Hamingja er velmegun

Eitt af megin þemum Skarps í dag er geðheilsa. Nemendur í Framhaldsskólanum á Húsavík og 10. bekk Borgarhólsskóla héldu á dögunum fund um geðheilsu ungs fólks. Það er greinilegt að unga fólkið okkar lætur sig málið varða og býr yfir góðum hugmyndum um hvernig megi gera samfélagið betra.

Þegar kemur að geðheilbrigðismálum og jafnvel heilbrigðismálum almennt fer ég ósjálfrátt að leiða hugann að því, hvaða vegferð samfélagið okkar er á. Í eina tíð var velsæld samfélaga mæld í hamingju. Því hamingjusamari sem einstaklingarnir voru; því ríkara var samfélagið. Í dag virðist velmegun, árangur og gæði helst vera mæld í peningum og eignum. Besti rithöfundurinn er sá sem selur flestar bækur. Besta hljómsveitin er sú sem selur flestar plötur og besta fyrirtækið er það sem skilar mestum arði. Allt of mikil áhersla er lögð á arð í okkar samfélagi.

Þegar hins vegar fer að síga á seinni hlutann hjá okkur og ævikvöldunum sem við eigum eftir fer að fækka; þá eru það ekki krónurnar inná bankabókinni sem skipta okkur máli og ekki heldur steinsteypan í veggjunum sem umlykja okkur. Þegar við lítum yfir farinn veg er það nefnilega heilsa, ást og vinátta sem við erum þakklátust fyrir og arðurinn af þessum þáttum er mældur í hamingju og engu öðru. Bæði hamingjunni sem við sjálf fáum að njóta en einnig þeirri hamingju sem við gefum af okkur.

Það er því þyngra en tárum tekur að horfa upp á allt það ágæta fólk sem við höfum í gegnum árin treyst til þess að halda í tauma samfélagsins; mistakast gjörsamlega, hvert á fætur öðru við að leggja áherslu á það sem okkur þykir flestum mikilvægast.

Það er ömurlegt að horfa upp á stjórnvöld sitja aðgerðarlaus á meðan heilbrigðiskerfið okkar molnar í sundur. Heilbrigðiskerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins okkar. Stykkin hætta ekkert að hrynja úr þessum grunni þótt mögulega megi benda á að ástandið sé verra annars staðar í heiminum. Vandamálin okkar hverfa ekki við það.

Hvenær ætli sé hægt að berja það inn í hausinn á stjórnmálamönnum það sem blasir við öllu skynugu fólki; að mesti sparnaður ríkisins er einmitt fólginn í því að vera með vel fjármagnað heilbrigðiskerfi. Heilbrigðiskerfi sem er í stakk búið að hlúa að okkur, ekki bara þegar við erum orðin lasin heldur einnig og kannski sérstaklega; áður en við verðum lasin.

Það er nefnilega þannig að peningalegur auður verður ekki til nema vegna þess sem samfélagið framleiðir. Því meiri og betri mannauð sem við búum yfir – því meira getum við framleitt. Það ætti ekki að þurfa segja það; en heilbrigt og hamingjusamt fólk framleiðir meira og betur en veikt og óhamingjusamt fólk.

Ég veit ekki hvernig við komum stjórnmálamönnunum okkar í skilning um þetta. Það væri kannski ráð að gefa þeim faðmlag og vita hverju það skilar.

- Greinin birtist fyrst sem leiðari í Skarpi 30. mars

Egill P. Egilsson, ritstjóri í afleysingum.


Nýjast