Kæru kjósendur

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen
Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen

Á laugardaginn göngum við til sveitarstjórnarkosninga.  Á liðnu kjörtímabili höfum við tekið virkan þátt í störfum meirihlutans og lagt okkur fram um að skila af okkur góðu verki samfélaginu okkar til heilla. 

Árangur

Við höfum staðið í brúnni í mörgum stórum verkefnum á vegum sveitarfélagsins.  Nægir þar að nefna uppbyggingu sundlaugarsvæðisins, endurbyggingu Listasafnsins, mikilli uppbyggingu í Kjarnaskógi og Drottningarbrautarstíg.  Þá höfum við ráðist í stjórnsýslubreytingar, bókhald bæjarins var opnað, skýrslugjöf til bæjarfulltrúa var stóraukin og við höfum komið á meiri stöðugleika í rekstri bæjarins með niðurgreiðslu skulda og skynsömum fjárfestingum.  Þá höfum við náð fram auknum framlögum frá ríkinu í tengslum við menningarsamning og styrkt þar með rekstargrundvöll menningarstarfsemi í bænum og svona mætti lengi telja.

Samvinna

Við höfum í störfum okkar lagt mikla áherslu á samvinnu og árangur sá sem við höfum náð er ekki síst þeirri góðu samvinnu að þakka sem ríkt hefur á milli þeirra flokka sem myndað hafa meirihlutann á þessu kjörtímabili.

Þekking – reynsla – traust

Kjósandi góður.  Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka höfum við öðlast mikla þekkingu á rekstri sveitarfélagsins og viljum gjarnan fá tækifæri til að nýta þá þekkingu til áframhaldandi starfa.  Reynsla sú sem við búum yfir teljum við að geti nýst vel í þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru til að gera góðan bæ betri.

Viljum við því biðla til þín kjósandi góður að veita okkur traust til áframhaldandi starfa og setja X við B á kjördag.

-Guðmundur Baldvin Guðmundsson skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins og Ingibjörg Isaksen skipar 2. sætið


Nýjast