Akureyringar-Norðlendingar, lífsakkeri ykkar

Snorri Snorrason
Snorri Snorrason

Leyfi mér að setja á blað nokkrar línu varandi öryggismál ykkar. Gerið þið ykkur grein fyrir því að formaður Samfylkingarinnar sem er í framboði í ykkar kjördæmi er að vinna gegn ykkur og er jafnframt stuðningsmaður meirihlutans í Reykjavík um að rýra gildi Reykjavíkurflugvallar  með öllum tiltækum ráðum. Flokkurinn kennir sig við jafnaðarmennsku, þá má spyrja eru sumir jafnari en aðrir? 

Þegar þetta er ritað er sýnt að Þjóðarsjúkrahúsið verður í Reykjavík, því er nauðsyn að flugvöllurinn geti sinnt sínu hlutverki og greiðar samgöngur liggi að því. Það koma  um 600 flug árlega til Reykjavíkur frá landsbyggðinni með sjúklinga, þá eru þyrluflug ekki meðtalin. Því miður eru of margir stjórnmálamenn sem skilja ekki hlutverk sitt, að þeir eru í vinnu hjá okkur og eiga að hugsa um almenning. Er þetta mögulega ástæða þess að almenningur hefur misst trú á stjórnmálamönnum?

Undirritaður býr á höfuðborgarsvæðinu og lenti í alvarlegum veikindum fyrir 2 árum sem hefðu ekki þolað mikla bið. Í hreinskilni sagt, ef ég hefði búið  í dreifbýlinu  fjarri höfuðborginni hefði ég ekki verið að skrifa þetta í dag. Í mínum huga er ég ekki að hugsa þetta í pólitískum tilgangi, réttlæti er mér efst í huga. Reykjavík er höfuðborg alls landsins og hefur ríkar skyldur gagnvart landsmönnum öllum. Því miður gera borgaryfirvöld sér ekki grein fyrir þessu.

Hef átt samtal við borgarstjóra, sem er læknismenntaður, en kærir sig kollóttan um öryggi annarra landsmanna. Undirskriftir sjötíuþúsund Íslendinga um veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni virðast ekki skipta neinu máli. Að mínu viti eigum við að sýna löndum okkar  í hinum dreifðu byggðum landsins þá virðingu, að líf þeirra sé eins mikils virði og okkar á suðvesturhorninu.  Er umhyggja og náungakærleikur að hverfa hjá íslenskri þjóð? Er það ásættanlegt að rýra möguleika ykkar til þess að komast undir bráða læknisþjónustu í tæka tíð?

Síðan er Reykjavíkurflugvöllurinn gríðarlega þýðingamikill fyrir innanlandsflugið og sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Faðir minn ólst upp á Akureyri og lagði flugið fyrir sig, því ber ég hag ykkar fyrir brjósti.

Látum lífið njóta vafans!

-Höfundur er bankastarfsmaður

 


Nýjast