Miðbærinn og Glerárgatan

Gunnar Gíslason
Gunnar Gíslason

Á síðasta fundi bæjarstjórnar 20. júní s.l. óskuðum við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir umræðu um nokkra þætti miðbæjarskipulagsins í ljósi umfjöllunar um það í drögum að nýju aðalskipulagi 2018-2030. Þennan fund sat sem áheyrandi Ragnar Sverrisson kaupmaður og mikill áhugamaður um miðbæinn á Akureyri. Ragnar á hrós skilið fyrir áhuga sinn og elju fyrir því að miðbærinn verði byggður upp og efldur. Hann skrifar hins vegar grein sem birtist í Akureyrarblaðinu sem kom út 7. júlí s.l. sem vert er að bregðast aðeins við, ásamt því að reifa aðeins sjónarmið okkar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Ragnar segist hafa setið opinmynntur við að hlusta á umræður bæjarfulltrúa og velt því fyrir sér hvort það hafi farið framhjá þeim að það er búið að verja að hans sögn á annað hundrað milljóna í gerð nýs aðalskipulags sem þýddi það að það væri löngu búið að afgreiða það og ræða til hlítar allt sem að því snýr. Þarna hlýtur Ragnar að vera vísa til umræðunnar um Glerárgötuna, þó það komi ekki beint fram. Það sem vekur athygli í málfutningi Ragnars er fullyrðingin um að málin séu útrædd og afgreidd. Þetta segi ég í ljósi þess að í kosningabaráttunni 2014 fórum við víða og hittum marga Akureyringa. Það virtist koma þeim langflestum í opna skjöldu að það væri búið að samþykkja að þrengja Glerárgötuna og kom skýrt fram hjá flestum þeim sem við ræddum við að það þætti þeim ekki góð ákvörðun. Þetta ásamt umræðu á samfélagsmiðlum og víðar síðar hefur staðfest að þetta mál er langt í frá útrætt.

Hliðrun Glerárgötunnar

Það hefur farið undarlega hljótt að í miðbæjarskipulaginu er gert ráð fyrir hliðrun Glerárgötunnar til austurs, mest um 12m í átt að Hofi. Í greinargerð með miðbæjarskipulaginu sem samþykkt var 2014 er sáralítið minnst á þessa hliðrun götunnar og einu rökin sem þar eru færð, koma fram í svari við athugasemdum sem bárust við tillögunni á sínum tíma voru að færslan sé nauðsynleg til að koma fyrir nægilega stórum byggingarreitum á Hofsbótinni og er forsenda þess að laða fjárfesta að uppbyggingu í miðbænum.

Í þessu sambandi þarf að huga að tveimur þáttum. Nú þegar er kvartað undan umferðarnið frá Glerárgötuninni í Hömrum í Hofi. Hvernig verður það mál leyst með hliðrun götunnar enn nær Hofi. Það hlýtur að kosta breytingar. Hitt sem þarf að huga að er að með hliðrun götunnar þarf að færa til mikið af lögnum sem eru í henni og það mun kosta stórfé eftir því sem kunnugir segja. Það er vandséð að gatnagerðargjöld af stærri byggingarreitum standi undir þeim kostnaði sem hér mun falla til, ef af verður.

Þrenging Glerárgötunnar

Helstu rökin fyrir því að þrengja Glerárgötuna eru þau að samkvæmt vönduðum mælingum og norskum staðli beri ein akrein í hvora átt alla umferð um Glerárgötuna fram yfir 2030. Þannig verði með lækkun á umferðarhraða á götunni að hluta úr 50 km í 40 km hámarkshraða hægt að auka öryggi þeirra sem eru gangandi og hjólandi, því þetta styttir þá m.a. gangbrautir yfir akreinar. Þetta er allt gott og blessað, en það liggur fyrir að Vegargerðin hefur samþykkt þessa þrengingu með því skilyrði að það sé hægt að breikka götuna aftur ef þörf krefur, þannig að hún hverði tvær akreinar í hvora átt. Þetta er lykilatriði í málinu þar sem hér er um þjóðveg í þéttbýli að ræða. Samkvæmt þeim vönduðu gögnum sem liggja til grundavallar ákvörðuninni fóru í fyrra 9.700 bílar á sólarhring um Glerárgötuna við Hofsbót. Áætlað er að 12.100 bílar fari um götuna á sólarhring á þessum stað árið 2030 og um og eftir 2035 verði umferðin orðin 15.000 bílar á sólarhring. Þetta þýðir einfaldlega það samkvæmt áðurnefndum staðli að það verður að breikka götuna aftur í kringum 2035, þ.e. eftir 17 ár. Reyndar teljum við að þessi tími verði mun styttri þar sem líklegt má telja að umferðarþunginn aukist mun hraðar en hér er gengið út frá.

Með öðrum orðum er engin glóra í því að fara í kostnaðarsamar aðgerðir við þrengingu götunnar til að auka umferðaröryggi á svæðinu. Það væri miklu nær að fara strax í framkvæmdir við að auka umferðaröryggi með öðrum hætti s.s. hraðamyndavélum, göngubrú eða göngum undir götuna. Það liggur fyrir að það þarf hvort eð er í slíkar framkvæmdir eftir 2035. Við hljótum öll að vera sammála um að við viljum auka umferðaröryggi allra vegfarenda þarna sem annars staðar.

Glerárgatan er þjóðvegur

Þar sem Glerárgatan er þjóðvegur er ekki að undra að athugasemdir hafi borist vegna tillögunnar um þrengingu götunnar í fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi 2018-2030, frá sveitarstjórnum í Eyjafirði. Það eru klárir hagsmunir íbúa í nágrannasveitarfélugunum að umferð sé greið um helstu aðkomuleið bæjarins. Sumir hafa brugðist með hálfkæringi við þessum athugasemdum og finnst að þrenging Glerárgötunnar sé fyrst og fremst mál Akureyringa. Ef þetta er viðhorfið, hvernig ber þá að líta á baráttu okkar Akureyringa fyrir bættum flugsamgöngum til og frá Reykjavík? Þetta kemur vissulega nágrönnum okkar við sem sækja hingað ýmsa þjónustu. Við Akureyringar eigum að kappkosta að taka áfram vel á móti fólki og ein leið til þess eru greiðar samgöngur um og í gegnum bæinn.

Nýting skattfjár

Það er alveg ljóst af því sem fram hefur komið að það væri hrein sóun á skattfé Akureyringa að hliðra Glerárgötunni og og þrengja hana. Kunnugir telja að það muni hlaupa á hundruðum milljóna, allt að milljarði, að fara í þessar framkvæmdir. Og til hvers? Það er mikilvægt að taka ákvörðun sem allra fyrst um að hætta við þessar framkvæmdir og endurskoða stærðir byggingarreita á Hofsbótarreitnum, þannig að hægt sé að fara að huga í alvöru að uppbyggingu þar, þegar byggingarframvæmdum á Drottningarbrautarreitnum lýkur. Þá verði einnig farið að huga að varanlegum leiðum til að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Þannig nýtum við skattfé á skilvirkan hátt.

Niðurlag

Í umræðum í bæjarstjórn var ekki að merkja að það lægi fyrir skýr afstaða til þess hvað gera skuli nema hjá okkur sjálfstæðismönnum. Það kom reyndar fram í umræðum bæjarfulltrúa á umræddum fundi hvort ekki væri réttast að setja málið í íbúakosningu. Þeirri tillögu fögnuðum við enda höfum við lagt það til áður og leggjum til að sú kosning verði ekki seinna en í haust.

Það er brýnt að verkin verði látin tala sem fyrst og undir það get ég tekið með Ragnari Sverrissyni í umræddri grein. Við erum bara ekki sammála um á hvaða forsendum það verði gert og í ljósi þess sem hér hefur komið fram ætti það að vera alveg ljóst að það er mjög brýnt að breyta gildandi miðbæjarskipulagi.

-Höfundur er bæjarfulltrúi

 


Nýjast