Jólin kvödd

Ásgeir Ólafsson.
Ásgeir Ólafsson.

Jólin voru með svipuðu sniði og venjulega. Ég hélt þau og keypti gjafirnar sem ég átti að kaupa. Enginn fór í jólaköttinn. Eða hvað?

Þegar ég var lítill þá voru jólin svona.

Ég beið þeirra í ofvæni frá fyrsta í aðventu þegar mamma kveikti á fyrsta ljósinu á kransinum ég sem ég hjálpaði til við að gera.  Á þetta lifandi kertaljós gat ég starað í marga klukkutíma.  Það kallaði á jólasögur.  Pabbi kunni nokkrar og mamma líka. En svo skálduðu þau auðvitað eitthvað þegar ég hafði heyrt þær allar. En mér var sama. Ég vildi heyra sömu söguna aftur og aftur. Jólalögin tóku að hljóma. Mínar uppáhaldsplötur eru ,,rauða platan” með Ellý og Villa Vill.  Gleðileg jól með kertunum á og Glade jul með Sissel.  Þær eru það enn. Þetta voru plöturnar sem ég hlustaði á þegar ég var rétt orðinn það stór að höfuð mitt og háls voru orðin nógu stór og sterk til að valda heddfónunum sem pabbi átti merkt FINLUX.  Þau voru meira að segja of stór á hann fullorðinn manninn. En hljómurinn úr þeim var undurfagur. Þegar fystu fimm lögin voru svo búin, var mikið stuð að fá að snúa plötunni við. Að hitta í gatið.  

Baksturinn með mömmu stóð fram eftir desember reglulega eftir skóla og um helgar og var gaman að fá að hnoða degið og stelast til að borða það þegar hún sá ekki til  og hlusta á plöturnar á meðan.  Gluggaseríurnar, þær sömu ár eftir ár,  þessar marglitu vöktu mikla kátínu þegar pabbi fékk það hlutverk að greiða úr þeim og þær fóru upp í gluggana.

Laufabrauðsgerðin tók svo við einhvern langan dimman laugardaginn í desember með allri fjölskyldunni við sama borð þar sem allur dagurinn fór í þetta æðislega móment með góðum mat og kannski jólaöli um kvöldið. Alvöru jólamat. 

Svo blandaði pabbi alltaf jólaölið í sömu könnunni ár eftir ár. Ég man að ég mátti ekki missa af því.   Á aðfangadag spurði ég pabba öugglega milljón sinnum, hvenær ætti að blanda. ,,Hvenær ætlarðu að blanda, hvenær eiginlega”?

Svo loksins kallaði hann á mig. Jólablanda!  Þá var alveg sama hvað ég var að gera. Það kom ekkert í staðinn fyir þetta. Váááááááá…þetta var magnað.  Hvernig hann var mikill snillingur í þessu.

Ég man meira segja ein jólin þegar systir mín sem er tveimur árum eldri átti að fá að blanda. Ég fór að hágráta. Nei það kom ekki til greina.

Pabbi átti að sja um þetta.

Svo sterkar voru hefðirnar mínar. Það var látið eftir miðbarninu.

Það er talað um að jólin séu hátið barnanna og er þessi saga hér á undan dæmigerð um það.   Við ræddum þetta feðgarnir milli jóla og nýjars að eitthvað væri farið að vanta upp á jólaskapið. Við köfuðum djúpt og er það í raun ástæða þessa pistils. Við komumst að því hvað okkur varðar þá hefur þetta ekkert með aldur að gera. Jólin eru hátið barnanna, rétt, en við eigum öll að geta orðið börn aftur þessa fáu daga ári og tekið fullan þátt í jólunum.

Því er nauðsynlegt að tala saman til að komast að því sanna og enn mikilvægara að viðhalda hefðum.

Í stað þess að búa til jólaplaylista og láta einhver jólalög rúlla ásamt þínum uppáhalds á ,,shuffle” á Spotify, þá ætlum við að láta plöturnar sem við elskum rúlla þar í réttri röð.  Enn betra ef við eigum vínylspilara. Þá er það fullkomið. Þá fær maður að snúa plötunni við aftur.  Við ætlum ekki að sleppa laufabrauðinu að því að það er svo þægilegt að kaupa þetta tilbúið úr búðinni.

Við ætlum ekki að sleppa því að blanda jólaölið af því að það er svo tilvalið að kaupa þetta tilbúið.

Við ætlum ekki að breyta um jólaliti milli ára. Eða lit á seríunni á jólatrénu. Ef hún bilar ætlum við að hafa fyrir því að finna aðra eins.

Við ætlum ekki að sleppa jólabakstrinum af því að það gæti jafnvel verið ódýrara að kaupa kökurnar tilbúnar.

Við ætlum heldur ekki að gera lítið úr fyrsta í aðventu. Við ætlum að gera krans. Alvöru krans.  

Við ætlum að horfa á jólamyndir, eina á kvöldi og slökkva svo á sjónvarpinu og hafa fyrir því að hita heitt súkkulaði með myndinni en ekki grípa eitthvað sem er minna mál að hafa með myndinni.

Við ætlum að fá okkur kókópuffs á laugardögum frá fyrsta í aðventu og yfir jólin.

 Við ætlum að hafa aðeins meira fyrir jólunum. En kveðja þau ekki fyrir fullt og allt.

Ætlum að segja bara bless í ellefu mánuði.

Sjáumst svo aftur.

Hlakka til.

Við vitum vel að þessi ,,dýrmæti tími” sem sparast í að sleppa hefðunum fer ekki í neitt annað en meira sjónvarpsgláp og aukinn símatíma.

Þetta er ekki tími sem sparast í að gera eitthvað uppbyggilegt.

 Höldum fast í jólahefðirnar.

Gleðileg jól (Sko, næstu jól)

 


Nýjast