Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni

Ingibjörg Sólrún
Ingibjörg Sólrún

Deild hjúkrunar við Eyjafjörð var stofnuð haustið 2017 sem deild innan Hjúkrunarfélags Íslands. Vikudagur hefur af því tilefni birt nokkrar greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri og nágrenni síðustu mánuði og mun halda því áfram. Í greinunum kynna hjúkrunarfræðingarnir starf sitt. Í þessari viku er það Ingibjörg Sólrún Ingimundardóttir sem skrifar. 

Ég varð stúdent frá MR 1982 og útskrifaðist þremur árum seinna frá Hjúkrunarskóla Íslands. Þess má geta að ég útskrifaðist með titilinn hjúkrunarkona, sem síðar breyttist í hjúkrunarfræðing. Og vel að merkja: Nemabúningurinn minn var kjóll en vinnugalinn æ síðan síðbuxur og tilheyrandi!

Fjölbreytt starf

Ég hef unnið á ýmsum sviðum hjúkrunar allt frá útskrift, bæði sem almennur hjúkrunarfræðingur  og í stjórnendahlutverki.

Ég hef starfað við heilsugæslu frá árinu 1999. Síðastliðin 13 ár hef ég starfað við heilsuvernd grunnskólabarna, þar af síðustu 8 ár sem verkefnastjóri heilsuverndar skólabarna í Akureyrarumdæmi og sl. 2 ár að auki sem fagstjóri heilsuverndar skólabarna hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, HSN. Ég er jafnframt tengiliður HSN við háskólana og hef sem slíkur umsjón með klínísku námi hjúkrunarnema við HSN. Starf mitt er því býsna fjölbreytt og í mörg horn að líta.

Framhald af ung- og smábarnavernd

Samkvæmt skilgreiningu Landlæknisembættisins er heilsuvernd skólabarna hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd.

„Markmiðið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Hjúkrunarfræðingar heilsuverndar skólabarna vinna í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda, með velferð nemenda að leiðarljósi. Starfsemi heilsuverndar skólabarna er skv. lögum, reglugerðum og tilmælum sem um hana gilda. Í henni felast m.a. heilsufarsskoðanir, bólusetningar og heilbrigðisfræðsla, ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans,“ segir á heimasíðu embættisins.

Vinnum líka á öðrum sviðum heilsugæslu

Hluti af starfi okkar er að vinna að heilsuvernd og forvörnum í skólum. Það er að mínum dómi einn mikilvægasti þátturinn. Hjúkrunarfræðingur heilsuverndar skólabarna á sæti í nemendaverndarráði viðkomandi skóla og í áfallateymi hans. Oft er hjúkrunarfræðingurinn eini heilbrigðismenntaði starfsmaðurinn í skólanum og því getur mætt mikið á honum.

Hjúkrunarfræðingar heilsuverndar skólabarna vinna mjög gjarnan á öðrum sviðum heilsugæslunnar jafnframt starfi sínu í skólanum; í skólafríum og jafnvel dags daglega. Þeir eru með öðrum orðum sjaldnast í 100% starfi sem skólahjúkrunarfræðingar. Vinnuaðstaða þeirra við heilsuvernd skólabarna er auðvitað að hluta til í þeim skóla sem þeir starfa en heilsugæslan er vinnuveitandi þeirra. Sem dæmi er ég starfsmaður HSN en ekki Oddeyrarskóla, þar sem ég starfa hluta úr degi flesta daga vikunnar.

Merkilegt þroskaferli

Mikil þróun hefur átt sér stað í starfi hjúkrunarfræðinga heilsuverndar skólabarna á liðnum árum og áratugum og nýjar áskoranir líta stöðugt dagsins ljós. Sí- og endurmenntun er því mikilvægur þáttur af starfinu.

Það ánægjulegasta við starfið, að mínum dómi, er að taka á móti börnum í 1. bekk grunnskólans og fylgjast með þeim þroskast andlega, líkamlega og félagslega á skólagöngunni. Segja má að við náum að fylgja þeim í gegnum tvö kaflaskipti í lífinu; fyrst þegar þau kveðja leikskólann og mæta í grunnskólann full tilhlökkunar og svo aftur þegar þau halda á vit nýrra ævintýra að grunnskólagöngunni lokinni, vonandi með smá söknuð í hjarta en spennt fyrir næstu skrefum á lífsgöngunni. Það eru forréttindi að fá að fylgjast með þessu merkilega þroskaferli og fá að taka örlítinn þátt í því.

Hjúkrunarfélag Íslands 100 ára

Starf hjúkrunarfræðings heilsuverndar skólabarna er mjög fjölbreytt og gefandi starf en jafnframt mjög krefjandi. Það sama gildir um starf hjúkrunarfræðinga almennt.

Hjúkrunarfélag Íslands fagnar 100 ára afmæli sínu á árinu 2019. Enn sem fyrr berjumst við hjúkrunarfræðingar fyrir því að starf okkar sé metið að verðleikum – og þar með til launa við hæfi. Ég á þá ósk, okkur sjálfum og félaginu til handa á aldarafmælinu, að okkur gangi vel í þeirri erfiðu og eilífu baráttu.

Konur hafa nær eingöngu haldið merki félagsins á lofti í heila öld og farist það vel úr hendi. Við höldum því vonandi ótrauðar áfram. En strákar! Hjúkrunarfræði er starf sem er ekki síður við ykkar hæfi og ykkur fyllilega samboðið. Það væri ekki amaleg gjöf á 100 ára afmælinu að fleiri karlmenn tækju sig til og skráðu sig í hjúkrunarnám... 

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.

 


Nýjast