Afmælisbarnið Völsungur!

Völsungur  hefur verið sameiningartákn Húsvíkinga og býður upp á öflugt íþrótta, félags og afþreyingarstarf fyrir íbúa Húsavíkur. Þetta hefur Völsungur gert frá árinu 1927 en 12. apríl nk. er félagið 90 ára og verður haldið upp á það með veglegum hætti á árinu.

Á sjálfan afmælisdaginn miðvikudaginn 12. apríl munum við opna sögusýningu í Safnahúsinu á Húsavík, sama dag verður svo gefið út 90 ára afmælisrit. Íslandsmeistaraveggurinn verður afhjúpaður í Íþróttahöllinni. Þá verður afmælisdeginum lokað með veislu þar sem við heiðrum félaga með gull- og silfurmerki Völsungs. Deildir félagsins skipta á milli sín að vera með viðburði í hverjum mánuði út árið. Þannig vonum við að félagið auðgi og glæði áhuga bæjarbúa á starfi þess sem er mikið og fjölbreytt.

Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með því á heimasíðu félagsins þegar leikmenn okkar hafa verið að skrifa undir leikmannasamninga í knattspyrnu. Allt eru þetta ungir og efnilegir krakkar sem eru tilbúnir að spila fyrir félagið og leggja á sig töluverða vinnu til þess að skemmta okkur bæjarbúum úti á velli í sumar.

Völsungar í landsliðsverkefnum

Einnig erum við með tvo efnilega leikmenn knattspyrnu sem eru að fara að spila erlendis með U-17 ára landsliði Íslands á næstu dögum, þetta eru Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Atli Barkarson. Þá hefur Arney Kjartansdóttir verið valin í þriðja skiptið í æfingahóp U-16 landsliðs í blaki. Við óskum þeim innilega til hamingju og velfarnaðar. Það verður áhugavert að fylgjast með þeim í landsliðsverkefnum.

Þá hefur verið virkilega gaman að fylgjast með því öfluga starfi sem er verið að vinna innan blakdeildar og ég dáist af þeim konum sem eru tilbúnar að leggja á sig allar æfingarnar og leikina svo við getum fengið að njóta skemmtilegra leikja í Höllinni yfir vetrartímann.

Ég fylgdist með sunnudaginn 27. janúar þegar beltapróf í Taekwondo fór fram. Það var virkilega gaman að sjá þann stóra hóp barna sem æfir og leggur sig fram um að ná þeim æfingum sem lagt er upp með. Trausti Valgeirsson sjúkraþjálfari á heiður skilið fyrir það mikla starf sem hann er vinna að innan bardagadeildar.

Ung sundkona, Dagbjört Lilja Daníelsdóttir er búin að vinna sér inn þátttökurétt í þremur greinum á aldursmeistaramóti Íslands (AMÍ) í sundi sem verður haldið í Reykjavík í júní. Frábær árangur hjá ungri og efnilegri sundkonu, Dagbjört Lilja hefur mikinn metnað til þess að standa sig vel og það verður gaman að fylgjast með henni á mótinu, innilega til hamingju Dagbjört Lilja.

Áhugaverðir tímar framundan

Framundan eru skemmtilegir tímar. Félagsaðstaðan úti á velli er að verða tilbúin og munum við opna hana formlega sunnudaginn 5. mars kl. 15:00 og  um leið verður stefnumótun meistaraflokkanna í knattspyrnu til næstu ára kynnt.

Mánudaginn 27. febrúar verður Þorgrímur Þráinsson formaður Vals og starfsmaður íslenska landsliðsins með fyrirlestur um árangur landsliðsins á EM. Yfirskrift fyrirlestrarins er „Sterk liðsheild“. Fyrirlesturinn er öllum opinn og hefst hann kl. 20:00 í Vallarhúsinu við íþróttavellina.  Þetta er annar fyrirlesturinn sem aðalstjórn félagsins býður upp á í febrúar en þá flutti Heiðar Hrafn Halldórsson fyrirlestur sem nefndist „Úr sófanum í maraþon“. Þetta var skemmtilegur fyrirlestur sem var vel sóttur.

Stefnumótun

Í mars munu  íþróttaskólinn og handboltinn sjá um 90 ára afmælisviðburði. Því miður hefur handboltinn átt undir högg að sækja og spurning hvernig við förum að því að styðja við hann og rífa hann upp aftur. Þá er íþróttaskólinn á tímamótum þar sem að Áslaug og Unnar eru á sínu síðasta tímabili sem umsjónaraðilar. Við þessi tímamót þurfum við að ákveða hvaða stefnu félagið tekur varðandi íþróttaskólann.

Rekstur félagsins gengur vel og er það ekki síst að þakka því öfluga fólki sem er tilbúið að leggja á sig ómælda vinnu fyrir félagið. Það eru gerðar miklar og vaxandi kröfur til þeirra sem starfa að íþrótta- og æskulýðsstarfi og því mikilvægt að hafa gott og öflugt fólk innan félagsins sem við svo sannarlega höfum.

Ég tel mikilvægt núna á 90 ára afmælisári félagsins að við setjumst niður og mótum okkur stefnu fyrir félagið til næstu fimm eða tíu ára. Og hafa að leiðarljósi „Samfélagið og Völsungur,“ eins og yfirskrift 90 ára afmælissýningarinnar verður.

Áfram Völsungur!

Guðrún Kristinsdóttir, Formaður Völsungs.


Nýjast