Sæluhús Reykhverfinga 30 ára

Fjárbændur í Reykjahverfi eru að vonum ánægðir með húsið. F.v. Árdís Sigurðardóttir, Tryggvi Óskarss…
Fjárbændur í Reykjahverfi eru að vonum ánægðir með húsið. F.v. Árdís Sigurðardóttir, Tryggvi Óskarsson með Heiðu Selmdísardóttur, Sigurður Páll Tryggvason, Helga Guðrún Helgadóttir, Sigurður Ágúst Þórarinssn, Esther Tryggvadóttir og Þráinn Ómar Sigtryggson.

Það var mikið um dýrðir hjá sauðfjárbændum í Reykjahverfi um helgina, en þá var haldið upp á 30 ára afmæli sæluhússins við Sæluhúsmúla. Þar var hlaðið veisluborð því allir lögðu eitthvað til veislunnar og veitingarnar voru mjög ríkulegar. Í gegnum árin hefur hús þetta komið í góðar þarfir og samkvæmt gestabókum hefur mikill fjöldi fólks komið þar við, gist þar eða átt þar skemmtilegar stundir.

Það var 31. ágúst 1987 sem bændur í Reykjahverfi komu saman á Þverá í Reykjahverfi hjá þáverandi fjallskilastjóra Tryggva Óskarssyni. Hann stakk þá upp á því að byggt yrði sæluhús á Reykjaheiði við Sæluhúsmúla og var þessari hugmynd mjög vel tekið. Að sögn Tryggva tók það ekki langan tíma að að ákveða framkvæmdir því mikill einhugur skapaðist um það að drífa í þessu.

Sæluhús

Húsið skyldi vera 50 fermetrar og vera fyrir bæði menn og hesta. Næstu dagar fóru í að útvega efni og negla saman grindur þ.e. stafna og hliðar. Þann 5. september var allt tilbúið og þá var lagt á stað upp að Sæluhúsmúla með fjóra vagna fyrir tækjum og á þeim einingar sem búið var að klára þannig að húsið var tilbúið til þess að reisa það. Dagana 8.-9. sept. var húsið klárað og stjórnaði Tryggvi Óskarsson verkinu, en allt var gert í sjálfboðavinnu. Efnið fékkst á góðu verði og varð húsið því ekki mjög dýrt.

Smalað í nær sjö áratugi

Í veislunni um helgina sagði Tryggvi frá gangi framkvæmdanna og sagði að sæluhúsið hefði strax komið að miklu gagni, en það var í þá daga sem Reykhverfingar áttu margt fé í Kelduhverfi. Reksturinn var langur af Kelduhverfisréttum og því var gott að vera búinn að fá áfangastað við Sæluhúsmúla.

Tryggvi hefur nú smalað fé í nær 7 áratugi og aldrei sleppt úr hausti og var lengi fjallskilastjóri. Hann man orðið tímana tvenna og hefur smalað með mörgum kynslóðum. Hann smalaði á sínum tíma með föður sínum og afa, en smalar nú með börnum sínum og barnabörnum. Svo er hann orðinn langafi og telur nokkuð víst að hann eigi eftir að smala með barnabarnabarninu sem nú er að byrja að vaxa úr grasi. Það er sjötta kynslóðin sem hann mun smala með og enn er hugur í honum.

Sæluhús

Sæluhúsið hefur í gegnum árin fengið nauðsynlegt viðhald, en að undanförnu hafa sauðfjárbændur í Reykjahverfi gert mikið fyrir húsið. Það var klætt að utan með járnklæðningu og á það var sett ný hurð. Það hefur því fengið mikla andlitslyftingu og þess má geta að fjárræktarfélagið fékk minningargjöf um Guðnýju J.Buch, áður bónda á Einars stöðum, sem var notuð til þess að kaupa og setja upp fína lýsingu í húsið sem kemur að góðum notum. Allir eru mjög ánægðir með þetta sæluhús fjáreigenda í Reykjahverfi og það á örugglega eftir að veita mörgum skjól og þar á eftir að syngja og gleðjast um ókomna framtíð.

Samhugur sveitunga

Guðrún Sædís Harðardóttir í Skarðaborg orðar þetta svo:

Samhugur sveitunga reisti hér hús,

fyrir þrjátíu árum var hver og einn fús,

hjálp að veita og við byggingu þess vinna,

til að við myndum síðar þar griðarstað finna.

 

Á haustin sjá má þar hestastóð,

smala gantast og kyrja ljóð.

Söngur þeirra sigrar þreytu og drunga,

í Sæluhúsi Reykhverfinga

Atli Vigfússon frá Laxamýri


Nýjast