Veggjöld greiða göngin

Guðmundur Baldvin Guðmundsson.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag að veita Vaðlaheiðargöngum lán sem nemur 4,7 milljörðum króna.   Lánið er veitt til að hægt sé að ljúka framkvæmda ganganna.  Í kjölfar þessarar ákvörðunar hafa farið af stað fjörlegar umræður bæði í fjölmiðlum sem og á samfélagsmiðlum um framkvæmdina og hafa neikvæðar raddir verið mjög áberandi í umræðunni.  Talað er um að nær hefði verð að veita þessu fjármagni til annari brýnni framkvæmda og af nógu sé að taka. 

Í allri umræðunni kjósa gagnrýnendur, sem flestir koma af höfuðborgarsvæðinu, að horfa framhjá staðreyndum málsins og jafnvel að búa sér til forsendur sem ekki fá staðist.   Jú vissulega er það svo að framkvæmdin hefur farið verulega fram úr áætlun og rætt um að  umframkostnaður geti orðið allt að 44% frá upphaflegri kostnaðaráætlun.  En er það meira en gengur og gerist í slíkum verkefnum?  Jarðgangagerð er í eðli sínu afar áhættusöm og upp kunna að koma tilfelli sem erfitt var að sjá fyrir en bregðast þarf við og slíkt hefur klárlega í för með sér kostnaðarauka.  Óhætt er að segja að í Vaðlaheiðargöngum hafi komið upp allmörg slík tilfelli og kannski er það svo að þessi umframkostnaður er meiri en almennt gengur og gerist.   

En stóra málið er að framkvæmdin verður greidd af veggjöldum.  Já greidd af okkur notendum sem kjósum að nýta okkur göngin í stað þess að keyra um Víkurskarð, bæði til að stytta aksturstíma og ekki síður til að sleppa við akstur um skarðið og auka þar með umferðaröryggi okkar sem búum við það að þurfa að ferðast um þennan leiðinda fjallveg.  Rétt er í þessu sambandi að benda á að akstur í gegn um göngin styttir leiðina um 11 mínútur miðað við að ekið sé á hámarkshraða bæði upp Víkurskarðið sem og í gegn um göngin.  
Í upphaflegum forsendum var gert ráð fyrir að veggjöld myndu borga upp framkvæmdina á 27 árum og var þá miðað við umferð um Víkurskarð á árinu 2011.  Ljóst er að aukinn kostnaður við gerð ganganna hefur breytt þessum forsendum og ljóst að nokkuð lengri tíma tekur að greiða framkvæmdina til baka.  Hins vegar hefur orðið mjög jákvæð þróun umferðar um Víkurskarð og áætluð umferð um göngin hefur tekið stökkbreytingu frá upphaflegri áætlun.  Sé miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir er þess vænst að framkvæmdin verði greidd til baka með veggjöldum á 35-40 árum. 

Fyrir flest okkar sem búum á Norðausturlandi er það mikið gleðiefni að nú sjáist til lands í framkvæmdunum.   Göngin munu líkt og önnur göng, sem við Íslendingar höfum byggt af mikilli framsýni, breyta lífsskilyrðum fólks. Atvinnutækifærum fjölgar, atvinnusvæði stækka og meiri jöfnuður verður í heilbrigðisþjónustu og menntun, svo dæmi séu tekin og síðast en ekki síst mun umferðaröryggi okkar batna.  Það er til mikils að vinna.

-Höfundur er formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar, formaður Eyþings og stjórnarmaður í Greiðri leið ehf. 


Nýjast