“Jónas með hreim” á degi íslenskrar tungu

Það er stundum leiðinlegt að tala með hreim. Og ruglandi, til dæmis þegar maður (ég) segir „jólaverkstæði“ í stað þess að segja „hjólaverkstæði“. En það er líka skemmtilegt að tala með hreim. Sem krakki í Þýskalandi fannst mér alltaf gaman að hlusta á einhvern sem talaði þýsku pínulítið öðruvísi. Mér fannst eins og fólk væri að segja ævisögu sína þegar það talaði með hreim og um leið var það eins og að ferðast. Það kenndi mér mikið að vera umkringd fólki sem talaði með hreim.

Mér finnst ennþá mjög skemmtilegt að lesa um reynslu þeirra sem eru að læra nýtt tungumál.

Hvað þetta varðar mæli ég t. d. með greininni “From Mother Tongue to Linguistic Mother” eftir Yoko Tawada (2006), en þar talar Yoko um breytingarnar á kyninu í þýskri málfræði og það hvernig hún sá fyrir sér dótið sem lá á skrifborðinu fyrir framan hana. Henni fannst þetta áhugavert, af því að í málfræði móðurmáls hennar japönsku er auðvitað ekkert kyn. Hún byrjaði að kalla ritvélina, sem var það eina sem var kvenkyns á skrifborðinu hennar "Sprachmutter".  Hún segjir það hafa hjálpað sér mikið að hafa haft þessa “tungumálamóður” í nýju landi.

Innflytjendum á Íslandi hefur fjölgað á undanförnum árum. Staðan á Akureyri er sú að 5 prósent íbúanna eru innflytjendur. Þetta þýðir að fólk talar orðið íslensku með pólskum, litháískum, taílískum, lettlenskum, þýskum...hreim. Maður heyrir hér og þar einhvern vera að segja eitthvað eins og til dæmis “jólaverkstæði” þegar hann meinar “hjólaverkstæði”

Það að heyra fólk vera að æfa sig í íslensku er vísbending um það að mörgum innflytjendum langar til að læra íslensku. Á Akureyri gefst t. d. kostur á að læra hana í Símenntunarmiðstöð Eyjarfjarðar (SÍMEY).

Til að hjálpa fólki sem er að læra hana er auðvitað mikilvægt að nægjanlegt framboð sé af námskeiðum. Á sama tíma skiptir máli að gefa fólki tækifæri á að æfa sig að nota tungumálið í daglegu lífi og að byggja upp sjálfstraust þess, svo að fólk treysti sér oftar að nota tungumálið.

Skapandi skrif og list geta hjálpað fólki að læra tungumál. Eitt dæmi um þetta er smásögusamkeppni fyrir börn sem eru af erlendum uppruna og búa á Akureyri, en þau voru hvött til að senda inn smásögu eða ljóð á íslensku.  Upplestur og verðlaunaafhending í ljóða og smásögusamkeppni grunnskólabarna af erlendum uppruna, fer fram á Amtbókasafninu, laugardaginn 17. nóvember, frá kl. 11 til 12.

  „Jónas með hreim“ er hátíð í tengslum við dag íslenskrar tungu (16.11). Markmið hátíðarinnar er að kynna íslenskuna í öllum þeim fjölbreyttu hljómbrigðum sem finnast og vekja athygli á að íslenskan sameini okkur öll sem hana tölum, hvort sem hún er okkar fyrsta tungumál, annað eða þriðja. Hátíðin fer fram dagana 15.-17. nóvember á ýmsum stöðum í bænum. Alþjóðastofa / Multicultural Council of Akureyri heldur utan um alla viðburði hátíðarinnar í samstarfi við aðrar stofnanir, hópa, samtök og einstaklinga.

Samstarfs- og styrktaraðilar eru: Akureyrarbær, Akureyrarstofa, Alþjóðastofa, Amtsbókasafnið á Akureyri, Eyþing, Háskólinn á Akureyri, KEA, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Norðurorka og Penninn Eymundsson.

 

Verið hjartanlega velkomin!

 


Nýjast