Bæjaryfirvöld hafni afdráttarlaust steypustöð á Rangárvöllum

Fyrirhuguð steypustöð er aðeins í 100 m fjarlægð frá Giljahverfi.
Fyrirhuguð steypustöð er aðeins í 100 m fjarlægð frá Giljahverfi.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra áréttar fyrra álit um mikilvægi þess að Akureyrarbær gefi ekki kost á að steypustöð verði reist og rekin á Rangárvöllum og að umsókn um leyfi skipulagsyfirvalda til að reisa og reka steypustöð á lóð 3 og 4 á Rangárvöllum verði hafnað afdráttarlaust. Þetta kemur fram í umsögn heilbrigðisnefndar.

Þar segir að steypueiningaverksmiðjur séu skilgreindar sem mengandi starfsemi. „Skipulagsyfirvöldum ber að stöðva rekstur steypueiningaverksmiðju á Rangárvöllum þar sem starfsemin samræmist ekki gildandi skipulagi (óleyfisstarfsemi),“ segir í greinargerð. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti samhljóða á bæjarstjórnarfundi í lok maí að fresta afgreiðslu umsóknar um stækkun lóðar við Rangárvelli 4 og kalla eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um tillögu skipulagsráðs.

Eins og Vikudagur greindi frá sl. vetur er bygging á steypustöð og steypueiningarverksmiðju fyrirhuguð á Rangárvöllum sem yrði í um 100 m fjarlægð frá íbúahverfi. Íbúar í Giljahverfi eru afar ósáttir við væntanlega byggingu og hefur henni verið harðlega mótmælt.

Að mati heilbrigðisnefndar er talsverð hætta á að rekstur steypustöðvar á Rangárvöllum valdi nálægum íbúum óþægindum og ama vegna hávaða og fok- og rykhættu, sérstaklega í suðvestan átt.


Nýjast