Akureyringum fjölgaði um 141 á milli ára

Íbúar á Akureyri nálgast 19 þúsund.
Íbúar á Akureyri nálgast 19 þúsund.

Íbúum á Akureyri fjölgaði um 141 á milli ára. Samkvæmt Þjóðskrá voru íbúar bæjarins þann 1. janúar sl. 18.927 en voru 18.786 þann 1. janúar 2018. Frá árinu 2014 hefur bæjarbúum á Akureyri fjölgað um alls 824 en skráðir íbúar á Akureyri 1. janúar það ár voru 18.103.

Íbúaþróun á Akureyri hefur verið talsvert í umræðunni í samfélaginu undanfarna mánuði. Eins og fram komi í blaðinu í haust er hæg íbúafjölgun í bænum. Samkvæmt tölum úr Þjóðskrá Íslands var fjölgun í öllum landshlutum frá 1. desember 2017 til 1. október sl. nema á Norðurlandi eystra. Ef íbúafjölgun á Akureyri er skoðuð sérstaklega á milli áranna 2017 og 2018 þá fjölgaði bæjarbúum 92, eða 0,5% sem er töluvert undir landsmeðaltalinu.

Margir hafa lýst yfir áhyggjum af þessari þróun en t.a.m. lýsti Berglind Ósk Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, áhyggjum sínum í samtali við blaðið og sagði að bæjaryfirvöld á Akureyri verði að líta á íbúaþróun í sveitarfélaginu mjög alvarlegum augum.

Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, sagði hins vegar í samtali við blaðið að íbúavöxturinn á Akureyri hafi verið nokkuð línulegur í gegnum áratugina.Hann benti á að of ör íbúaþróun geti verið varhugaverð og hér væri hæg en örugg íbúaþróun.


Nýjast