Faðmlög í vinnu

Katrín Ösp Jónsdóttir ásamt dóttur sinni Ólöfu Öldu.
Katrín Ösp Jónsdóttir ásamt dóttur sinni Ólöfu Öldu.

Vikudagur heldur áfram að birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri og nágrenni þar sem þeir kynna sín störf. Í þessari viku er það Katrín Ösp Jónsdóttir sem skrifar.

Ég heiti Katrín Ösp Jónsdóttir og er hjúkrunarfræðingur. Ég er gift Valdemar Pálssyni og á þrjár dætur, Ólöfu Öldu, Hrafnhildi Jönu og Söndru Marý. Einnig á ég abysinian kisu sem heitir Mýra. Ég útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri vorið 2012 og hef frá apríl 2016 hjúkrað fólki sem greinst hefur með krabbamein og hlúð að aðstandendum þeirra. Við fyrsta viðtal hjá krabbameinslækni fær fólk úthlutað hjúkrunarfræðingi sem fylgir því eftir í því sem koma skal. Þetta er mikil og persónuleg hjúkrun og áður en maður veit af hefur myndast vinskapur þar sem maður fagnar með skjólstæðingunum þegar tilefni er til og syrgir á öðrum stundum.

Flesta daga fæ ég innilegt faðmlag frá mínum skjólstæðingum sem gerir alla daga betri. Ég ætlaði aldrei að vinna við krabbameinshjúkrun heldur ætlaði ég upphaflega að verða annað hvort kynfræðingur eða ljósmóðir. Þegar fólk spurði hvers vegna ég fór þá að vinna við krabbameinshjúkrun átti ég til að segja: „Einhvern vegin æxlaðist það bara þannig”.

Ég var búin að svara þessari spurningu nokkrum sinnum á þennan veg áður en ég áttaði mig á að orðalagið væri kannski ekki heppilegt. Ég er ein af þeim fjölmörgu sem þekkja einhvern sem hefur fengið krabbamein. Kannski var það ástæðan fyrir því að ég skráði mig í áfangann Krabbamein og líknarmeðferð í HA. Í framhaldinu fékk ég símtal frá Ingu Margréti Skúladóttur, deildarstjóra Almennu göngudeildarinnar, sem bauð mér vinnu og ég stökk á tækifærið.

Flesta daga er ég mjög þakklát fyrir að fá að fylgja fólki á þessari erfiðu leið sem það þarf að fara þó að það hafa komið dagar þar sem vil ég hætta. Finna mér vinnu við hjúkrun þar sem tengslamyndun er ekki svona stór partur af vinnunni. Sumir dagar eru erfiðari en aðrir. Það hefur komið fyrir að ég átti erfitt með að setja upp æðalegg í handarbak skjólstæðings því tárin reyndu að ryðja sér leið þrátt fyrir að ég notaði öll trixin í bókinni til að halda aftur af þeim.

Friðbjörn Sigurðsson, læknir, sagði á þeim degi þegar hann var að hughreysta sorgmæddan hjúkrunarfræðing: „Það venst aldrei að segja fólki að það sé að deyja, það bætist bara við gráu hárin“. En jafnvel þó sumir af skjólstæðingunum kveðji þá er þetta starf svo sannarlega þess virði. Þakklætið sem maður fær fyrir að vera til staðar er ómetanlegt. Eins og gleðin sem maður upplifir þegar einhver fagnar síðustu lyfjagjöfinni. Það skapar ákveðin tækifæri að vinna bæði á sjúkrahúsinu og hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis eða KAON eins og við köllum það. Tengingin hjálpar okkur hjá KAON að bregðast fyrr við þörfum skjólstæðinga okkar og það er nánast daglegt brauð að ég fái fyrirspurnir á sjúkrahúsinu um starf KAON. Fyrir vikið er orðið mun meira að gera hjá félaginu og við erum alsæl með það. KAON býður upp á fjölda stuðningshópa, viðburða og fræðslu sem finna má upplýsingar um á heimasíð- unni www.kaon.is.

Ég hef verið spurð hvort það sé ekki erfitt að vinna hjá Krabbameinsfélaginu en fyrir mér er það tækifæri. Tækifæri til þess að hjálpa fólki. Það er fátt sem ég get gert til þess að koma í veg fyrir að fólk greinist með krabbamein. En með KAON, SAk og frábærum kollegum þá get ég sannarlega hjálpað skjólstæðingum okkar og ættingjum þeirra að takast á við veikindin og fylgikvilla þeirra verði það þeirra hlutskipti. Hvar ég verð stödd eftir fimm ár veit ég ekki, því það hefur svo ótal margt breyst á síðast liðnum fimm árum og ég valið aðrar leiðir en ég upphaflega stefndi á.

Röð tilviljanna varð til þess að ég starfa við krabbameinshjúkrun í dag. Ég trúi því að lífið haldi áfram að koma mér óvart því það sér jú enginn fyrir hvernig lífið æxlast.


Nýjast