Blómstrandi tónlistarlíf ungs fólks á Akureyri

Stefán Elí, Ivan Mendez, Diana Sus og Birkir Blær
Stefán Elí, Ivan Mendez, Diana Sus og Birkir Blær

Þessi grein birtist upphaflega í Jólablaði Vikudags sem var unnið af nemendum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Mikill uppgangur hefur verið í tónlistarlífi á Akureyri og fjöldinn allur af ungu tónlistarfólki hefur verið að koma fram á sjónarsviðið undanfarið. En hvaðan kemur þessi skyndilega gróska? Smávegis eftirgrennslan sýndi  að Tónlistarskóli Akureyrar iðar af skapandi tónlistarfólki og kennurum. Það var því ekki um annað að ræða en að fara á stúfana, kanna aðstæður og tala við nemendur skólans og kennara. Þessi hópur er greinilega samheldinn og skemmtilegur andi í honum. Þau eru öll af vilja gerð að vinna saman þó þau séu ólík og útkoman er áhugaverð og oft öðruvísi.

Fagstjórinn í deild Skapandi Tónlistar í Tónlistarskólanum á Akureyri er Haukur Pálma en hann vann lengi í Tónabúðinni á Akureyri og hefur því verið með puttana í tónlistarlífi Akureyringa stóran hluta ævi sinnar. Deildin er hönnuð til þess að koma til móts við þá nemendur sem finna sig ekki í Klassísku eða Ritmísku námi og vilja vinna meira að eigin efni. Hún hefur verið verkfæri fyrir marga til að koma sér af stað í tónlistarsköpun og opnað gáttir fyrir fólk til að koma sér á framfæri.

Haukur vill meina að opnun þessarar deildar og mikill uppgangur í tónlistarlífi Akureyringa haldist í hendur og skapi kjöraðstæður fyrir það sem Haukur kallar Hið Akureyrska Tónlistarvor. Námið byggist upp á því að vinna að ákveðnu verkefni yfir veturinn og skila af sér einhverri afurð í lok skólaárs. Hann nefnir sem dæmi að Stefán Elí hafi unnið plötu í fullri lengd í fyrra og gefið út með söfnun á Karolina fund.

Verkefni Ivans Mendez í fyrra hafi verið sex laga plata með hljómsveitinni GRINGLO og Birkir Blær sé að vinna að sex laga skífu sem stendur og svo mætti lengi telja. Haukur bendir á lagalistann ‘Tonak - Skapandi Tónlist’ á Spotify þar sem finna megi efni frá þessu tónlistarfólki.

 


Nýjast