Sterkt bakland er lykilatriði

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

Nýliðið ár var þjóðarbúinu um margt hagstætt, sé litið á ýmsar opinberar og viðurkenndar hagtölur. Samkvæmt hagspá ASÍ má vænta áframhaldandi hagvaxtar, þótt eitthvað hægi á vextinum. Lendingin ætti engu að síður að verða tiltölulega mjúk.  Þega við metum stöðuna getum með öðrum orðum litið nokkuð björtum augum til framtíðar. Kjarasamningar þorra launafólks eru nú lausir og þessar jákvæðu hagtölur hljóta að vega þungt í kjaraviðræðunum.

Sanngjarnar og raunhæfar kröfur

Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað bent á að skattbyrði launafólks hefur aukist verulega, mest hjá þeim sem eru með lægstu tekjurnar. Slíkt hefur neikvæð áhrif á lífskjör og stöðugleika.

Allir eiga að búa við atvinnu- og afkomuöryggi og öflugt velferðarkerfi sem fjármagnað er með réttlátu skattkerfi.

Aðalkrafa verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðunum er að launafólk geti framfleytt sér af dagvinnulaunum og að þau mæti opinberum framfærsluviðmiðum. T.d. gerir Starfsgreinasambands Íslands kröfu um  að lágmarkslaun verði orðin 425 þúsund krónur á mánuði í lok samningstímans, skattkerfinu verði breytt þannig að láglaunafólk þurfi ekki að bera þyngstu byrðarnar og að bráður húsnæðisvandi verði leystur.

Verkalýðshreyfingin undirbjó kröfur sínar af kostgæfni og telur þær raunhæfar og sanngjarnar. Það fer ekki allt á hliðina þótt samið verði á þessum nótum.

Samráð við félagsmenn um mótun kröfugerðar

Við mótun kröfugerðarinnar skipti höfuðmáli að ná til sem flestra. Eining-Iðja kappkostaði að kalla eftir áliti sem flestra félagsmanna við undirbúning kröfugerðarinnar og efnt var til fjölda funda á öllu félagssvæðinu, þar sem rætt var um hvaða þætti  félagið ætti að leggja áherslu á í kjaraviðræðunum.

Gerðar voru viðamiklar skoðanakannanir til þess að fá glögga mynd af viðhorfi félagsmanna. Í lögum Einingar-Iðjur er einmitt tekið fram að tilgangur Einingar-Iðju sé að sameina allt launafólk sem starfar á félagssvæðinu, vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.

Fjórðungur býr í leiguhúsnæði

Verkalýðshreyfingin leggur þunga áherslu á að stórátak verði gert í húsnæðismálum. Samkvæmt könnun Gallup búa tæp 24% félagsmanna í Einingu-Iðju í leiguhúsnæði og 13% í foreldrahúsum.

Húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er gríðarlegur og hið opinbera verður að stórbæta réttarstöðu þeirra sem leigja húsnæði og sömuleiðis þarf að styðja við fólk sem vill eignast húsnæði.

Verkalýðshreyfingin hefur haft frumkvæði að mótun og endurreisn félagslegs leiguíbúðakerfis og beitt sér fyrir því að byggt verði upp varanlegt og traust kerfi. Bjarg íbúðafélag var stofnað í lok árs 2016 og er félagið rekið án hagnaðarmarkmiða. Stefnt er að því að á Akureyri verði á næstu misserum byggðar 75 íbúðir á vegum félagsins.

Eining-Iðja mun áfram leggja sín lóð á vogarskálarnar, þannig að þetta brýna hagsmunamál verði að veruleika, enda styðja langflestir félagsmanna Einingar-Iðju aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að byggingu leiguíbúða.

Ánægja með félagið

Samkvæmt nýrri viðhorfs-og kjarakönnun sem Gallup gerði fyrir Einingu-Iðju kemur glögglega í ljós að félagsmenn eru ánægðir með þjónustu félagsins. 95,5% sögðust vera „sáttir“ eða „hvorki né,“ þegar spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við félagið þegar á heildina væri litið. 72% félagsmanna sögðust vera „ánægðir“ og 23% „hvorki né.“

Þessi niðurstaða er sérlega ánægjuleg, þar sem á síðasta ári var fagnað 100 ára sögu verkalýðshreyfingar á Eyjafjarðarsvæðinu. Eining-Iðja stendur vel á þessum tímamótum og innviðir þess eru sterkir.

Þökk sé félagsmönnunum.

Afstaða félagsmanna til hugsanlegs verkfalls

Stíf fundahöld eru framundan við samningaborðið og þá skiptir miklu máli að fulltrúar launþega hafi sterkt bakland. Samkvæmt fyrrgreindri könnun sem Gallup gerði fyrir félagið, segjast 64% „líklega“ vera tilbúin(n) að fara í verkfall til að knýja á um bætt kjör. 17% svöruðu „hvorki né“ og 18% „ólíklegt.“

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar eru sanngjarnar og raunhæfar og við vitum mæta vel að samstaða skilar árangri. Félagsmenn í Einingu-Iðju og aðrir landsmenn. Bestu óskir um um gleðilegt ár með þökkum fyrir góða samvinnu á fyrri árum.

-Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands

 

 


Nýjast