Steinholt – saga af uppruna nafna

Rif á Melrakkasléttu.
Rif á Melrakkasléttu.

Nýverið var opnuð í Safnahúsinu sýning ljósmyndarans Christopher Taylor “Steinholt - saga af uppruna nafna.” Á sýningunni er fjöldi heillandi ljósmynda sem teknar voru á síðustu árum í Norður Þingeyjarsýslu. Steinholt er þriðja ljósmyndaröð Christopher sem tileinkuð er Íslandi, heimalandi Álfheiðar eiginkonu hans.

Ljósmyndarinn Christopher Taylor fæddist á Englandi árið 1958. Áhugi hans á ljósmyndun vaknaði þegar hann, ungur að árum fékk sumarstarf sem „strandljósmyndari.“ Þessi áhugi varð viðvarandi og á næstu áratugum vann Christopher að ýmsum ljósmyndaverkefnum. Árið 1986 var fyrst haldin sýning á verkum hans í Impressions gallerý í York. Við vinnu sína notar Christopher gamaldags myndavélar og svarthvítar filmur. Hann framkallar verk sín sjálfur í myrkraherbergi sínu í Frakklandi.

Á 9. áratug síðustu aldar ferðaðist Christopher mikið um Asíu, einkum Indland og Kína. Ár eftir ár drógu þessi svæði hann til sín og þar vann hann fjöldan allan af sýningum, bókum og verkefnum.

Christopher kynntist Íslandi í gegnum eiginkonu sína Álfheiði Haraldsdóttur. Álfheiður á rætur og sterk tengsl við Þórshöfn og nágrenni. Föðurforeldrar hennar Álfheiður Vigfúsdóttir og Sigfús Helgason hófu búskap í Flautafelli í Þistilfirði en fluttu síðan til Þórshafnar. Þar byggðu þau sér húsið Steinholt árið 1929.

Steinholt

Álfheiður yngri var alin upp í Reykjavík en var á sumrin send til ömmu sinnar og nöfnu á Þórshöfn til dvalar. Þaðan á hún hluta sinna bestu æskuminninga, minningar um samvistir við fyrirmyndina ömmu sína og griðastaðinn Steinholt. Álfheiður hefur lengi verið búsett í Frakklandi ásamt eiginmanni sínum. Sumarið 2009 heimsótti hún Þórshöfn, með það að markmiði að laga krossinn á leiði ömmu sinnar sem látist hafði 24 árum áður. Þar tóku örlögin völdin, atburðarás hófst sem endaði með því að Agnar þáverandi eigandi Steinholts bauð þeim hjónum að kaupa húsið, þar sem hann taldi sínum tíma þar lokið. Það varð úr að þau keyptu húsið og þar með var verkefnið um Steinholt hafið.

Steinholt

Sýningin er sprottin úr íslenskum hversdagsleika, tengslum foreldra og forfeðra, hefðinni að skíra í höfuðið á ættingjum og minningum einstæðings. Hún er innblásin af forfeðrum Álfheiðar sem ferðuðust vítt og breitt um svæðið í leit að atvinnu og bættum lífsskilyrðum. Sjálfur ferðaðist Christopher mikið um svæðið í leit sinni að efnivið fyrir sýninguna. Hann var oftast einn á ferð með myndavélina, akandi, hjólandi og gangandi. Hann fór á slóðir þar sem enn mátti sjá ummerki í náttúrunni um fólkið sem þar eitt sinn bjó. Hann hefur dvalið langtímum saman á Þórshöfn, er þar ekki lengur aðeins gestur heldur hluti mannlífsins.

Ljósmyndirnar varpa ljósi á fortíðina og þann veruleika sem samtíminn er sprottinn úr. Reynslusögur manna og kvenna sem háðu lífsbaráttu við erfiðar aðstæður, hokruðu í búskap og sóttu sjóinn á bátkænum, hafa verið sýningarhöfundi innblástur í verkefninu. Landslag, byggingarlist, dýr og andlitsmyndir eru grunnstef þessarar myndaraðar líkt og hinna tveggja sem Christopher hefur tileinkað landinu.

Sýningin hefur verið sett upp víða um heim. Fyrst var hún sett upp árið 2015 í Fundació Forum í Tarragone á Spáni. Hún var síðan sett upp á þremur stöðum í Kína á síðasta ári, í Ofoto gallerý í Shanghai, Mo Art Space nálægt Zhengzhou og Meicheng gallerí Hong Kong. Fyrr á árinu var sýningin sett upp í gallerý Camera Obscura í París. Hér á landi var sýningin fyrst sett upp í Þjóðminjasafni Íslands á vordögum 2017, hluti hennar var settur upp í Sauðaneshúsi eina helgi í júlí og nú er þessi víðförla sýning komin til okkar hingað á Húsavík.

Bókin Steinholt var gefin út fyrr á þessu ári. Í henni eru ljósmyndir Christopher ásamt texta eftir hann sjálfan og Monica Dematté. Bókin er afar falleg, enda vandað til allra þátta útgáfunnar.

Steinholt - saga af uppruna nafna verður í Safnahúsinu til septemberloka.

Sif Jóhannesdóttir


Nýjast