Gott er góðs að njóta-Gullárin

Björg Jónína Gunnarsdóttir og Friðný B. Sigurðardóttir.
Björg Jónína Gunnarsdóttir og Friðný B. Sigurðardóttir.

Okkur er tíðrætt um að öldruðum fari fjölgandi og spár staðfesta það. Við sem þjóð lifum almennt við góða heilsu og eftir að atvinnuþátttöku lýkur getum við búist við að lifa í um tuttugu til þrjátíu ár. Fyrir mörg okkar eru þetta góð ár full af tækifærum, gleði og gæðum lífsins. Með lífsgæðum er m.a. átt við að búa við öryggi, vera þátttakandi í samfélaginu, vera með góða sjálfsmynd og í góðum tengslum, en öll þessi atriði eru mikilvæg, óháð aldri, heilsu og aðstæðum. Að hafa aðgang að fjölbreyttu samfélagi sem gefur tækifæri, veitir fjölbreytta þjónustu og úrræði er lykilatriði.

Er kerfið flókið?

Í dag er þjónusta við aldraða á hendi sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar. Á vegum sveitarfélagsins Akureyrarbæjar eru það búsetusvið, fjölskyldusvið og Öldrunarheimili Akureyrar sem veita þjónustu við aldraða. Á vegum ríkisins eru það Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Sjúkrahúsið á Akureyri. Þetta eru margir þjónustuaðilar og getur einn og sami einstaklingur verið að fá þjónustu frá öllum þessum þjónustuaðilum en ekki er um að ræða eitt samræmt þjónustukerfi. Greinarhöfundar undrast ekki að öldruðum fallist hendur í þessum „frumskógi“ þegar fagfólk finnur sárlega fyrir skorti á samþættingu milli þjónustuaðila. Ef aldraður hyggur á ferðalag getur hann þurft að hringja á fimm staði til að afboða þjónustu. Hann gæti þurft að afboða heimaþjónustuna sem kemur til að aðstoða við þrifin, afboða heimahjúkrunina sem aðstoðar við lyfjagjöfina, afboða heimsenda matinn og afboða sig úr dagþjálfuninni Hlíð. Einnig þarf hann að láta ferliþjónustuna vita að hann afþakki akstur í félagsstarfið. Svo endurtekur sagan sig þegar viðkomandi kemur heim og vill virkja þjónustuna aftur. Ekki er að undra að maður þurfi að vera „full frískur“ og með allt sitt á hreinu til að rata um þennan frumskóg!

Hvað er þá til ráða?

Samþætta þarf þjónustu við aldraða og auka ráðgjöf með það að markmiði að raunverulega sé verið að styðja við einstaklinga í sínum aðstæðum með tilliti til lífsgæða, þ.e. að fólk upplifi sig sjálfstætt og öruggt. Ýmsa fleiri möguleika mætti skoða. Það mætti bjóða uppá fjölbreytt úrræði í þjónustu á heimilum fólks sambærileg við þau sem Reykjavíkurborg hefur nýverið boðið upp á og Norðurlöndin hafa lengi notað en þau úrræði hafa reynst vel til þess að efla fólk í aðstæðum sínum heima fyrir. Fólk þarf samt að huga að því tímanlega í hvernig húsnæði það býr. Að búa á fjórðu hæð í lyftulausu húsi og komast ekki leiðar sinnar af sjálfsdáðum getur valdið miklu öryggisleysi, einangrun og eru þessar aðstæður beinlínis ógn við sjálfstæði og skerðing á lífsgæðum viðkomandi. Það skiptir því máli að fjölbreytileiki sé í framboði á húsnæði sem hæfir hverju æviskeiði, líka fyrir aldraða. Óhentugt húsnæði á efri árum er ekki gild ástæða fyrir því að sækja um dvöl á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Stofnanakosturinn er dýrt úrræði og mörg rök hníga að því að betra sé að styðja fólk til búsetu heima á meðan kostur er fremur en að flytja á hjúkrunarheimili.

Sérstaklega þarf þó að huga að einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma. Efla þarf stuðning og ráðgjöf við þennan hóp og aðstandendur þeirra og þyrfti í raun strax í upphafi greiningar markvisst stuðningsferli og ráðgjöf að fara af stað. Fá sértæk úrræði eru í boði á Akureyri en í dagþjálfuninni í Hlíð eru sértæk rými fyrir einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma. Mikil eftirspurn er eftir þessum rýmum og þeirri þjónustu sem þar er veitt. Það er biðlisti eftir þjónustunni og þörf er fyrir að fjölga rýmunum, bjóða uppá sveigjanlegri þjónustutíma til dæmis fram yfir kvöldmat og um helgar. Einnig mætti huga að endurhæfingardagþjálfun fyrir þennan hóp.  Sú þjónusta er ekki í boði á Akureyri.

Að lokum  má nefna að málefni einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma brenna mikið á greinarhöfundum. Það er mjög mikilvægt að auka þekkingu almennings og fagfólks á heilabilunarsjúkdómum. Nauðsynlegt er að skapa aðstæður þar sem viðkomandi einstaklingar fái áfram að njóta lífsins, séu hluti af samfélaginu, séu þátttakendur og upplifi tilgang og gleði í lífinu þrátt fyrir sjúkdóminn.

Leggja þarf aukna áherslu á málefni aldraðra og verður áhugavert að fylgjast með í komandi sveitarstjórnarkosningum hvaða stjórnmálaöfl muni leggja áherslu á málaflokkinn.

-Björg Jónína Gunnarsdóttir og Friðný B. Sigurðardóttir. Greinahöfundar starfa báðar í dagþjálfun Grænuhlíðar í Hlíð.


Nýjast