Þetta er ekki það Ísland sem við viljum kenna okkur við!

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

Engum blöðum er um það að fletta að hagvöxturinn hér á landi er að stórum hluta drifinn áfram af erlendu launafólki. Í fréttaskýringaþættinum Kveik á Rúv í byrjun mánaðarins voru sýnd átakanleg, en raunveruleg, dæmi um brotastarfsemi sem viðgengst gagnvart erlendu launafólki. Ekki aðeins eru greidd lágmarkslaun eða langt undir kjarasamningum, lítilsvirðingin virðist alger og vinnumansal er ömurleg staðreynd. Undirboð, þrælahald og skattsvik hafa grafið um sig á íslenskum vinnumarkaði, svo ekki verður um villst.

Mörgum erlendum starfsmönnum er bannað að leita sér upplýsinga um réttindi sín hjá verkalýðshreyfingunni um réttindi sín og bent á að þeir sem það geri, eigi á hættu að missa vinnu og húsnæði, „ekkert vandamál yrði að flytja inn meðfærilegri starfsmenn í staðinn“. Gleymum því ekki að flestir koma hingað til lands í góðri trú.

Þetta er ekki það Ísland sem við viljum kenna okkur við.

Svikinn um rúmar tvær milljónir króna

Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum bent á þessa meinsemd, en hvernig sem á því stendur virðist ekkert lát vera á einbeittum brotavilja fjölda fyrirtækja á íslenskum vinnumarkaði.

Höfum það í huga að erlent starfsfólk á lög- og samningsbundinn rétt til að njóta kjara og réttinda til jafns við aðra á vinnumarkaði.

Vaxandi þáttur í starfsemi Einingar-Iðju er að aðstoða og leiðbeina erlendu starfsfólki, enda er vinnumarkaðurinn mismundi eftir þjóðlöndum og eðlilegt að fólk þurfi að leita sér upplýsinga. Málin skipta hundruðum, þar sem félagið hefur aðstoðað fólk við að fá leiðréttingu sinna mála. Stundum eru þau tiltölulega einföld en því miður eru mörg dæmi um stórfelld svik og undanskot vinnuveitanda.

Ekki er langt síðan skrifstofa Einingar-Iðju aðstoðaði erlendan starfsmann við að krefja vinnuveitandann um rúmar tvær milljónir króna, þar sem kjarasamningar höfðu verið þverbrotnir á viðkomandi einstaklingi.  

Því miður er það svo að aðeins lítill hluti brotanna kemur upp á yfirborðið.

Þetta er ekki það Ísland sem við viljum kenna okkur við.

Við berum öll ábyrgð

Undirboð, þrælahald og skattsvik þarf að afmá með raunverulegu þjóðarátaki. Við skulum stöðva þessa stórfelldu brotastarfsemi á vinnumarkaði með öllum tiltækum ráðum, staðreyndin er að brotin snerta þúsundir erlends launafólks. Það gengur ekki að fyrirtæki hagnist á brotastarfsemi.

Verkalýðshreyfingin hefur stóreflt alla upplýsingaöflun og vinnustaðaeftirlit, tilgangurinn er að aðstoða fólk við að sækja sjálfsagðan rétt sinn. Sömuleiðis hefur verkalýðshreyfingin beitt sér fyrir ýmsum réttarbótum, svo sem löggjöf um keðjuábyrgð.

Alþingi þarf að bregðast við, herða þarf viðurlög og sektargreiðslur við launaþjófnaði og öðrum brotum gegn launafólki. Stórefla þarf vinnustaðaeftirlit um land allt og þétta  samstarf allra er málið varðar. Ráðast þarf í markvissar aðgerðir, þar sem málin eru upplýst og stöðvuð.

Lykilatriði er auðvitað að þeir einstaklingar sem brotið er á og vilja sækja rétt sinn, njóti stuðnings og hafi öruggt skjól. Ekki aðeins verkalýðshreyfingarinnar, heldur samfélagsins alls. Við berum nefnilega öll ábyrgð.

Einn réttur- ekkert svindl!

Alþýðusamband Íslands er í samstarfi við aðildarsamtök sín um verkefni gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi með yfirskriftinni EINN RÉTTUR – EKKERT SVINDL!

Markmið verkefnisins er meðal annars að tryggja kjör og réttindi fyrir alla, þ.m.t. útlendinga sem hingað koma og ungt fólk sem er að hefja þátttöku á vinnumarkaði. Áhersla er lögð á breytt viðhorf með það að markmiði að landsmenn styðji baráttuna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með virkum hætti, upplýsa brot, krefjast úrbóta og koma upplýsingum um meint brot til viðkomandi stjórnvalda og eftirlitsstofnana. Einnig að upplýsa íslenskt launafólk og allan almenning um mikilvægi þess að uppræta undirboð og svarta atvinnustarfsemi.

Heimasíða verkefnisins er www.ekkertsvindl.is

Ég skora á alla sem hafa grun um brotastarfsemi að hafa samband við sitt stéttarfélag, farið er með allar slíkar upplýsingar sem algjört trúnaðarmál.

Lágmarkskrafa okkar allra hlýtur að vera að vinnuveitendur fari að lögum og reglum þjóðfélagsins. Við viljum að hagvöxtur verði áfram jákvæður, en það hreinlega getur ekki verið ætlun okkar að hagvöxturinn verði drifinn áfram af erlendu launafólki, sem þola þarf ömurlega lítilsvirðingu.

Stöndum saman og upprætum þennan svarta blett á samfélaginu.

Þetta er ekki það Ísland sem við viljum kenna okkur við.

Við berum öll ábyrgð.

-Höfundur er formaður Starfsgreinarsambands Íslands og Einingar-Iðju 


Nýjast