Ólíkt er aðhafst

"Rænuleysi bæjarstjórnarinnar er algjört. Gefins bílhlössin úr Vaðlaheiðargöngum óhreyfð," segir í grein Hjörleifs. Mynd/HH

Í fréttum fyrir stuttu var sagt frá framtakssemi Siglfirðinga og bæjarstjóra Fjallabyggðar, Gunnars Birgissonar, sem reyndur er að því að láta verkin
tala. Allt að því landsfrægur fyrir atorkusemi og dugnað. Flugvöllur þeirra Siglfirðinga hafði verið ófær og lokaður allri flugumferð af ýmsum ástæðum um árabil, en fyrir tilstuðlan heimamanna með bæjarstjórann, Gunnar Birgisson, í broddi fylkingar er svo komið að búið er að opna flugvöllinn til notkunar og hefur hann verið gerður í nothæft ástand með öll tilskilin leyfi.

Þetta er auðvitað stórt og mikið framtak og á eftir að veita Siglfirð­ingum og allri Fjallabyggð ómældan uppgang t.d. í ferðamennsku og öðru
með tilkomu öruggra flugsamgangna. Mér datt þetta svona í hug þegar ég sá og myndaði vörubílshlössin í tugum, sem keyrð hafa verið gefins úr Vaðlaheiðargöngum. Ekki einu sinni ræna hjá bæjarstjórn að fara með jarð­ýtu á hlössin og jafna úr þeim, hvað þá heldur að halda áfram og klára flughlaðið, sem myndi stórauka flugumferð frá útlöndum með tilheyrandi streymi farþega í bæinn og allir myndu græða og Akureyrarbær líka.

Undarleg hagfræði

Ég og fleiri hafa ekki skilið þá hagfræði, sem liggur að baki hugsunarhætti og vinnubrögðum bæjarstjórnar með peningaaustrinum í Listasafnið sem engu skilar. Og raunar fleiru þegar svo margt annað nauðsynlegt situr á hakanum. Stundum er talað um að verið sé að
henda krónunni en hirða eyrinn. Við hefðum þurft að hafa annan Gunnar Birgisson hér sem bæjarstjóra, frekar en sum dauðyflin sem á undan hafa verið. Vonum að nýr bæjarstjóri reynist röggsamur, en það skal ég láta þá ágætu konu vita að hún er lent í úlfahjörð.

Það er vitað að Isavia á að borga fyrir flughlaðið en væri ekki nær að bæjarstjórnin setti eins og 150-­200 hundruð milljónir í verkið til að klára
það og fá þá peninga margfalt til baka þó Isavía borgaði aldrei neitt, þó væru þeir líklega frekar tilbúnir að borga frekar en Svandís Svavarsdóttir.
Að lokum kemst ég ekki hjá að minnast á tengibygginguna frægu á milli Ketilhússins og Listasafnsins, sem kostar vart undir 100 milljónum. Þar er
státað af kaffihúsi en á sama tíma eru ekki færri en 10 kaffihús og veitingastaðir bara í miðbænum. Á þetta kaffihús bara að hýsa listasnobbið?

Það hefði verið óvitlaust að setja nokkrar krónur í að opna salernin undir kirkjutröppunum þó ekki væri nema til að létta á blessuðu guðsfólkinu, prestunum, sem eiga fullt í fangi með að vísa óvelkomnum túristum frá því eina salerni, sem í kirkjunni er og einn presturinn hefur nýverið tjáð sig um í fjölmiðlum.

-Hjörleifur Hallgríms


Nýjast