Orðið erfiðara að manna skipin með góðum og vönum sjómönnum

„Góður og klár sjómaður hefur ígildi doktorsprófs í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, um aldir,“ s…
„Góður og klár sjómaður hefur ígildi doktorsprófs í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, um aldir,“ skrifar Eiríkur Sigurðsson.

Svo því sé til haga haldið telur undirritaður að það sé fullkomin tímaskekkja að skylda stærri fiskiskip til að sigla í land vegna sjómannadags þó það hafi verið réttlætanlegt í firndinni þegar eingöngu var róið á dagróðrabátum. En ég ræð auðvitað engu um það og óska sjómönnum  öllum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Sjómenn

Eftir að hafa verið samningslausir árum saman lögðu sjómenn á sig langt verkfall eftir síðustu áramót, til að reyna að kría út sanngjarnar kjarabætur en mér virðist að ávinningurinn af því hafi verið svo lítill að tekjutapið vinnist seint eða aldrei til baka og var ekki það sem lagt var upp með.

En það sem er erfiðast í rekstri sjávarúrvegsfyrirtækja eru þessar ofboðslegu sveiflur á gengi krónunnar og það er þá sjálfkrafa erfiðast fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra líka, þar sem þeir vinna í hlutaskiptakerfi. Þegar gengi krónunnar er eins sterkt og núna er erfitt að manna skipin með góðum og vönum sjómönnum og margir sjá lítinn tilgang í því að vera á sjó þegar hægt er að fá jafn góð eða betri laun í landi. Þetta er að gerast núna og stefnir í vandræði á mörgum skipum.

Ég man þá tíð fyrir tíu til fimmtán árum að varla fékkst nothæfur mannskapur á íslensku skipin en það breyttist svo heldur betur í kjölfar hrunsins, þegar gengi krónunnar hrundi. Þá var slegist um hvert pláss og sjómenn höfðu góð laun í nokkur ár þangað til gengið fór að styrkjast á ný. Margir hámenntaðir landkrabbarnir horfðu á þeim tíma öfundaraugum á sjómenn úr hlýrri og notalegri skrifstofunni, sem aldrei hreyfist í brælu, og fannst ósanngjarnt að menn sem ekki hafa menntun úr háskóla geti haft góð laun en gleyma því um leið að sú kunnátta og færni sem þarf til að fiskiskip skili verðmætum afla í land kemur ekki af sjálfu sér og góður og klár sjómaður hefur ígildi doktorsprófs í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, um aldir.

Vönu og kláru mennirnir verða að taka nýliðana undir sinn verndarvæng og kenna þeim starfið frá a til ö, jafnframt því að sinna sínu fulla starfi sem lykilmenn í áhöfn, en fá samt ekkert greitt aukalega fyrir að vera kennarar. Því til viðbótar er það stundum nær fullt starf bara að passa að nýliðarnir fari sér ekki að voða.

Sjómenn

Það er að mörgu leyti erfiðara fyrir ungt fólk að byrja á sjó núna en var. Fiskiskipum hefur fækkað mjög mikið um leið og þau hafa stækkað og jafnframt fækkað í áhöfn. Ungt fólk í dag kann allan andskotann sem ég kunni ekki á sama aldri og er örugglega klárara á flestum sviðum, en fæst af því nýtist til sjómennsku. Áður var algengt í sjávarplássum að krakkar væru að þvælast á bryggjunum og í beitningaskúrunum frá unga aldri, ólust upp í þessu umhverfi og þekktu því hugtökin og vissu hvað hlutirnir hétu. Það hjálpaði allt við að komast inn í starfið ef þau völdu sjómennsku. En það hefur allt breyst og það gagnast lítið á sjó að vera klár í einhverjum tölvuleikjum og snjallsímafikti.

Núna er staðan þannig að margir sjómenn hafa mjög lág laun og flótti brostinn á í stéttinni, enda næga vinnu að hafa í landi. Þar með hverfur verðmæt kunnátta og margir duglegir sjómenn fara ekki aftur á sjó eftir að hafa byrjað að vinna í landi. Fátt er erfiðara fyrir skipstjóra en tíð mannaskipti því vinnan um borð verður að ganga snurðulaust, sérstaklega í slæmum veðrum og slysahætta eykst umtalsvert ef ekki eru allir með sín hlutverk á hreinu.

Nú er ég ekkert að halda því fram að nýjir menn geti ekki lært störfin en það bara tekur langan tíma og enginn fæðist með þeim ósköpum að vera góður sjómaður. Ég held t.d. að varla þýði að reyna að útskýra flækjustigið og slysahættuna við að taka trollið óklárt í brælu fyrir þeim sem ekki þekkja og hvað þá ef þau eru orðin tvö eða þrjú eins og nú er algengt.

Það er ekki síst kunnátta í netagerð og meðferð veiðarfæra sem glatast við að missa vana menn í land. Sú sérhæfða kunn­ átta fæst nær eingöngu með mikilli vinnu og langri reynslu, þó hægt sé að læra undirstöðuna í iðnskóla. Skortur á netamönnum er reyndar alþjóðlegt vandamál og ungir menn fást ekki til að læra fagið.

Það er þessi óstöðugleiki sem er erfiðastur fyrir sjávarútveginn og alls ekki eingöngu vegna launa sjómanna. En það er nær ógjörningur að halda þeim topp-mannskap sem þarf, þegar gengið hendist út og suður.

Sjómannadagurinn líður eins og hver annar dagur á mínu skipi og allir á fullu í vinnu eins og alla aðra daga. Það er því lítil von um tertu hjá kokknum en hann gæti tekið uppá því að opna ísdollu í eftirrétt - en bara vegna þess að það er sunnudagur.

Eiríkur Sigurðsson, skipstjóri. 

- Skarpur, 15. júní 2017


Nýjast