Glatað Tækifæri (hf)

Halldór Arason
Halldór Arason

Í Akureyrarkaupstað, líkt og í öðrum sveitarfélögum, telst umsýsla fjármuna til mikilvægustu verkefna kjörinna fulltrúa, enda er skynsamleg meðferð almannafjár forsenda þess að samfélagið taki framförum og að blómlegt mannlíf þrífist. Hún er því mikil ábyrgðin sem hvílir á herðum þeirra sem um þessi mál véla og nauðsynlegt að almenningur geti fylgst náið með. Því miður hvílir svartur blettur á núverandi bæjarfulltrúum Akureyrarkaupstaðar hvað þetta varðar, blettur sem tengist sölu á eignarhlut bæjarins í fjárfestingafélaginu Tækifæri hf. í upphafi árs 2016

Í maí 2015 bauð KEA svf. 89.000.000 kr. í 15,22% hlut bæjarins í ofangreindu félagi. Því tilboði var hafnað. Síðla þess sama árs hækkaði KEA svf. tilboð sitt í 116.408.129 kr. Bæjarráð, þar sem fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn eiga sæti, ákvað svo á fundi sínum 21. janúar 2016 að ganga að því tilboði. Svo virðist sem furðuleg vinnubrögð hafi einkennt söluferlið frá upphafi til enda. Kíkjum á nokkrar staðreyndir:

Rekstrarárangur félagsins vegna ársins 2015 var ekki skoðaður sérstaklega áður en tilboðinu var tekið. Nokkrum mánuðum síðar kom í ljós að hagnaður Tækifæris hf. næstum því fjórfaldaðist milli ára. Hann fór úr 90 milljónum árið 2014 í 384 milljónir árið 2015.

Ekkert formlegt verðmat fór fram, heldur var fjármálastjóri bæjarins fenginn til að leggja mat á hvort tilboðsupphæðin væri sanngjörn. Hann mun hafa talið að svo væri.

Í gögnum sem höfundur þessa greinarkorns hefur undir höndum kemur fram að „Fjármálastjóri bæjarins mun þó hafa innt stjórnarmann bæjarins í Tækifærum ehf., Albertínu [Elíasdóttur, sem nú situr á Alþingi fyrir Samfylkinguna], eftir því hvort eitthvað væri í pípunum hjá félaginu sem gæti haft áhrif á verðmatið. Kvað hún Baðfélaginu (Jarðböðin hf. í Mývatnssveit, sem er stærsta eign Tækifæra ehf.) ganga vel, en engin gögn um það voru skoðuð áður en salan á hlut bæjarins í Tækifærum ehf. var samþykkt.“ Svo mörg voru þau orð.

5. liður kauptilboðsins, sem ber yfirskriftina Trúnaður, hljómar svo: „Efni kauptilboðs þessa er trúnaðarmál milli aðila og skulu aðilar ekki veita upplýsingar um tilvist eða efni þess nema lög mæli fyrir um það.“ Bæjarráð varð við þessum tilmælum og var salan ekki skráð í fundargerð ráðsins, heldur einungis í þar til gerða trúnaðarbók. Leynd hvíldi yfir þessum viðskiptum mánuðum saman, eða þangað til fyrrverandi bæjarfulltrúi gerði málið opinbert á facebook-síðu sinni.

Skoðum hagnað og heildareignir félagsins undanfarin ár (upphæðir í milljónum). 15,22% hlutdeild Akureyrarkaupstaðar er aftan við skástrikið:

 

                    Hagnaður                 Heildareign í árslok

2014           90/13,7                     600/91,3

2015           384/58,4                      995/151,4

2016           556/84,6                      1.550/235,9

2017           555/84,5                      2.100/319,6

Samtals           1.585/241,2

 

Af þessu má sjá að mikill uppgangur hefur verið í rekstri Tækifæris hf. undanfarin ár, svo ekki sé meira sagt. Nú standa íbúar frammi fyrir tvíþættu álitamáli. Annars vegar því hvort það hafi verið skynsamlegt að selja hlut sveitarfélagsins í svona öflugu fyrirtæki og hins vegar því hvort söluferlið, sem lýst er lauslega hér að ofan, standist skoðun. Dæmi nú hver fyrir sig.

Það er gaman að geta þess að Skútustaðahreppur hefur haft 5,86% hlut sinn í ofangreindum Jarðböðum í söluferli um nokkurt skeið, eða frá því að sveitarfélaginu barst óformlegt kauptilboð á vordögum 2015 upp á 50-70 milljónir. Því tilboði var hafnað. Í desember 2016 ákvað sveitarstjórnin að selja hlut sveitarfélagsins ef viðunandi verð fengist og skyldi söluferlið vera opið og gegnsætt. Eftir að tveir aðilar, KPMG og Íslandsbanki, höfðu verið fengnir til að verðmeta hlut sveitarfélagsins, þar sem virði félagsins var metið eftir öllum kúnstarinnar reglum, var ákveðið í október 2017 að auglýsa hlutinn opinberlega til sölu.

Það er skemmst frá því að segja sveitarstjórnin tók tilboði upp á 263,7 milljónir á fundi sínum þann 15. febrúar sl. Sú upphæð reyndist 27% hærri en verðmat Íslandsbanka og 56,7% hærri en verðmat KPMG. Hugsanlegt er að einhverjir íbúar Skútustaðahrepps séu ósáttir við söluna sem slíka, en það er algjörlega óhugsandi að einhver sé ósáttur við vinnubrögðin sem viðhöfð voru.

Misjafnt hafast mennirnir að. Kjörnir fulltrúar Mývetninga höfðu fagmennsku að leiðarljósi en kjörnir fulltrúar Akureyringa, Hríseyinga og Grímseyinga féllu í forarpytt fúsks og flumbrugangs.

-Höfundur skipar 1. sæti á lista Pírata í Akureyrarkaupstað við sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí nk.

 


Nýjast