Ryk dustað af greinarkorni – í fullri vinsemd

Sumar vísur eru aldrei of oft kveðnar.

Greinarkorn, sem ég birti hér í blaðinu fyrir tveimur árum, á því miður enn við að mörgu leyti. Því er rétt að dusta rykið af sumu sem þar var að finna og bæta öðru við, sem ég beini til bæjaryfirvalda – í fullri vinsemd.

1. Typpin í miðbænum; málmstaurar sem standa upp úr steinilögðum strætum við Ráðhústorgið, eru engum til góðs en mörgum til ama. Um það bil 30 rispur voru á hverju typpi að meðaltali fyrir tveimur árum og hefur fjölgað siðan. Þá gaf ég mér að viðgerðarkostnaður vegna skemmda á bílum sem ekið höfðu á eða nuddast utan í typpin væru um  85 milljónir. Vissulega búbót fyrir bílaverkstæði bæjarins, en óþarfa fjárútlát fyrir bíleigendur. Þessi tala hefur hækkað töluvert á tveimur árum.

Ef endilega verða að vera einhvers konar hindranir legg ég til að þær verði úr plasti eða þá lágir hnúðar. Steinkúlurnar í Hafnarstræti eru til allrar guðs lukku farnar. Þær höfðu kostað margar beyglur og valdið mörgum bílstjóranum tilfinningalegu tjóni. Ráðhústorg stendur autt en þakka ber grasreit sem þar hefur verið komið fyrir yfir sumarið síðustu ár. Upplagt þætti mér að hverfa til fyrra horfs, með grasflöt og leyfa akstur hringinn í kringum torgið og parkeringar; leyfa svæðinu að njóta sín en loka að sjálfsögðu 17. júní.

2. Rétt er að nefna líka fyrirhugaða þrengingu hluta Glerárgötunnar. Þá hugmynd er mér fyrirmunað að skilja. Ég hef ekki orðið þess var að bílum sé ekið mjög hratt eftir þessum kafla þjóðvegar 1, enda erfitt um vik þar sem umferðarljós eru með nokkurra tuga metra bili frá Glerárbrú inn að Kaupvangsstræti. Til hvers að þrengja götuna?

3. Nú orðið felst líkamsrækt mín í því að ég geng gjarnan upp kirkjutröppurnar á kvöldin og banka uppá hjá almættinu, sem er reyndar sjaldnast við. En þegar niður er komið aftur verður mér stundum mál og þá er ekki í mörg hús að venda. Ef það er um helgi get ég komið við á Götubarnum, en það er dónaskapur að fara inn á svoleiðis stað og spyrja hvort maður geti fengið að pissa. Þess vegna fæ ég mér einn bjór í leiðinni og er þá fljótlega kominn í vandræði aftur. Það er ótrúlegt að ekki skuli vera almenningsklósett í miðbænum. Hvernig getur Akureyri leyft sér það, þegar jafn margir ferðamenn koma til bæjarins og raun ber vitni? Er virkilega ekki hægt að kippa þessu í liðinn?

Skotið við innganginn í húsið mitt við Ráðhústorg nota menn gjarnan um helgar sem salerni og skila jafnvel úr efri endanum líka. Skotið er oft óhugnanlegt að morgni laugardags og sunnudags en ég dáist að hreinsunarmönnum bæjarins.

4. Vinur sem heimsótti mig erlendis frá benti mér á eitt sem tilfinnanlega vantar í bæinn. Nafn Akureyrar, á fallegum, áberandi stað. Ferðamenn vilja láta mynda sig við slík kennileiti, fullyrti hann, og líklega er það rétt. Sumir vita ekki einu sinni í hvaða bæjarfélagi þeir eru staddir þegar þeir koma hingað, því það stendur hvergi, sagði þessi sami vinur. Hugmyndin um að nafni bæjarins verði komið fyrir á fallegum stað finnst mér góð.

Að endingu er rétt að taka fram, eins og í téðri grein fyrir tveimur árum, að á Akureyri vil ég vera og hvergi annars staðar.

Arngrímur Jóhannsson


Nýjast