Atvinnuleysi eykst áfram á Akureyri

Séð yfir miðbæ Akureyrar. Mynd/Hörður Geirsson.
Séð yfir miðbæ Akureyrar. Mynd/Hörður Geirsson.

Atvinnuleysi á Akureyri heldur áfram að aukast. Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun voru 463 á atvinnuleysisskrá í janúar en um sama leyti í fyrra voru þeir 297. Aukningin nemur því 166 einstaklingum. Í nóvember sl. var fjallað um aukið atvinnuleysi á Akureyri hér í blaðinu en þar var haf eftir Soffíu Gísladóttur, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og Austurlandi, að samdráttur hafi verið jafnt og þétt í atvinnulífinu á Akureyri.

Mestur hafi samdrátturinn verið í mannvirkjagerð, verslun, gistingu og veitingum, opinberri stjórnsýslu og fiskveiðum en verkafólki, fólki í þjónustustörfum, sérfræðingum og sjómönnum hefur fjölgað mest á skrá. Þá hafi áberandi verið mest aukning á atvinnuleysi hjá ungu fólki 18-34 ára en aðrir aldurshópar skáru sig ekki sérstaklega úr.

4,8% atvinnuleysi á landinu

Skráð atvinnuleysi á landinu öllu í janúar mældist 4,8% og jókst um 0,5 prósentustig frá desember. Að jafnaði voru 8.808 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í janúar og fjölgaði um 789 frá desember. Atvinnuleysi jókst allsstaðar, mest á Vestfjörðum eða úr 2,6% í desember í 3,2% í janúar. Atvinnuleysi var langmest á Suðurnesjum í janúar eða 9,0% og jókst um 0,3 prósentustig milli mánaða.

Næstmest var atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu eða 4,8% og 4,4% á Norðurlandi eystra. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra eða 2,1% og 2,8% á Austurlandi, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunnar.


Nýjast