Svör við fyrirspurnum Björgvins Leifssonar um sorphirðu á Húsavík

Á 18. fundi framkvæmdanefndar Norðurþings var formanni nefndarinnar og starfsmanni falið að svara bréfritara erindis er varðaði athugasemdir við þjónustu Íslenska Gámafélagsins í Norðurþingi. Þar sem erindið var birt í Skarpi þótti rétt að svara erindinu hér á síðum blaðsins sömuleiðis.

Fyrst ber að þakka bréfritara, Björgvini Rúnari Leifssyni, fyrir erindið en hér að neðan er leitast við að svara því lið fyrir lið.

Þannig er málum háttað að Íslenska Gámafélagið (hér eftir ÍG) sinnir sorphirðu og móttöku sorps á Húsavík og í Reykjahverfi. Framkvæmd þeirrar þjónustu er skilyrt að sé til samræmis við Sorphirðusamþykkt Norðurþings og skal vera til samræmis við útboðsgögn sem samningar náðust um eftir útboð í mars 2015.

Sorpsamþykkt Norðurþings hefur ekki enn fengið fullnaðarstaðfestingu frá ráðuneyti en eftir að hún hlaut samþykki sveitarstjórnar Norðurþings um áramót hefur verið stuðst við samþykktina varðandi sorphirðu. Hér á eftir fer ekki dómur eða umræða um einstök mál sem upp geta komið eða hafa komið upp við sorphirðu, þótt mikilvægt sé að athugasemdir er varða úrbætur rati inn á borð sveitarfélagsins með beinum hætti. Öðruvísi er erfitt að gera bragarbót á því sem úrskeiðis fer.

Björgvin Rúnar bar fram fimm spurningar og sú fyrsta varðaði það hvort refsiákvæði gagnvart íbúum væri að finna í samningi Norðurþings og ÍG, sem kæmi til álita ef ekki væri flokkað rétt í sorptunnur við heimili. Í þessu samhengi skal bent á 15. grein Sorphirðusamþykktar Norðurþings,“Viðurlög við brotum eða vanefndum“, en þar er ekki tekið fram að séu nein refsiákvæði umfram neitun á losun á rangt flokkuðum tunnum. Eins og gefur að skilja eru tunnurnar metnar hverju sinni og sett er á þær innsigli ef tunna er metin „slæm“ eða illa flokkuð. Ef tunnan hefur ekki verið tæmd geta líka verið fyrir hendi aðrar ástæður, t.d. að aðgengi hefur verið heft að tunnum, m.a. með illa lögðum bílum sem er algengast eða hundum sem hindra aðgengi að tunnu.

Í spurningu tvö er spurt hvort Norðurþing banni starfsmönnum ÍG að færa „t.d. tvö jarðarber eða eina skyrdollu úr endurvinnslutunnu yfir í almenna sorptunnu“? Hér skal bent á 4. gr. Sorphirðusamþykktar Norðurþings, „Nýtingarskylda íbúa“, en þar stendur „(húsráðanda) er skylt að nota þær aðferðir og þau ílát við geymslu og meðferð úrgangs og endurvinnsluefna sem sveitarstjórn ákveður hverju sinni, í samráði við heilbrigðisnefnd og í samræmi við lög og reglur þar að lútandi“. Þetta þýðir að óheimilt er að setja lífrænan úrgang í endurvinnslutunnur.

Starfsmönnum ÍG er frjálst að leiðrétta minniháttar mistök en það getur þó verið hvoru tveggja; tímafrekt og jafnvel valdið skaða. Ef það fyrsta sem starfsmenn sjá þegar þeir opna tunnu er eitthvað sem á ekki heima í tunnunni, þá er er það mjög líkleg vísbending um að eitthvað sambærilegt geti verið að finna neðar í tunnunni og í svona tilvikum er tunnan alla jafna ekki tæmd. Ef ákveðið magn úrgangs er flokkað ranglega og ratar þannig á rangan stað til flutnings með endurvinnanlegum efnum getur það eyðilagt heilan bílfarm. Ef ekki er strax gripið inn í er komið upp vandamál sem eyðilagt getur heilan gám sem jafnvel búið er að flytja til Svíþjóðar í endurvinnslu eins og ÍG gerir alla jafna. Þegar á þann áfangastað sorpsins er komið er reglan sú að ef það finnst lykt þegar gámurinn er opnaður ytra er hann afskráður og urðaður með tilheyrandi kostnaði.

Þriðja spurning Björgvins er um hvort Norðurþing banni starfsmönnum ÍG að færa til litla hluti eins og bíldekk til að komast að ruslatunnum? Hér skal aftur vitna til sorpsamþykktar sveitarfélagsins en í 9. gr. hennar, „Staðsetning sorpíláta og aðgengi“, er tekið á þessu. „Húsráðendur skulu tryggja gott aðgengi að sorpílátum á þeim tíma sem heimilisúrgangi er safnað samkvæmt auglýstri áætlun sveitarfélagsins um söfnun úrgangs“. Starfsmenn ÍG leggja mat á hvort aðgengi telst gott. Hafa skal í huga að losaðar eru tunnur frá í kringum 900 heimilum og allar tafir geta safnast upp og verið kostnaðarsamar. Höfnun á að losa tunnu beinir athygli að vandanum og verður vonandi til þess að aðgengi verði betra þar á eftir.

Fjórða spurningin hljóðar svo: „Hefur Norðurþing í huga að setja ruslatunnur á ljósastaura fyrir gangandi vegfarendur öllum til hagræðis?“ Já, stefnt er að því að koma fyrir fleiri tunnum í miðbænum og þar sem við búumst við miklum fjölda ferðamanna er sömuleiðis gert ráð fyrir tunnum á/við helstu gönguleiðir bæjarsins. Þessi liður sorphirðu sveitarfélagsins er þó ekki hluti af þjónustusamningi Norðurþings og ÍG, heldur sjá starfsmenn í þjónustumiðstöð um hirðingu þessara íláta.

Síðasta spurningin var um hvort ákvæði væri í samningi Norðurþings og ÍG sem bannar starfsmönnum ÍG að kanna hvort rusl sé í tunnum við hús sem enginn býr í, jafnvel þótt eigendur hússins greiði sorphirðugjöld. Ekki er sérstakt ákvæði í sorphirðusamþykkt eða útboðsgögnum um hvernig skuli sinna sorphirðu við tóm hús. Starfsmenn hafa leyft sér að skoða eingöngu í annað hvert skipti í tunnur við hús sem hafa alla jafna staðið auð. Þetta hefur ekki verið mikið vandamál, en ef fólk er óánægt þá er það hvatt til að láta starfsmenn ÍG vita og þeir munu losa tunnur í næstu ferð.

Að lokum er vert að koma nokkrum skilaboðum á framfæri er varða sorphirðuna almennt séð og gjöld henni tengd. Sorphirðugjald er sérstakur liður á fasteignagjaldaseðlum frá sveitarfélaginu og á það gjald að dekka þann kostnað sem sveitarfélagið greiðir vegna sorphirðu. Sveitarfélaginu er óheimilt að rukka hærra gjald en sem nemur kostnaði við málaflokkinn. Í dag er sorphirðugjald ekki að ná að dekka kostnað við sorphirðu og förgun og voru aðrir tekjuliðir að greiða 10.000.000 kr. með þessum lið í fyrra. Þetta er þó það minnsta sem hefur verið greitt með sorphirðu og förgun á síðastliðnum 10 árum.

Það er alveg skýrt að ábyrgðin á því að sorptunnur við heimili séu í lagi liggur hjá greiðendum sorphirðugjalda. Það er hvorki á ábyrgð Norðurþings né ÍG að passa að ferðamenn eða aðrir setji ekki rusl í tunnur við íbúðarhús í bænum. Við viljum hinsvegar hjálpa einstaklingum sem verða fyrir óþægindum og er sjálfsagt að líta til hvers tilviks sem upp kemur og aðstoða við að finna úrbætur, t.d. með því að læsa aðgangi að tunnum fyrir öðrum en eiganda þeirra. Hér skal bent á að lausar sorptunnur sem eru ekki fyrir heimili heldur fyrir gangandi vegfarendur eru ekki reknar fyrir sorphirðugjöld, heldur sem hluti af hreinsun opinna svæða hjá sveitarfélaginu og falla því ekki undir sorphirðugjöld. Það skal þó sagt að taka þarf skipulag og hirðingu lausra sorptunna til endurskoðunar í sveitarfélaginu. Það má til sanns vegar færa að sveitarfélagið Norðurþing hefur örugglega ekki staðið sig nægjanlega vel í upplýsingagjöf til íbúa sinna vegna breytinga á sorphirðufyrirkomulaginu árið 2015. Það er þó einlæg ósk okkar að gera betur í þeim efnum og nú er hugað að því að senda út uppfærða bæklinga með ítarlegum upplýsingum um sorpmálin, samhliða upptekt á klippikortum sem allir greiðendur sorphirðugjalds geta nálgast ímóttökustöð sorps í Víðimóum.

Fyrirhugaður er opinn íbúafundur um sorpmálin sem fram fer þriðjudaginn 4. júlí n.k. á Fosshóteli Húsavík og hefst hann kl 17:00. Nú um mánaðarmótin verður að auki sett í loftið Facebook-síða þar sem hægt verður að koma með fyrirspurnir og fá upplýsingar um sorphirðu í Norðurþingi. Við vonumst til þess að það geti að einhverju leyti bætt upplýsingaflæði til íbúa hvað varðar þennan mikilvæga málaflokk.

Að endingu skal það tekið fram að rekstraraðilar fyrirtækja eiga ekki að borga sorphirðugjöld og eiga að sjá um hirðu síns sorps sjálfir eða semja við þjónustuaðila um það. Þetta á líka við um gistiheimili og annan gistihúsarekstur. Gistiaðilar sem falla undir 90 daga regluna varðandi sölu gistinátta mega taka þátt í sameiginlegri sorphirðu en það er á þeirra ábyrgð að flokkun sé rétt. Hægt er að fá leiðbeiningar hjá ÍG svo líma megi upplýsingar um flokkunarkerfið á tunnurnar á fleiri tungumálum en íslensku.

Þakkir til Björgvins fyrir spurningarnar og þakkir til þeirra sem sent hafa inn til sveitarfélagsins athugasemdir og ábendingar um hvernig hlutirnir megi betur fara. Við hvetjum alla íbúa til að vera vel vakandi og láta vita hvar við getum gert betur. Eins og áður hefur komið fram er ómögulegt að bregðast við ef íbúar gera ekki vart við sig með formlegum athugasemdum inn til okkar.

Heilt yfir gengur sorphirðan á Húsavík og í Reykjahverfi mjög vel fyrir sig og árangur hefur náðst í málaflokknum á síðustu árum, bæði fjárhagslegur og umhverfislegur. Höldum áfram og einbeitum okkur að því að flokka sorpið okkar enn betur. Þannig náum við meiri árangri á báðum þessum vígstöðvum fjárhags og umhverfis.

Smári Jónas Lúðvíksson, garðyrkjustjóri,

Sigurgeir Höskuldsson, formaður Framkvæmdanefndar.


Nýjast