Blóðugur hnífur fannst á heimilinu

Karlmaðurinn situr í gæsluvarðhaldi á Akureyri til loka mánaðarins.
Karlmaðurinn situr í gæsluvarðhaldi á Akureyri til loka mánaðarins.

Karlmaður á Akureyri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. nóvember fyrir tilraun til manndráps. Atvikið átti sér stað um liðna helgi í átökum tveggja manna á Geislagötu við útibú Arion banka þar sem annar aðilinn beitti hnífi. Vitni urðu að atburðinum og kölluðu til lögreglu. Þolandi árásarinnar var fluttur á Sjúkrahús Akureyrar þar sem hann gekkst undir aðgerð.

Hann er ekki talinn í lífshættu en málið er rannsakað sem tilraun til manndráps þar sem verknaðaraðferðin sem beitt var gefur tilefni til þess. Vitni hafa verið yfirheyrð og í húsleit á dvalarstað geranda fannst blóðugur hnífur falinn. Þetta kemur fram á Facebooksíðu lögreglunnar.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur einnig til rannsóknar líkamsárás sem átti sér stað á milli tveggja starfsmanna í vistarverum PCC á Bakka við Húsavík um liðna helgi. Báðir voru fluttir með tveimur sjúkrabílum á Sjúkrahús Akureyrar í kjölfar hennar og síðar handteknir. Báðir mennirnir eru grunaðir um líkamsárás á hvorn annan, þar sem hættulegri verknaðaraðferð var beitt.


Nýjast