Mikilvægi góðrar geðheilsu fyrir ungmenni

Í starfi mínu sem framhaldsskólakennari hef ég séð hversu mikilvæg góð geðheilsa er. Þar sem langflest íslensk ungmenni hefja framhaldsskólanám á þessum aldri ætti að vera ljóst að skólinn er mikilvægur vettvangur fyrir geðrækt.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt núna á síðari árum að skólar og menntun eru meðal helstu áhrifavalda geðheilbrigðis barna og ungmenna. „Heilsueflandi framhaldsskólar‟ er heildstætt heilsueflingarverkefni sem Embætti landlæknis kom á fót árið 2007 og er framhaldsskólinn á Húsavík þar virkur þátttakandi. Meginmarkmið þess er að stuðla að enn betri heilsu nemenda og starfsfólks í framhaldsskólum og eru skólarnir sjálfir hvattir til að móta sér þar langtímastefnu.

Alls eru fjögur viðfangsefni í verkefninu „Heilsueflandi framhaldsskóli‟ og er eitt þeirra geðrækt. Einungis eitt málefni er tekið fyrir á hverju ári og skólaárið 2016-2017 er geðræktarár í FSH. Lagt er upp með heildarskólanálgun þar sem geðræktarverkefnið er samtvinnað við annað starf í skólasamfélaginu auk þess sem tengslin við jafnt foreldra sem nærsamfélag er styrkt.

Geðheilsa og vellíðan er eitt af lykilatriðum í lífi hvers einstaklings og þjóðfélags. Farsæl samfélagsleg þróun, jákvæð félagsleg samskipti, almenn lífsgæði og félagslegt réttlæti er allt m.a. komið undir góðri geðheilsu. Á síðari árum hefur orðið mikil vitundarvakning í þessum efnum.

Geðrækt þykir sértaklega mikilvæg hjá ungu fólki sem er að fara í gegnum umbrotatíma frá barnæsku yfir á fullorðinsár. Margvísleg þroskaverkefni einkenna þennan tíma eins og að öðlast sjálfstæði frá foreldrum og forráðamönnum, mótun sjálfsmyndar, tengjast öðrum nánum tilfinningaböndum og ákvarða menntun og framtíðarstörf. Miklar félagslegar breytingar hafa orðið á samfélaginu síðustu áratugi. Upp eru runnir tímar þjóðfélaga sem nefnd eru postmodernísk og einkennast af skjótum samskiptum, risafjölmiðlum, netnotkun, gríðarlegu upplýsingastreymi og alþjóðavæðingu.

Þessum breytingum í lífi ungmenna getur fylgt andlegt álag og ýmis konar geðheilsuvandi sem getur sett mark sitt á líf þeirra með alvarlegum hætti. Geðheilsuvandi í einni eða annarri mynd er það heilsuvandamál sem er algengast meðal ungs fólks í dag. Fram hefur komið í ítarlegum rannsóknum að algengast sé að geðraskanir komi fyrst fram hjá unglingum og ungu fólki á aldursbilinu 13 til 24 ára, eða um 75% allra geðraskana. Fram kemur í vel rökstuddum rannsóknum að á hverju ári glími u.þ.b. fjórðungur ungmenna á þessu aldursbili við geðraskanir af einhverju tagi. En þá má spyrja hvort þeir sem ekki hafa geðraskanir teljist þar með sjálfkrafa geðheilbrigðir? Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er geðheilbrigði ekki aðeins það að vera laus við geðraskanir heldur einnig það „ástand þar sem okkur líður vel, getum nýtt hæfileika okkar til fulls, tekist farsællega á við verkefni daglegs lífs og átt uppbyggileg og ánægjuleg samskipti við fólkið í kringum okkur“.

Í ljósi þess að stór hluti hvers aldurshóps hér á landi innritast í framhaldsskóla ætti að vera ljóst að þeir eru mikilvægur vettvangur til að efla geðheilbrigði og draga úr eða koma í veg fyrir geðraskanir. Góð geðheilsa stuðlar að farsælu námi og jákvæðu þjóðfélagi.

Gunnar Árnason

Kennari við FSH


Nýjast