Yfirlýsing sveitarstjóra Norðurþings

Undirritaður var beðinn um viðbrögð við innsendri grein sem finna má í blaði dagsins. Tekið skal fram að ég hef ekki fengið tækfæri til þess að lesa greinina, heldur einungis tilvitnanir úr henni. Þær tilvitnanir hryggja mig mjög í ljósi þeirrar vinnu sem starfsmenn og stjórnendur félagsþjónustunnar lögðu í sl. vetur. Í ljósi þessa sem og þeirri staðreynd að ég mun hvorki hér né annarsstaðar á opinberum vettvangi fjalla um einstaka starfsmannamál hjá sveitarfélaginu vil ég þó koma á framfæri eftirfarandi yfirlýsingu.

Við í Norðurþingi búum svo vel að félagsþjónusta sveitarfélagsins hefur á að skipa öflum hópi fólks sem á hverjum degi leggur sig fram við að þjónusta okkar íbúa skv. lögboðnum skyldum, skv. ákvörðunum sveitarstjórnar hverju sinni og til samræmis við ríkjandi fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Það hefur glatt okkur sem störfum fyrir sveitarfélagið sl. ár að þjónustukannanir þær sem gerðar hafa verið á vegum óháðra aðila bera þess glöggt merki að almenn ánægja ríkir með störf félagsþjónustunnar sem hefur yfirgripsmikil verkefni á sínu borði, sem t.a.m. taka til þjónustu við okkar nágrannasveitarfélög í Þingeyjarsýslu. Rekstur sveitarfélagsins gengur vel eins og síðasti ársreikningur gefur til kynna. Fjárhagáætlanir sveitarfélagsins sl. þrjú ár hafa gert ráð fyrir annarsvegar 72% nettó aukningu fjármuna til félagsþjónustunnar árið 2015 m.v. fjárhagsáætlun 2014 og síðan 19% aukningu 2016 m.v. árið 2015. Rauntölur úr rekstrarreikningum sveitarfélagsins sýna jafnframt að félagsþjónustan skilaði betri rekstrarlegri niðurstöðu en áætlað var árið 2015 sem nam 9%, en var 5% yfir áætlun árið 2016.

Atvinnuástandið hér í sveitarfélaginu hefur verið með eindæmum gott undanfarin ár og fleiri tækifæri opnast fyrir íbúa svæðisins til að hreyfa sig til á vinnumarkaði. Það er hörð samkeppni um vinnuafl og hefur sveitarfélagið fundið vel fyrir því. Samhliða þessu hefur fasteignamat íbúða hér á Húsavík hækkað sem aftur skapar aukin tækifæri fyrir fólk sem hefur áhuga á að flytja burt af svæðinu. Allt er þetta í grunninn jákvætt og eðlilegt í ljósi stöðunnar. Við göngum í gegnum mestu samfélagsbreytingar héraðsins í áraraðir og ekkert óeðlilegt að starfsmannavelta aukist hjá sveitarfélaginu við slíkar aðstæður. Einkageirinn hefur tekið mikið til sín af einstaklega hæfu fyrrum starfsfólki Norðurþings, en við höfum að sama skapi verið mjög heppin með mannskap inn til okkar á síðustu árum sem kemur til sveitarfélagsins með nýja reynslu og sýn á hlutina sem líka er jákvætt. Við höfum lagt okkur fram um að vanda valið við ráðningar hjá sveitarfélaginu og munum gera það áfram, hér eftir sem hingað til. Hinsvegar hefur húsnæðisvandinn sem skapast hefur á svæðinu klárlega gert okkur erfiðara um vik við að lokka til okkar fleira af hæfu starfsfólki. Stóra áskorunin er að koma upp fleiri húsbyggingum og fá fleiri til að flytja í Norðurþing til þess að efla sveitarfélagið enn frekar.

Virðingarfyllst,

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings


Nýjast