Akureyri, með hjartað á réttum stað

"Áhyggjurnar reyndust ástæðulausar, ferliþjónustan er til fyrirmyndar, það er vel haldið utanum hlutina, lipurð og jákvæðni ræður ríkjum hjá bílstjórum og öllum starfsmönnum," segir Erla Sigurðardóttir. Mynd/Ármann Hinrik.

Nú eru rúm tvö ár síðan að við fjölskyldan fluttum til Akureyrar. Það er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi að fjögurra manna fjölskylda flytji búferlum. Í okkar tilfelli hefðu flutningar getað orðið flóknari en almennt gerist, þeim tengdust miklar væntingar og óvissa. Sonur okkar var nýorðinn 14 ára þegar við fluttum. Hann er fjölfatlaður, fer allra sinna ferða í hjólastól og þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.

Á mannamáli þýðir það að hann þarf manninn með sér daginn út og inn. Fötlun hans og flóknar þjónustuþarfir vógu þungt þegar við tókum ákvörðun um að flytja eftir tæplega 20 ára búsetu í sama húsinu. Um árabil hafði hann reyndar notið þjónustu Skammtímavistunar hér á Akureyri og verið í sérdeild Giljaskóla eina viku í mánuði. Við þekktum því til þjónustunnar, vissum af góðu fagfólki með fagmannlegt og ljúft viðmót. Væntingarnar voru því talsverðar um góða þjónustu og skilning á okkar aðstæðum. Það er skemmst frá því að segja að Akureyri stóðst þær væntingar og meira til frá fyrsta degi og raunar fyrr.

Um leið og við létum vita af því að flutningar stæðu til höfðu starfsmenn Fjölskyldudeildar samband við okkur og undirbúningur að flutningi hófst. Frá þeim degi höfum við mætt fagmennsku og skilningi á flóknum þörfum fjölskyldunnar hvar sem við höfum borið niður. Starfsfólk er metnaðarfullt og leggur sig fram um að veita úrvals þjónustu innan þess fjárhagsramma sem því er sniðinn. Við upplifum að vakað sé yfir velferð sonar okkar og þar með okkar allra, hugað að því að draga úr álagi, rjúfa einangrun og á allan hátt gera daglegt líf okkar sem einfaldast og líkast venjulegu fjölskyldulífi.

Erla Sigurðardóttir

Áhyggjurnar reyndust ástæðulausar

Þrátt fyrir miklar væntingar var eitt og annað sem olli áhyggjum. Hvernig væri til dæmis með ferliþjónustuna? Við vorum vön mjög persónulegri þjónustu og samskiptum í tengslum við hana. Það gæti ómögulega verið þannig í stærra samfélagi. Áhyggjurnar reyndust ástæðulausar, ferliþjónustan er til fyrirmyndar, það er vel haldið utanum hlutina, lipurð og jákvæðni ræður ríkjum hjá bílstjórum og öllum starfsmönnum. En það eru fleiri en opinberir starfsmenn í skóla- og fötlunargeiranum sem skipta máli fyrir fjölskyldu eins og okkar. Eðli málsins samkvæmt erum við „góðkunningjar“ og stórviðskiptavinir lyfjaverslana, á því sviði vorum við vön einstakri lipurð og þægindum og nutum nándarinnar. Enn kom Akureyri þægilega á óvart, ljúfur lyfjafræðingur með einstaklega fallega framkomu hefur passað uppá okkur frá fyrsta degi. Það er heldur ekki einfalt að finna sjúkraþjálfara eða heimilislækni að ekki sé talað um tannlækni sem tekst vel á við verkefnið – líka þar átti Akureyri rétta fólkið.

Okkar gæfuspor að flytja til Akureyrar

Síðastliðið vor kvaddi unglingurinn Giljaskóla og það góða fagfólk sem þar starfar. Í haust lá leiðin í VMA, þar tók á móti honum samhentur og faglegur hópur. Starfið er til fyrirmyndar og framhaldsskólaneminn blómstrar. Það er ekki sjálfgefið að mæta ávallt skilningi, virðingu og fagmennsku á öllum vígstöðvum. Það er merki um heilbrigt samfélag þar sem fólki líður vel. Það var okkur gæfuspor að flytja til Akureyrar sem er með hjartað á réttum stað í orðsins fyllstu merkingu.

-Erla Sigurðardóttir 


Nýjast