Í kjölfar kjördæmaviku

Guðmundur Baldvin Guðmundsson.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson.

Í liðinni viku, í svokallaðri kjördæmaviku, funduðu þingmenn kjördæmisins með okkur sveitarstjórnarfólki hér í Eyjafirði.  Fundað var sameiginlega með öllum sveitarfélögum í firðinum og er þetta í annað skipti sem þetta form er haft á fundunum.   Almenn ánægja er meðal sveitarstjórnarmanna með þetta fyrirkomulag því þannig gefst tækifæri til að koma á framfæri hvað brennur á einstaka sveitarfélögum og ekki síst hvaða sameiginlegu áherslur við höfum. Ekki þarf að koma á óvart að raforku- og samgöngumál eru þau mál sem mest eru rædd meðal sveitarstjórnarfólks.

Raforkan í brennidepli

Raforkumál hafa verið í brennidepli um all langt skeið og því miður hefur lítið þokast.  Þó hefur barátta okkar heimamanna skilað því að Landsnet hefur nú tekið upp breytt og bætt vinnubrögð. Stofnað hefur verið verkefnaráð um Hólasandslínu 3 sem ætlað er til að miðla upplýsingum til sveitarfélaga og hagsmunaaðila og ekki síður til að taka samtalið.  Þessi vinnubrögð hafa fengið góð viðbrögð og eykur bjartsýni mína á að framkvæmd Hólasandslínu 3 verði að veruleika á næstu 3-5 árum.  Landsnet hyggst fljótlega taka upp samskonar verkefnaráð vegna Blöndulínu 3 en mikilvægt er að koma því verkefni aftur af stað.   Því miður gæti sú framkvæmd orðið tafsamari en eins og kunnugt er hefur línulögn mætt mikilli andstöðu bæði hjá landeigandum í Skagafirði og Öxnadal.  Ekki jók það bjartsýni mína þegar frétt kom um að nú skorti einungis stimpil umhverfisráðherra til að friða jörðina Hóla í Öxnadal. Tel ég fullvíst að friðunin muni torvelda mjög uppbyggingu flutningskerfis raforku og hef ég bent nokkrum þingmönnum kjördæmisins sem og samgönguráðherra á alvarleika málsins.

Flugvöllur og framtíðaruppbygging

Uppbygging flugvallarins hér á Akureyri er mikið hagsmunamál allra sveitarfélaga á svæðinu og að mínu mati eitt stærsta hagsmunamál sem við stöndum frammi fyrir.  Nú liggur fyrir að komið verður upp aðflugsbúnaði (ILS búnaði) fyrir haustið sem er lykilatriði til að styðja við og tryggja í sessi millilandaflug um Akureyrarflugvöll.  Í framhaldinu þarf svo að huga að næstu skrefum varðandi uppbyggingu flugvallarins.  Fram kom í máli þingmanna að þeir þyrfti að fá frekari gögn til að styðjast við í umræðunni.  Var í kjölfar fundarins ákveðið að leggja til við stjórn Eyþings að í tengslum við áhersluverkefni sóknaráætlunar verði unnin uppbyggingarskýrsla vegna flugvallarins hér á Akureyri og stefnt að því að skýrslan liggi fyrir á vormánuðum.  Tilgangur skýrslunnar verði að taka saman helstu upplýsingar varðandi framtíðaruppbyggingu flugvallarins og geti nýst stjórnvöldum sem og hagsmunaaðilum í næstu skrefum í þessu stóra hagsmunamáli okkar.

-Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar og formaður Eyþings.

 


Nýjast