Bæjarfulltrúi gagnrýnir áhugaleysi á leikskólamálum

Ekki fá öll börn pláss á leikskóla næsta haust. Mynd/Þröstur Ernir
Ekki fá öll börn pláss á leikskóla næsta haust. Mynd/Þröstur Ernir

Bæjaryfirvöld á Akureyri draga lappirnar þegar kemur að dagvistunarúrræðum og sýna þarf meiri metnað og áhuga í málaflokknum. Leikskólakerfið eins og það er í dag er úrelt. Þetta segir Sóley Björk Stefánsdóttir oddviti Vinstri grænna í bæjarstjórn Akureyrar.

Sóley skrifar grein í Vikudegi sem kom út í gær ásamt Edward H. Huijbens þar sem þau gagnrýna að sum börn fái ekki leikskólapláss næsta haust. Fyrr í vetur fjallaði Vikudagur um óánægju foreldra vegna dagvistunarúrræða og settur var af stað undirskriftalisti þar sem skorað var á bæjaryfirvöld á Akureyri að fjölga leikskólaplássum og tryggja börnum frá að a.m.k. 18 mánaða aldri aðgang að leikskólaplássi í sveitarfélaginu.

Margir foreldrar komast ekki með börnin sín á leikskóla fyrr en um tveggja og hálfs árs aldur. Frá áramótum hefur myndast bið­listi eftir dagvistun hjá dagforeldrum. Þá var haft eftir fræðslustjóranum á Akureyri í Fréttablaðinu á dögunum að 40 börn komist ekki inn á leikskóla bæjarins næsta haust.

Sóley Björk segir í samtali við Vikudag að ástandið sé óviðunandi.

„Þetta er tvíþætt vandamál. Annars vegar er kerfið í dag ekki að virka. Það er óheppilegt fyrir foreldra ef barnið fæðist t.d. í apríl þegar kemur að leikskólaplássi og það er fáránleg staða. Hins vegar er um að ræða tímabundið ástand vegna lokunar leikskóla og fjölda aðfluttra barna sem gerir ástandið verra en stundum áður. Það er þó ekki mikill vilji til þess að bæta kerfið. Að mínu mati er kerfið í dag barn síns tíma og ástæða þess að ekki hefur verið tekið til óspilltra málana við að breyta því er sú að það er fólk, oftast nær konur, úti í bæ að bjarga málunum. Þetta er kerfislægt vandamál,“ segir Sóley.

Í þessu ljósi segir Sóley að það sé sérstaklega mikilvægt að konur séu viðloðandi bæjarmálin þar sem sjónarmið og áhugasvið séu ólík. „Staðreyndin er sú að oddvitar meirihlutans á Akureyri hafa oftar en ekki verið miðaldra karlmenn. Vissulega eru allir að gera sitt besta og vilja vel, en við erum hins vegar ólík og erum ekki sammála um forgangsröð­un. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta spurning um hvernig við viljum forgangsraða og eins og staðan er í dag eru leikskólamál ekki ofarlega á lista.“

Sóley segir ennfremur að það sé mikilvægt að gefa bæjarbúum kost á því að koma að forgangsröðun á fjárreiðum bæjarins með bættu íbúalýðræði. „Við þurfum að heyra skoðanir fólks og taka mið af fjöldanum,“ segir Sóley, en í grein hennar og Edwards er minnt á að bærinn þurfi sárlega á ungu fjölskyldufólki að halda ef til dæmis er horft til fjölgunar bæjarbúa til framtíð­ar.


Nýjast