Atvinnuleysi aukist umtalsvert á Akureyri

Áberandi er mest aukning á atvinnuleysi hjá fólki 18-34 ára.
Áberandi er mest aukning á atvinnuleysi hjá fólki 18-34 ára.

Atvinnuleysi á Akureyri hefur aukist umtalsvert á einu ári. Í september í fyrra voru 216 á atvinnuleysisskrá, en í október á þessu ári eru 364 á skránni. Fjölgun um 148 einstaklinga. Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og Austurlandi, segir að samdráttur hafi verið jafnt og þétt í atvinnulífinu á Akureyri á þessu ári.

Mestur er samdrátturinn í mannvirkjagerð, verslun, gistingu og veitingum, opinberri stjórnsýslu og fiskveiðum en verkafólki, fólki í þjónustustörfum, sérfræðingum og sjómönnum hefur fjölgað mest á skrá. „Það er áberandi mest aukning á atvinnuleysi hjá ungu fólki 18-34 ára en aðrir aldurshópar skera sig ekki sérstaklega úr,“ segir Soffía.

Atvinnuleitendur með grunnskólapróf eru áberandi flestir með tilliti til aukningar á atvinnuleysisskrá sem og einstaklingar með stúdentspróf. Langflestir af þessum hópi eru nýir á skrá, eða hafa verið skemur en sex mánuði í atvinnuleit.

„Þá hefur körlum fjölgað meir en konum og þegar við skoðum hóp útlendinga þá eru þeir 22% af atvinnuleitendum og er þjóðernum öðrum en Pólverjum að fjölga,“ segir Soffía.  

 


Nýjast