Brekkuskóli deilir við Akureyrarbæ

Brekkuskóli er fjölmennasti skólinn á Akureyri.
Brekkuskóli er fjölmennasti skólinn á Akureyri.

Brekkuskóli á Akureyri gagnrýnir harðlega að framhaldsskólanemendur séu settir inn í sal Íþróttahallarinnar á sama tíma og grunnskólanemendur eru þar í íþróttakennslu. Í bréfi sem skólaráð Brekkuskóla hefur sent Akureyrarbæ er farið fram á að nemendur í Brekkuskóla fái að stunda nám í íþróttum við bestu mögulegu aðstæður með tilliti til öryggis nemenda og kennsluaðstæðna.

Farið er fram á tafarlausa endurskoðun á því skipulagi fyrir Íþróttahöllina sem deildarstjóri  íþróttamála hefur sent frá sér fyrir skólaárið 2019 – 2020.

Í bókun Frístundaráðs Akureyrarbæjar sem fundaði um málið er þessu vísað á bug. Segir í bókun að Íþróttamannvirki Akureyrarbæjar þjóni öllum bæjarbúum og öllum skólastigum. Það sé hlutverk íþróttadeildar að koma til móts við óskir þeirra sem vilja nýta mannvirkin og sjá til þess að nýting þeirra sé sem best. Íþróttakennsla fyrir nemendur í VMA mun fara fram í 1/3 hluta íþróttahallarinnar á fimmtudögum fyrir hádegi næsta skólavetur á móti 2/3 hluta sem nemendur í Brekkuskóla nota.

„Frístundaráð getur ekki með neinu móti séð að þessi skipting og nýting á salnum muni skerða kennsluaðstæður nemenda Brekkuskóla og því síður ógna öryggi þeirra,“ segir í bókun.

 


Nýjast