Gleymdist Reykjahverfi?

Tíminn líður hratt og brátt verða liðin fjögur kjörtímabil frá því Reykhverfingar sameinuðust Húsavík. Það var vorið 2002 og í aðdraganda kosninganna var mikið lagt upp úr því að þessi sameining tækist vel og margt myndi horfa til betri vegar ef marka mátti framboðsgreinar.  Þetta leit vel út og á fyrsta íbúafundinum sem haldinn var í Heiðarbæ með fulltrúum flokkanna var margt gott lagt til og m.a. það að ekki yrði hróflað við skólamálum og Reykhverfingar hefðu áfram aðgang að Hafralækjarskóla eins verið hafði í tugi ára.

Fólk var ánægt með þetta og auk þess var talað um að skólarnir þ.e. Borgarhólsskóli og Hafralækjarskóli myndu hafa með sér gott samband til þess að efla þá báða og nemendur gætu valið á milli skóla hvorum megin sem þeir byggju.

Ekki leið langur tími þar til fór að bera á því að sveitarstjórnarmönnum þætti of dýrt að kosta börn úr Reykjahverfi í Hafralækjarskóla, þó svo að mjög miklir peningar kæmu inn í sjóð sveitarfélagsins frá atvinnufyrirtækjum og stórum búum af því svæði sem áður var Reykjahreppur.  Ekki voru börnin svo mörg að það setti neinn á hausinn, en á þriðja kjörtímabilinu ákvað sveitarstjórn,  sem þá sat að völdum, að selja eignirnar í Hafralækjarskóla og var um leið ákveðin í að senda öll börn til Húsavíkur í skóla. Það var  töluvert sérkennilegt að fulltrúar flokkanna skyldu horfa framhjá því að til væri fólk sem liti á sinn sveitaskóla til fjörutíu ára sem verðmæti og að samstarf við Aðaldælinga í skólamálum væri einhvers virði. Sama gilti um leikskólamálin og var beitt nokkru harðfylgi til þess að koma í veg fyrir að fólk úr Reykjahverfi myndi senda börn sín í leikskóla í Aðaldal.

Íbúafundirhafa nokkrir verið haldnir í félagsheimilinu Heiðarbæ frá því sameinast var og á öllum fundunum voru hitaveitumálin til umfjöllunar, en lítið hefur enn gerst.  Stór hluti Reykhverfinga er á gömlu leiðslunni og býr við mun kaldara vatn en flestir aðrir notendur veitunnar.

Þetta hefur komið sér bagalega fyrir marga m.a. mjólkurframleiðendur sem þurfa að hita allt vatn til þvotta með rafmagni úr 54-56 gráðum upp í 81 gráðu.  Enn hefur ekki verið hægt að fá endanleg svör við því hvenær þetta verður lagað og einn bóndi sendi Orkuveitu Húsavíkur bréf fyrir þremur árum þar sem spurst var fyrir um þessi mál. 

Bréfinu var ekki svarað og í símtali við þáverandi framkvæmdastjóra kom fram að ekki væri hægt að segja hvort það yrði eftir 3, 5, 10 eða 15 ár, þar sem engir peningar væru til.  Athygli vakti að sama orkuveita gat tekið þátt í gerð íþróttarvallar á Húsavík og var kostnaðurinn milljónir og milljónir og gegnir það furðu að hluti þess fjármagns skyldi ekki notaður til viðhalds á veitunni.                                                                                            

Ljósleiðari er ekki kominn í Reykjahverfi. Unga fólkið segir að ekki sé hægt að búa í sveit þar sem ekki sé ljósleiðari. Tjörnesingar fengu ljósleiðara fyrir meira en tveimur árum og þetta hefði átt að vera löngu búið í Reykjahverfi, en það hefur verið einhver seinagangur á þessu máli. Kannski gleymdist það, en nú er nauðsyn þykir mörgum og líklega er að rætast úr á þessu ári og er það vel.                      

FélagsheimiliðHeiðarbær  fékk að margra mati ekki nægilegt viðhald eftir sameininguna.  En svo fór eitthvað að gerast, að menn héldu, og haldinn var íbúafundur um möguleika á mikilli heilsuuppbyggingu á staðnum. Fólki fannst þetta góðar umræður og góður fundur. En svo heyrðist ekkert meir og ekkert varð úr neinu. Kannski gleymdist að láta íbúana vita að ekkert yrði að veruleika sem um var rætt á fundinum og auðvitað urðu nokkrir fyrri töluverðum vonbrigðum.   

Girðingamálhafa verið í nokkrum ólestri hjá Norðurþingi eins og sjá mátti á myndum í Skarpi á sl. ári. Girðingin ofan við  bæjarhúsin í Saltvík og þar norður hefur ekki verið fjárheld í mörg ár og á sumrin flæðir fé niður í Litlu-Saltvík, út að Gvendarbás, að hesthúsunum, að Norðlenska  og fleiri stöðum.  Þetta eru bændur, eigendur kartöflugarða, hestamenn og margir fleiri óánægðir með sem skiljanlegt er.  Nú er svo komið að fólk unir ekki við það að þetta verði svona á komandi sumri og þarf sveitarstjórn að leggja í það að endurgera girðinguna þannig að hún verði fjárheld og það verði búið áður en fé er sleppt í júní nk.         

Margtfleira hefur verið á döfinni og má þar m.a. nefna sorphirðumál sem oft hafa brunnið á fólki. Þá má nefna málefni heimreiða og nú er póstþjónusta í dreifbýli Norðurþings með endemum, en ekki er að sjá að sveitarstjórnin hafi ályktað  mikið um það mál eða haft á því mikinn áhuga.

Hverfisráð eru loksins að líta dagsins ljós. Það þykir seint í það gripið því Vinstri grænir lögðu mikið upp úr hverfisráðum í aðdraganda kosninganna, en hafa lítið aðhafst fram að þessu.  Þeir mega samt eiga það að þeir voru eini flokkurinn sem kom suður í Heiðarbæ í kosningaferð og héldu fund með íbúunum, auk þess sem þeir hafa einu sinni heimsótt sveitina eftir það.  Fulltrúar  Framsóknarflokks, Samfylkingar  og Sjálfstæðisflokks hafa ekki litið svo lágt að koma með fund í Heiðarbæ, hvorki fyrir né eftir síðustu kosningar. Þó nærri þrjú ár séu búin af kjörtímabilinu hefur enn ekki verið íbúafundur í Heiðarbæ með allri sveitarstjórninni  þar sem málin eru rædd og væntingar íbúa til síns umhverfis reifaðar.  Þá hefur sveitarstjórinn lítið sést í Reykjahverfi, en  í áramótaávarpi hans á vefsíðu Norðurþings talar hann vel og mikið um  framkvæmdir á Húsavík og minnist þar einnig á Raufarhöfn og Öxarfjörð. Orðið Reykjahverfi kemur ekki fyrir og geta menn velt því fyrir sér hvort það gleymdist eða var ekki inni í myndinni.                                                                                                

Flokkarnirhafa  auðvitað sitt form á því hvernig þeir stjórna. Hvort fulltrúar flokkanna í Norðurþingi hafa fallið á prófinu skal ósagt látið.  Það hlýtur að vera gaman að kynnast fólki frá ólíkum svæðum sveitarfélagsins og heyra skoðanir þess og sjá hvað það er að fást við. Það hafa stjórnendur Norðurþings ekki allir nýtt sér, en þeir eru auðvitað gott fólk. Það þarf drift og dug til þess að stjórna heilu sveitarfélagi og góða yfirsýn. Það er enn tími til þess að taka til hendi og ástæða er til þess að hvetja menn til dáða. Ekki má gleyma því sem gera þarf.   

                                                               Atli Vigfússon


Nýjast