Þar sem englarnir starfa

Það er oftar en ekki svo að fólk skrifar í blöðin og tjáir sig í fjölmiðlum þegar það er óánægt með tiltekna þjónustu og ekki síst ef um er að ræða opinbera þjónustu eða stofnanir ríkis og bæjar. En það er ekki óánægju kurr sem ég ætla að setja á prent heldur þvert á móti því undanfarnar vikur hef ég orðið vitni að og notið ótrúlegrar velvildar og góðsemi starfsfólks hjá SAk (Sjúkrahúsið á Akureyri).

Konan mín þurfti að fara í stóra aðgerð og ég var verulega órólegur vegna þessa, og var á innlagnartíma hennar þvælandi inn og út alla daga meira og minna á þeim tveim deildum sem mín elskulega dvaldi þennan hálfan mánuð, fyrst nokkra daga á gjörgæsludeild og síðan á skurðlækningadeild og ég var eftir að dvöl hennar á gjörgæslunni lauk viss um að þar væru saman komnir mannlegir englar, því svo hlýlegri og faglegri framkomu við sjúklinginn og aðstandendur hans hafði ég aldrei kynnst áður.

Ég var ætíð velkominn og það var stjanað svo við okkur að maður nærri því skammaðist sín fyrir alla þá fyrirhöfn sem starfsfólk deildarinnar lagði á sig. Ég var því ekki síður glaður og hissa þegar ég fór að sniglast út og inn á næstu deild en það er skurðlækningadeildin, og það er ekki að orð­lengja það að englarnir á gjörgæslunni voru ekki þeir einu á SAk heldur var starfsfólkið á skurðlækningadeild ein englaveröld, þ.e. sýndi okkur þvílíkan hlýhug, þjónustulund og fagleg vinnubrögð að það er hreinlega ekki hægt að lýsa því hve langt þetta fólk gekk til að sjúklingum og aðstandendum liði sem best. Og þið englar á SAk vitið að með svona yndislegri framkomu, hreinlega bjargið þið enn fleiri mannslífum en ella. Því ef sjúklingi líður vel í návist ykkar er víst að hann hlýtur skjótari bata og verður væntanlega síður kominn inn aftur vegna sama eða tengds sjúkdóms.

Vildi bara að þið nytuð þess sem þið eigið fyllilega skilið, þ.e.a.s. umfjöllun sem annað fólk getur séð eins og áður sagði þið eruð öll sannkallaðir mannlegir englar. Og í lokin, sérfræði læknirinn sem gerði aðgerðina ætti að fá orðu, hann er snillingur, ætla ekki að nefna nöfn, það kærir hann sig ekki um, takk frá­bæru læknar og hjúkrunarfólk og takk SAk.

Kristján Gunnarsson


Nýjast