Græðgisvæðing þjóðkirkjunnar

Ein er sú stétt sem virðist hafa þann einkarétt að mestallt sem hún innir af hendi er í formi aukagreiðslu fyrir unnin störf. Þetta eru svonefndir prestar sem hafa líklega að meðaltali um eina milljón á mánuði í föst laun. Það er fimmfaldur framfærslulífeyrir öryrkja og aldraðra og þar að auki hafa margir þeirra hlunnindi sem má helst ekki tala um og telst óheppileg umræða sem jaðrar við guðlast.

Ég held að hún formóðir mín hún Kristrún gamla í Hamravík hebbði rætt þau mál við himnaföðurinn svona í umvöndunar tóni:  

“Já, fyrr má nú gera vel en gera of vel himnafaðir minn, o já, o já. Og viltu segja mér himnafaðir minn hvaða ósköp eru þetta að skaffa okkur biskupa þrjá, dygði nú ekki einn gæskurinn? Vel mætti nú nota skildinginn þann til þurfalinga okkar fremur en hégóma þeirrar stéttar, o, já o, já.

Og hvert er nú hlutverk þeirra himnafaðir góður? Liggja þeir á bæn allan daginn eða notar þú þá til að telja skildinga þér og þínum til dýrðar? Henni Kristrúnu gömlu líka ekki svona ofmönnun í hégóma.

Á Hólum norður í Hjaltadal kvað sitja kvinna sem er biskup. Hvert er hlutverk hennar? Í Skálholti situr piltur er telst biskup og hvað gerir hann blessaður, mokar hann skít undan kúnum á þeim bæ eða liggur hans kannski á bæn allan guðslangan daginn? Hún Kristrún gamla í Hamravík kann ekki við það að menn gangi ekki til starfa eins og hverjir aðrir húskarlar, einhver þarf að sjá fyrir þeim ef þeir taka ekki til hendinni, ekki sprettur lífsviðuværið uppúr engu, himnafaðir minn. Það ættir þú nú að vita eftir öll þessi ár á himnum.”

Prestur einn situr að búi í Heydölum í Breiðdal hlunnindagreiðslur hans eru af æðarvarpi, laxveiði og hreindýradrápi. Þetta skal gefa af sér rúmar 20.000.000, sem sé tuttugu milljónir. Það hlýtur að teljast vel í lagt eða hvað? Í nágrenni okkar situr klerkur á Grenjaðarstað. Laxá rennur um jarðarskikann og mun gefa þeim ábúanda krónur tvær milljónir í hlunnindi á ári.

Til svo að kóróna þetta allt saman hrópar nú yfirbiskup til samfélagsins að við þurfalingarnir skuldum embættinu um tvo milljarða, m.a. vegna ógoldinna launa, launa fyrir hvað, með leyfi að spyrja???

Fyrirtækið Þjóðkirkjan er illa rekið fyrirtæki. Á biskupsstofu einni starfa 20 manns og samkomulagið hjá Guði sjálfum er ekki betra en svo að kalla þurfti eftir nýjum starfsmanni til að veita sálfræðilega aðstoð til handa starfsmönnum biskups nr. 1. Telst þetta eðlilegt hjá fyrirtækinu Guði? Fólk sem lenti í sjóslysum fékk enga hjálparaðstoð en háskólagengið fólk virðist ekki kunna mannleg samskipti. Það mun hafa kostað fyrirtækið biskupsstofu umtalsvert fé að veita sálfræðilega aðstoð sem hebbði nú verið hægt að nota í annað.

Ekki minnist ég sálfræðilegrar aðstoðar hjá Varða í den - enda unnu þar bara þurfalingar.

Allt virðist á sömu bókina  lært. Fyrir nokkrum dögum kallaði Skálholtsbiskup eftir þjóðaraðstoð við að bjarga þjóðargersemum sem lægu undir skemdum og viðgerð mundi kosta 70 milljónir.

Fyrirtæki sem sýnir ekki meiri ráðdeild en raun ber vitni er illa rekið fyrirtæki. Þjóðkirkjan er ekkert annað en græðgisvæðing klerkastéttarinnar og er ekkert nýtt fyrirbæri. Saga kirkjunnar á Íslandi er ljót saga og þá einkum starfsmanna hennar, en hana má ekki skrá. Sannleikurinn skal grafinn og þögnin ein skal ráða ferðinni. Þjóðkirkjan hefir étið sjálfa sig í græðgisvæðingu og tiltrú manna til hennar er engin, það hafa embættismenn hennar uppskorið af vinnu sinni.

Á sama tíma og velferðarkerfið er skorið niður á öllum sviðum er það eina sem kirkjan gerir að kalla eftir meiri peningum til handa sjálfri sér, hún hefir engar áhyggjur af þjóð sinni - án þess að fá greiðslur fyrir. Hvað hún Kristrún gamla í Hamravík hebbði sagt við himnaföðurinn læt ég þér í té lesandi góður, en þess er ég handviss um að hún hebbði ekki látið hann átölulaust heyra skoðun sína.

Þetta ritar fyrrum lítill drengur sem treystir en á sína barnatrú án aðstoðar græðgissinnaðra embættismanna þjóðkirkjunnar, því þá hefir hann yfirgefið sem og fyrirtæki þeirra.

Örn Byström

Einarsstöðum. 


Nýjast