Leiðin langa frá orðum til athafna

Ragnar Sverrisson
Ragnar Sverrisson

Mikið var hressandi að heyra viðtal í ríkisútvarpinu í morgun (27.08) við Leó vin minn Árnason frumkvöðul að nýjum miðbæ á Selfossi. Þar var ekki verið að biðjast afsökunar á kröftugu átaki sem fylgir því að koma slíku framfaramáli í gegn og ekki sífellt verið að leita leiða til að komast sér hjá að framkvæma hlutina. Frumkvæði og framfarahugsun einstaklinga og bæjarfélagsins er greinilega þeirra leiðarljós og nú verður strax hafist handa við að byggja upp nýjan miðbæ á Selfossi.

Þetta er nú eitthvað annað en við þurfum að búa við hér á Akureyri síðustu árin eftir að deiliskipulag miðbæjarins okkar var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn árið 2014. Frá þeim tíma hefur nákvæmlega ekkert gerst af hálfu bæjaryfirvalda við að koma skipulaginu til framkvæmda. Visin hönd bæjarstjórnar og bæjarkerfisins síðustu ár hefur stoppað allt af og einlægt afsakað sig með því að ekki séu allir sammála um einstakar lausnir og útfærslur og því sé farsælast að gefa sig aðgerðarleysinu á vald. Slíkur er metnaðurinn í okkar ástkæra bæ eftir að búið var að vinna í tíu ár að skipulaginu í góðu samráði við bæjarbúa eins og ég hef oft rakið á opinberum vettvangi.

Vitað er að uppi voru mikil álitamál á Selfossi um grunvallaratriði í hinu nýja skipulagi, en að lokum var komist að niðurstöðu og nú er tími fræmkvæmda framundan og ekkert hik og engin verkfælni eins og við megum búa við hér fyrir norðan. Með nýja miðbænum okkar var til að mynda ákveðið að hann yrði vistvænn og hefði í forgangi þarfir gangandi fólks í samskiptum við farartæki. Nú eru hins vegar uppi hugmyndir um að breyta um kúrs og gera Glerárgötuna að hraðbraut með þeim hávaða og mengun sem því fylgir. Enn er verið að vandræðast með hvar umferðarmiðstöð eigi að vera enda þótt búið sé að ákveða það í skipulaginu. 

Svo eru samþykktar ályktanir úti í bæ um að friðlýsa bílastæði í miðbænum eins og þau séu einhver náttúruundur sem þörf sé á að vernda.  Í því sambandi er rétt að árétta að  nýja skipulagið gerir ráð fyrir bílastæðum undir öllum húsum sem þar verða byggð auk þess sem opnað er á þann möguleika að byggja myndarlegt bílahús í eða við miðbæinn. Þannig er haldið áfam að fjasa um hluti sem búið er að ákveða í nýja skipulaginu og þess vegna ekki hægt að koma sér að verki.  Hin sorglega staðreynd blasir við, að lítil sem engin verkstjórn hefur verið síðustu ár hjá bænum í þessum málaflokki.  Þess í stað hafa menn stundað þá iðju að horfa hver á annan í ráðaleysi og hjalað um aukaatriði mánuðum og árum saman og ekkert gerist.   

Með nýrri bæjarstjórn, nýjum bæjarstjóra og nýjum skipulagsstjóra er von til þess að breyting verði á og þessum vandræðagangi linni.  Í viðleitninni til að efla bæinn okkar skiptir mestu að

ná markmiðinu sem sett var með nýja skipulaginu: „að miðbærinn verði þungamiðja mannlífs og menningar á Akureyri jafnt sem norðurlandi öllu.“ Ennfremur segir þar: „Stefna fyrir miðbæ Akureyrar miðar að því að skapa aðlaðandi byggð, fjölbreytta landnotkun, góð tengsl við byggð og náttúru og vistlegt göturými og torg.“  Allt er þetta er útlistað vandlega í 90 síðna greinargerð um miðbæjarskipulagið sem allir geta kynnt sér. Því ætti ekkert að vera að vanbúnaði að færa atburðarásina frá orðum til athafna.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður


Nýjast