Ákall til stjórnvalda

Ætlum við að fórna íslenskum landbúnaði og matvælaframleiðslu með tómum sofandahætti og meðvirkni?

Ráðamönnum er tíðrætt um mikilvægi matvælaframleiðslunnar til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og matvælaöryggi. En nú spyr ég, meinum við ekkert með þessu lengur?

Flest það sem gert hefur verið á liðnum árum gengur þvert gegn þessum markmiðum. Tollasamningur við ESB sem galopnar landið fyrir innflutningi á niðurgreiddum matvælum sem okkar framleiðendur geta ekki keppt við og nú síðast með því að berjast ekki af hörku gegn innflutningi á hráu kjöti sem ljóst er að haft getur óbætanlegt tjón í för með sér bæði á heilsu manna og heilbrigði og velferð íslenskra dýrastofna.

Það er löngu komið nóg af sofandahætti í þessum mikilvægu málum og ég hef hreinlega velt fyrir mér hvort skattleggja ætti orðin „fæðuöryggi“ og „matvælaöryggi“ í hvert sinn sem þingmenn og ráðherrar leggja þau sér í munn og meina ekkert með því.

Fæðuöryggi og matvælaöryggi þjóðar

Öll vestræn ríki leggja mikla áherslu á að vernda og styðja sína matvælaframleiðslu þar sem matvæli eru ein af grunnþörfum þjóða til að geta verið sjálfstæðar. Að alltaf sé til matur og „fæðuöryggi“ þjóðarinnar þannig tryggt. Hollusta og heilnæmi matarins „matvælaöryggið“ er einnig hátt skrifað þar sem það skiptir gríðarlegu máli fyrir heilbrigði og lífsgæði fólks.

Landbúnaðrframleiðsla á Íslandi býr vissulega líka við stuðning en sá stuðningur hefur minnkað mjög mikið á s.l. árum og umræða um hann oft á miklum villigötum. Stóra vandamálið liggur hinsvegar í því að við galopnum landamæri okkar fyrir mat sem ekki þarf að uppfylla þær gæðakröfur sem tryggja að við getum varið heilsu þjóðarinnar og heilbrigði okkar einangruðu dýrastofna. Við leyfum innflutning á niðurgreiddum mat sem framleiddur er af fólki sem fær aðeins brot af þeim launum sem teldust til mannsæmandi eða til lámarkslauna hér á landi og því getur okkar matvælaframleiðsla engann vegin keppt við slíkt.

Við flytjum inn aumingjaskap annarra þjóða, þrælkun á fólki og dýrum, með bros á vör af því það sé í þágu almennings á Íslandi til að tryggja ódýrari matvæli og þannig aukinn kaupmátt.

Á Íslandi hafa heldur aldrei verið notuð sýklalyf eða hormónar sem vaxtarhvatar við framleiðslu á landbúnaðarvörum enda eru okkar landbúnaðarvörur sem þekkt er ásamt framleiðslu Norðmanna í algjörum sérflokki hvað hollustu og hreinleika varðar.

Matur er ekki dýr á Íslandi – það er bara ein af stóru blekkingunum að halda því fram

Ein af mestu rangfærslum í umræðu um matvæli hér er að íslensk matvæli séu dýr. það rétta er hinsvegar að mun dýrara er að framleiða okkar innlendu hollu matvæli en það sem þekkist hjá mörgum af nágrannaþjóðum okkar. Hér er sem dæmi ekki stundaður verksmiðjubúskapur, hér eru ekki notuð lyf og hormón til að flýta vexti og hér þarf að hafa húsdýr inni stóran hluta ársins með auknum kostnaði við húsnæði og fóðrun. Þegar við berum okkur saman við önnur lönd þýðir ekki að bera bara saman verð á mat, bera þarf líka saman verðlag í löndunum. Í samanburði við nágrannalöndin er verðlag hér hátt og því kostar maturinn fleiri krónur en t.d. á Spáni, en hér eru laun líka miklu hærri. Þegar skoðað er hve miklu við eyðum í mat hér á landi þá er það frekar lágt hlutfall af ráðstöfunartekjum og matur getur því ekki talist dýr ef heildarsamhengið er skoðað.

Þessi munur á verðlagi milli landa hefur hinsvegar í för með sér að ómögulegt er fyrir innlenda framleiðendur að keppa við framleiðslu frá láglaunalöndum ef innflutningurinn er frjáls og ekki tollaður til að stilla af þetta misræmi. Verslunin reynir hér ítrekað að leika góða manninn sem geti skaffað okkur neytendum ódýrari matvæli fái þeir bara að ráða för. Ég fullyrði að þarna er ekkert annað á ferðinni en sérhagsmunir forráðamanna verslunarinnar sem vita líka að þeir geta lagt meira á innfluttar vörur og þannig hagnast meir. Með þessu eru þeir einfaldlega að ganga gegn hagsmunum okkar sem þjóðar en lokka neytendur með sér, sem sumir hverjir hafa vegna launa sinna eða aðstæðna ekki efni á að leggjast gegn í stað þess að taka þátt í að vernda okkar þjóðarhagsmuni.

Tökum á vandamálinu í stað þess að eyðileggja matvælaframleiðsluna og fórna framtíðar hagsmunum landsins. Það eru lægstu launin sem þurfa að hækka en ekki verð matvælanna að lækka.

Matvæli eru ekki dýr á Íslandi, en innflutt ódýrari matvæli koma sér vissulega vel fyrir þá lægst launuðu. Hættum þessu lýðskrumi og verslunarmannadýrkun og tökum frekar á vandamálinu sjálfu sem er að í landinu er stétt sem er á allt of lágum launum. Núverandi lágmarkslaun 300 þús kr eru ekki einusinni greidd í öllum greinum nema með einhverjum brellum og trixum með mætingarbónusum og álögum fyrir eitt og annað sem ekki vikta inní yfirvinnukaup þessa fólks. Við prósentu launahækkanir hækkar bara grunnurinn og þeir lægst launuðu verða alltaf verr og verr settir, fá hlutfallslega minnstu hækkanirnar. Tökum á þessu þannig að allir hafi efni á að kaupa okkar holla innlenda mat og við getum sagt versluninni að huga að velferð og launum síns fólks á kössunum í stað þess að þykjast vera bjargvættir fólksins með innflutningi á niðurgreiddum matvælum annnarra þjóða.

Á sama tíma eru bændur sjálfir sú stétt sem hefur mátt þola hvað mesta rýrnun á kaupmætti sinna launa á liðnum árum þar sem þeir hafa engar launaleiðréttingar eða hækkanir fengið.

Stuðning við landbúnað ætti að stórauka frá því sem nú er

Að mínu mati ætti að stórauka stuðning við landbúnað og matvælaframleiðslu frá því sem nú er til að tryggja þessi mikilvægu markmið okkar sem þjóðar. Afar brýnt er einnig að landbúnaðurinn fái viðurkennt það stóra hlutverk sem hann gegnir fyrir byggðir landsins. Landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan eru einnig ein af mikilvægustu grunnatvinnuvegum þjóðarinnar sem vitað er að skila samfélaginu margfalt til baka þeim stuðningi sem ríkið lætur í té.

-Hólmgeir Karlsson framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri


Nýjast