KK og Gaukur verða á ferð um landið í haust og verða á Græna hattinum laugardagskvöldið 21. september. „Þeir munu spila úrval af lögum KK og aðrar hugljúfar dillandi melódíur,“ segir um tónleikana. KK er landsmönnum kunnur en Gaukur er að hasla sér völl. Hann hefur m.a. verið að spila á munnhörpu með Kaleo undanfarið. Með KK verður hann töluvert að spila slide gítar, eða Hawaii gítar eins og það er líka kallað, og raddar í bluegrass stíl. KK ætlar að vígja nýjan gítar á túrnum, forlátan Collings gítar frá Texas og allt verður þetta flutt gegnum einn hljóðnema. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.


Nýjast