Ætlaði aldrei að verða hjúkrunarfræðingur

Katla Hildardóttir
Katla Hildardóttir

Í tilefni af nýstofnuðu félagi hjúkrunarfræðinga í Eyjafirði mun Vikudagur á næstu vikum og mánuðum birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri nágrenni þar sem þeir kynna sín störf. Í þessari viku er það Katla Hildardóttir sem skrifar.

Ég heiti Katla Hildardóttir og ætla að segja í stuttu máli frá starfi mínu.  Ég er 35 ára hjúkrunarfræðingur og útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri árið 2011.

Ég kláraði sjúkraliðabraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2004 og vann sem sjúkraliði í 5 ár, mestmegnis á Öldrunarheimilinu Hlíð. Ég ætlaði mér aldrei í hjúkrunarfræði þar sem það nám heillaði mig ekki, mig langaði að vera innan um skjólstæðinga mína en ekki meira og minna föst í hjúkrunarverkefnum. Það var mín skoðun á hjúkrunarfræði á þeim tíma.

Nokkrum árum seinna langaði mig að breyta til, langaði í meiri áskoranir í lífið og ljósmóðurnám hafði alltaf heillað mig og fór ég í Háskólann á Akureyri árið 2007 með það markmið, að verða ljósmóðir.

Á þriðja ári í hjúkrun fór ég í verknám á geðdeildina á SAk og frá fyrsta degi var ég alveg heilluð. Mér fannst ég hafa fundið mína hillu í lífinu. Þarna hafði ég fundið mína skilgreiningu á orðinu hjúkrun og fann að ég var í nánum tengslum við skjólstæðinga mína, svipað eins og ég upplifði sem sjúkraliði. „Ég var á gólfinu“ eins og ég vildi vera. Hjúkrunarnámið kenndi mér að hlutverk hjúkrunarfræðinga eru mjög fjölbreytt og skemmtileg og hjúkrunarfræðingar starfa á hinum ýmsu vinnustöðum með mismunandi hlutverk.

Eftir verknám mitt á geðdeildinni sótti ég um og fékk sumarvinnu á deildinni, vann með skólanum næsta vetur og fékk síðan fasta stöðu eftir útskrift úr háskólanum. Þar vann ég næstu 5 árin eða þangað til við fjölskyldan fluttum tímabundið til Reykjavíkur. Starfaði ég á geðsviði Landspítalans í um 6 mánuði. Eftir að við fluttum aftur til Akureyrar hóf ég aftur störf á geðdeild SAk en síðastliðið haust bauðst mér tímabundin afleysingastaða í eitt ár á göngudeild geðdeildar á Seli.

Starf mitt þar er mjög mikilvægt, fjölbreytt og skemmtilegt en þar tek ég á móti einstaklingum í formleg viðtöl, sinni greiningavinnu, aðstoða fólk að halda utan um lyfjameðferð sína, gef forðasprautur þeim sem þurfa að þiggja slíka meðferð og stýri meðferðarhópum. Ég er í samstarfi bæði við búsetukjarna fyrir geðfatlaða sem og samstarfi við deildir innan Akureyrarbæjar og margt fleira. Þessi tími hefur þroskað mig og þróað heilmikið í starfi og einnig veitt mér aukið sjálfsöryggi sem hjúkrunarfræðingur.  Þetta er krefjandi starf sem þarfnast sjálfstæðra vinnubragða og sjálfsöryggis í starfi þar sem aðeins er eitt stöðugildi fyrir hjúkrunarfræðing á göngudeildinni. Ég hef tækifæri til að þróa meðferðarstarfið á göngudeild geðdeildar í samvinnu við þverfalegt teymi á göngudeild geðdeildar SAk.

Ég stefni að því heimsækja sambærilegar göngudeildir í Reykjavík á næstu vikum/mánuðum til að fá hugmyndir um hvernig hægt sé að bæta meðferðarstarfið enn frekar. Það sem mér finnst skemmtilegast við starfið mitt er það að fylgjast með einstaklingum ná bata og betri líðan. Fólk kemur í mismunandi ástandi með ólíkan bakgrunn, áföll og veikindi í sinni sögu. Það að fá að taka þátt í og fylgjast með fólki ná bata og styrkja sína stöðu í lífinu er frábært og fylgjast með fólki jafnvel öðlast nýtt líf er virkilega gefandi. Það að glíma við andleg veikindi er gífulega erfitt og full vinna oft á tíðum. Get ég sagt það án þess að hika að þetta eru hetjur og ég dáist að þessum einstaklingum, það að burðast með andleg veikindi en samt halda áfram með lífið með öllum þeim verkefnum og áskorunum sem það hefur uppá að bjóða er gífulega erfitt og mikið álag.

Hvar sé ég sjálfa mig eftir 20 ár? Ég sé sjálfa mig hvergi annarsstaðar en á geðsviði, starfandi með andlega veiku fólki. Ég er opin fyrir öllu, hef gaman að nýjum spennandi, krefjandi verkefnum í þróun og því aldrei að vita hvar maður á eftir að enda.

 

 

 


Nýjast