Akureyrarslagur í fyrstu umferð Olís-deildar karla

Frá viðureign KA og Akureyrar í 1. deildinni sl. vetur. Liðin mætast í fyrstu umferð í Olís-deildinn…
Frá viðureign KA og Akureyrar í 1. deildinni sl. vetur. Liðin mætast í fyrstu umferð í Olís-deildinni á mánudaginn kemur. Mynd/Þórir Tryggvason.

Keppni í Olís-deild karla í handknattleik hefst um komandi helgi og verður opnunarleikur deildarinnar í Vestmannaeyjum á sunnudaginn kemur þann 9. september þar sem Íslandsmeistarar ÍBV fá Gróttu í heimsókn. Á mánudaginn kemur þann 10. september er sannarlega áhugaverður leikur fyrir handboltaáhugafólk á Akureyri en þá mætast grannaliðin KA og Akureyri. Leikið verður í KA-heimilinu og hefst leikurinn kl. 19:00. Akureyri mætir til leiks á ný í efstu deild eftir eins árs fjarveru en KA hefur ekki leikið í úrvalsdeildinni síðan veturinn 2005-2006. 

Akureyrarliðunum spáð brösóttu gengi í vetur

Samkvæmt árlegri spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna mun Akureyri hafna í 10.sæti Olís-deildarinnar en 12 lið leika í deildinni. Spáin var kunngjörð á kynningarfundi deildarinnar á Grand Hótel í vikunni. KA er hins vegar spáð neðsta sæti og þar með falli en Valsmönnum er spáð titlinum. Í Olís-deild kvenna sem hefst um aðra helgi er KA/Þór spáð næstneðsta sæti eða því sjöunda sem myndi þýða að liðið færi í umspil um að halda sæti sínu í deildinni. Fyrsti leikur KA/Þórs í deildinni verður laugardaginn 15. september.  


Nýjast