Akureyrarbær reiðubúinn í viðræður um sameiningu

Akureyrarbær.
Akureyrarbær.

„Ég tel þessar tillögur sem snúa að fjölmörgum öðrum þáttum en lágmarks stærð þeirra til þess fallnar að styrkja sveitastjórnarstigið og þar með Akureyrarbæ,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, við fyrirspurn blaðsins um tillögur sameiningu sveitarfélaga.

Landsþing Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga samþykkti nýverið þings­álykt­un­ar­til­lögu um stefnu­mót­andi áætl­un í mál­efn­um sveit­ar­fé­laga. Í henni er gert ráð fyr­ir því að sveit­ar­fé­lög­um muni fækka veru­lega fyr­ir árið 2022 og enn frek­ar fyr­ir árið 2028. Sveitarfélög sem ekki ná 1000 íbúum eigi síðar en árið 2026 verður skylt að sameinast öðru sveitarfélagi, eða sveitarfélögum.

Í síðasta tölublaði gagnrýndu sveitarstjórar Grýtubakkahrepps og Svalbarðsstrandarhrepps í Eyjafirði lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga sem birtast í tillögunni. Halla Björk sótti Landsþingið ásamt öðrum bæjarfulltrúum og bæjarstjóra Akureyrar og segir mikla samstöðu hafa verið á landsþinginu. Formleg umræða hefur ekki verið tekin í bæjarstjórn Akureyrar en bæjarráð hefur fjallað um málið og lýsti yfir ánægju sinni með tillögurnar.

Spurð hvort það sé vilji Akureyrarbæjar að sameinast öðrum sveitarfélögum í Eyjafirði svarar Halla Björk: „Bæjarstjórn Akureyrar er ávallt opin fyrir samtali um styrkingu svæðisins og ég tel víst að bæjaryfirvöld væru tilbúin í viðræður um sameiningu ef að eftir því yrði leitað.“


Nýjast