Hef alltaf fundist vinnan mín gefandi og skemmtileg

Hugrún Hjörleifsdóttir
Hugrún Hjörleifsdóttir

Í tilefni af nýstofnuðu félagi hjúkrunarfræðinga í Eyjafirði mun Vikudagur á næstu vikum og mánuðum birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri nágrenni þar sem þeir kynna sín störf. Í þessari viku er það Hugrún Hjörleifsdóttir sem skrifar.

Hugrún Hjörleifsdóttir heiti ég og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri árið 1992. Ég hef unnið fjölbreitt störf síðan þá og má þar nefna vinnustaði eins og hjartadeild LSH, gjörgæsludeild LSH, gjörgæsludeild Sak, heilsugæsla-skólahjúkrun, stafað sem fræðslustjóri og námsstjóri

Starfsferilinn mótaðist framanaf af vinnu á bráðadeildum. Vann í um 20 ár á gjörgæsludeild og síðustu tvö árin þar jafnhliða skólahjúkrun sem er allt annar vinkill en mjög skemmtilegur starfsvettvangur. Síðan 2015 hef ég starfað eingöngu sem fræðslustjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og er nýbyrjuð í starfi sem heitir námsstjóri á SAk. 

Hvaða áskoranir eru til staðar í mínu starfi og almennt í hjúkrun í dag.

Það eru miklar áskoranir í mínu starfi í dag, ég er nýtekin við nýju starfi en ég hef eftirlit og umsjón með öllum nemum sem koma á SAk og jafnhliða því öllum námslæknum. Það eru um 800 nemarvikur á SAk á ári sem þýðir það að hér eru nemar allt árið um kring og á tímum mjög margir. Það er gríðarleg ásókn erlendra nema sem vilja koma og taka klínísk tímabil sem Erasmus- eða Nordplusnemar. Við getum því miður ekki orðið við þessum beiðnum nema í mjög lítlu mæli þar sem við erum með samninga við HÍ, HA og VMA og skuldbindum okkur að taka við nemum frá þessum skólum.

Læknanemar frá Ungverjalandi og Slóvakíu eru líka í auknu mæli að koma hingað til að taka klínískt nám sem er einkar ánægjuleg þróun. Það eru í raun og veru að minnka öll landamæri og í framtíðinni á sjálfsagt eftir að starfa hér í auknu mæli heilbrigðisstarfsfólk víðsvegar úr veröldinni og sú þróun er nú þegar hafin. Við munum ekki geta fullnægt þörfinni með íslensku vinnuafli og gerum það nú ekki þegar og við eigum því að taka vel á móti þessu fólki, hjálpa því að aðlagast og kenna þeim og tala við þau á íslensku.

Það eru mikil tækifæri í hjúkrun almennt í dag og hjúkrunarfræðingar eru eftirsóknarverðir starfskraftar. Mjög margir starfa t.d. í dag sem flugfreyjur og flugþjónar og í fleiri störfum þar sem þau eru betur borguð, ef við bætum launakjörin þá held ég að stór hópur kæmi til baka því vinnan er svo gefandi og skemmtileg. Ég sé einnig fyrir mér að hjúkrunarfræðingar eigi eftir í auknu mæli að taka yfir ákveðin svið í heilbrigðisþjónustunni og það eigi eftir að skilgreina betur þau svið. Geta þeirra og vinnuframlag er vannýtt og held ég að á næstu árum eigi eftir að verða miklar breytingar þar á t.d. innan heilsugæslunnar og fleiri sviðum og þá sér í lagi á landsbyggðinni.

Hvaða tækifæri sérðu fyrir þér í þínu starfi og hvaða tækifæri eru almennt í hjúkrun.

Það eru mikil tækifæri í mínu starfi, sé ég helst að allir verkferlar verði skýrari og skilvirkari. Við horfum lengra fram í tímann og séum betur undirbúin. Verðum að horfa vel í kringum okkur og taka vel á móti nemum og sinna þeim á klínísku tímabilunum svo þeir séu tilbúnir til að koma aftur og vinna fyrir okkur hér á SAk þegar námi líkur. Tækifæri innan öldrunarhjúkrunar og geðhjúkrunar eru mikil tel ég. Við verðum að finna leiðir til að sinna betur og markvissara gamla fólkinu okkar og ört stækkandi hópi þeirra sem eiga við andleg vandamál að etja og tel ég að hjúkrunarfræðingar þurfi að láta til sín taka þar.

Hvað er skemmtilegast við starfið.

Bara allt finnst mér og hefur alltaf þótt. Ótrúlega fjölbreytt, gefandi, krefjandi og að eiga samskipti við allt þetta fólk.

Hvar sé ég mig eftir 20 ár.

Hætt að vinna og þá komin heim og get sinn garðyrkju og mínum áhugamálum sem eru mörg og vonandi verð ég amma einhverntíma.

-Hugrún Hjörleifsdóttir

 

 


Nýjast