Bretar flykkjast í vetrarferð til Akureyrar

Ferðamönnum mun fjölga talsvert á Akureyri í vetur.
Ferðamönnum mun fjölga talsvert á Akureyri í vetur.

Sala á beinu flugi til Akureyrar frá Bretlandi í vetur gengur langt framar vonum en til að mæta aukinni eftirspurn er búið að bæta við fjórum flugferðum og brottförum frá fleiri áfangastöðum. Upphaflega var stefnt að átta flugferðum en þau verða tólf hið minnsta.

Eins og fram kom fyrr í sumar hefur breska ferðaskrifstofan Super Break hafið sölu á ferðum til Akureyrar og er þetta í fyrsta sinn sem boðið verður upp á beint flug til Akureyrar frá Bretlandi. Samtals var pláss fyrir um 1500 farþega í þessum átta ferðum en nú stefnir í að þeir verði mun fleiri.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að nú þegar sé búið að selja yfir 50% af sætunum í þau átta flug sem auglýst voru í fyrstu. „Það er rífandi gangur í þessu og vegna þess hve vel gengur hefur ferðaskrifstofan bætt við fjórum flugferðum. Það er mjög gaman að sjá hversu vel þetta gengur,“ segir Arnheiður en spurð segir hún aðsóknina ekki koma sér á óvart.

„Þetta er sá áhugi sem ég bjóst við en þetta er hins vegar mun meira en breska ferðaskrifstofan átti von á. Þar er fólk hreinlega steinhissa. En við höfum alltaf sagt að Norðurland að vetri sé mjög eftirsóknarvert og þessi aðsókn sýnir það glögglega.“

Vegna áhugans er þegar farið að huga að því að bóka ferðir til Akureyrar næsta vetur. Þessi tólf flug frá Bretlandi í vetur verða í janúar, febrúar og mars og því má búast við að fjöldi erlendra ferðamanna á Akureyri muni aukast talsvert á þessum tíma.

„Við eigum eftir að sjá mikinn mun á þessum mánuðum. Þetta eru pakkaferðir þar sem seldar eru 3-4 nætur í pakka og því ekki um minna en rúmlega 4000 gistinætur að ræða,“ segir Arnheiður.

Auk gistingar verður boðið upp á ferðir í Mývatnssveit. Ferðamennirnir geta svo bætt við ferðina eftir eigin óskum, til dæmis með heimsókn í Bjórböðin, hvalaskoðun eða hestaferðir svo eitthvað sé nefnt.

 

 


Nýjast