Hjúkrunarfræðingur á ferð og flugi

Heiða Hauksdóttir.
Heiða Hauksdóttir.

Í tilefni af nýstofnuðu félagi hjúkrunarfræðinga í Eyjafirði mun Vikudagur á næstu vikum og mánuðum birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri nágrenni þar sem þeir kynna sín störf. Í þessari viku er það Heiða Hauksdóttir sem skrifar.

Ég útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri með BSc í hjúkrunarfræði í júni árið 2003.  Á árunum 2004 – 2010 starfaði ég á hinum ýmsu deildum á Sjúkrahúsinu á Akureyri en fór fljótlega á skurðdeild sjúkrahússins og lauk diplóma námi í skurðhjúkrun frá HÍ 2008. 

Árið 2010 voru miklar hræringar í íslensku samfélagi sem urðu til þess að margir hjúkrunarfræðingar lögðu land undir fót og prófuðu sig áfram sem hjúkrunarfræðingar á Norðurlöndunum og þá sérstaklega lá straumurinn til Noregs.  Ég byrjaði að flakka milli Íslands og Noregs 2010 og stendur það flökkulíf eiginlega yfir enn þó svo að ég hafi dregið úr ferðum þangað síðust tvö árin. 

Ullevål  

Að vera opin fyrir breytingum í starfi og bara láta á reyna hefur reynst mér afar vel.  Menntunin sem við höfum sem hjúkrunarfræðingar er án landamæra.  Það eru allskonar áskoranir sem fylgja því að skipta um umhverfi en í grunninn þá er hjúkrun alltaf það sem tengir okkur saman.  Það er eiginlega stórkostlegt að geta bara klætt sig í fagið og vera svo komin inn á gólf í öðru landi og finna að maður gegnur beint í störfin.  Ég hafði fengið góða þjálfun sem skurðhjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri og góða haldbæra menntun frá bæði Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands sem var algjörlega á pari við það sem er í Noregi.  Ég hef því verið á bæklunarskurðdeildinni á Ullevål í nær 8 ár og þekki deildina vel og hef fengið ábyrgð í samræmi við það.

Læknastofur Akureyrar

Árið 2016 byrjaði ég að starfa sem skurðhjúkrunarfræðingur á Læknastofum Akureyrar.  Þar hef ég verið svo heppin að geta verið í breytilegu starfshlutfalli svo að ég get skroppið tvisvar á ári til Noregs og haldið mér við þar en einnig sinnt krefjandi starfi á Læknastofunum sem samanstendur af hefðbundnum læknastofum með sérfræðimóttöku og skurðstofum, þar sem ferliverkaaðgerðir eru framkvæmdar.

Þar eru framkvæmdar flestar algengustu ferliaðgerðir innan skurðlækninga, bæklunarskurðlækninga, háls-, nef og eyrnalækninga, lýtalækninga (einnig fegrunaraðgerðir), þvagfæraskurðlækninga og æðaskurðlækninga. Einnig eru framkvæmdar ristilspeglanir, magaspeglanir og þvagblöðruspeglanir og endaþarmsaðgerðir. Tannviðgerðir og aðrar aðgerðir í munnholi sem eru gerðar í svæfingu.

Skemmtilega fjölbreyttir dagar sem eru í senn krefjandi og fullir af áskorunum. 

 

MBA nám í HÍ

Ég ákvað sl. haust að drífa mig í MBA nám í Háskóla Íslands sem er í senn einstaklega krefjandi en um leið svo áhugavert vegna þess að það samtvinnar í raun svo margt sem mig langar að fræðast um og gera í framtíðinni.

Áskoranir sem hjúkrunarfræðingar standa frammi fyrir í dag eru margvíslegar.  Verkefnin eru allsstaðar í kringum okkur og við verðum að nálgast þau lausnamiðað.   Það sem að við höfum fengið að heyra endalaust um síðustu ár það er hvað hlutirnir kosta okkur. Við horfum upp á að það að oft eru teknar ákvarðanir út frá kostnaði en ekki heildarhagsmunum skjólstæðinga okkar.  Með því að fara í þetta nám þá vonast ég eftir því að ég geti aukið  skilning min og hæfni til að takast á við stjórnun og erfiðar ákvarðanartökur.
Hjúkrunarfræði er fræðilegt og klínískt grunnnám á háskólastigi og í náminu er lögð áhersla á að kenna um manninn, umhverfi hans og heilsu og hvernig hægt er með hjúkrun að hafa áhrif á aðstæður og líðan.  Það er ekki svo mikið komið inn á rekstur eða stjórnun sem sífellt er gerð meiri krafa um til stjórnenda innan heilbrigðisgeirans.

Eitt af því sem einkennir starf okkar hjúkrunarfræðinga eru „samskipti“  við erum í samskiptum við skjólstæðinga okkar, annað fagfólk, aðstandendur og ekki síst okkar í milli, þ.e. innbyrðis samskipti við vinnufélaga og aðra hjúkrunarfræðinga.  Það sem einkennir okkur er fagmennska og við ættum að leggja mikla áherslu á það sem hjúkrunarfræðingar að minna hvort annað á að við erum fagfólk sem vandar sig og hefur fagmennsku að leiðarljósi.

Það sem er svo skemmtilegt og heillandi við hjúkrun er að hjúkrunarfræðingar vinna margslungin verk víða í samfélaginu og starfsvettvangur þeirra er í senn fjölbreyttur og spennandi, tækifærin eru allstaðar í kringum okkur. 

Ef ég horfi til framtíðar og reyni að spá fyrir um hvar ég verð eftir 20 ár þá kemur nú margt upp í huga minn.  Aldur er orðinn afstæður að mörgu leyti, hér á árum áður þá var 50 ára aldur skilgreindur sem  gamall. En samkvæmt nýrri skilgreiningu WHO þá er 18 ára til 65 ungur aldur,  66-79 er miðaldra,  80-99 er eldri borgari og 100+ er skilgreint sem langlífi.  Þannig að ef heilsan er góð þá er ég líklega að miðla af reynslu minni  til yngri hjúkrunarfræðinga og ennþá starfandi sem hjúkrunarfræðingur 65 ára gömul eftir 20 ár.  Ég lifi kannski við þau forréttindi að geta valið hvar ég er að vinna og í hæfilega mikilli vinnu þannig að maður geti sinnt áhugamálum og fjölskyldu.

-Heiða Hauksdóttir

 


Nýjast