Áfangaheimili mögulega opnað á næsta ári

Viðræður standa yfir um að áfangaheimilið verði í húsnæði Hjálpræðishersins.
Viðræður standa yfir um að áfangaheimilið verði í húsnæði Hjálpræðishersins.

Bæjarráð Akureyrar hefur staðfest að gert sé ráð fyrir rekstrarfé til áfangaheimilis í fjárhagsáætlun komandi árs. Velferðarráð hafði áður samþykkt fyrir sitt leyti að gengið verði til samninga við Hjálpræðisherinn á Akureyri um rekstur áfangaheimilis og lagði til að veitt verði 5,6 milljónum króna í verkefnið á árinu 2020.

Heimir Haraldsson, formaður velferðarráðs, segir að í þeim sáttmála sem meirihlutinn gerði í upphafi kjörtímabilsins hafi eitt af atriðunum verið að setja á fót áfangaheimili fyrir fólk sem er að koma úr áfengis- og fíkniefnameðferðar. „Við erum að stefna á að koma slíku heimili á fót en ljóst er að þörfin er til staðar. Fjölskyldusvið Akureyrarbæjar mun sjá um stuðning og eftirfylgni við þessa einstaklinga. Það skiptir miklu máli að geta veitt þessa þjónustu í heimabyggð,“ segir Heimir.

Hann segir að bæjaryfirvöld séu í viðræðum við Hjálpræðisherinn um að áfangaheimilið verði í þeirra húsnæði. „Ef samningar nást leyfi ég mér að vera bjartsýnn á að mögulega verði hægt að opna á seinni hluta ársins 2020,“ segir Heimir.  


Nýjast