Ég segist vera sveitahjúkrunarfræðingur

Sesselja Bjarnadóttir.
Sesselja Bjarnadóttir.

Í tilefni af nýstofnuðu félagi hjúkrunarfræðinga í Eyjafirði mun Vikudagur á næstu vikum og mánuðum birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri nágrenni þar sem þeir kynna sín störf. Í þessari viku er það Sesselja Bjarnadóttir sem skrifar.

Ég heiti Sesselja Bjarnadóttir og útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands í ágúst 1982.

Eftir útskrift vann ég á handlækningadeild á Sjúkrahúsinu á Akureyri og síðar á Landakoti í Reykjavík. Snemma vors 1986 sá ég auglýsingu þar sem óskað var eftir hjúkrunarfræðingi til starfa á Heilsugæslustöðina á Grenivík. Heilsugæslustöðin á Akureyri sem nú tilheyrir Heilbrigðisstofnun Norðurlands er með útibú á Grenivík. Þangað koma læknar tvisvar í viku frá Akureyri og eru með læknamóttöku. Áður en ég hóf þar störf hafði ekki verið þar starfandi hjúkrunarfræðingur. Ég flutti með fjölskyldu mína til Grenivíkur í  maí 1986 og réð mig í eitt ár til reynslu. Ég veit ekki hvað ég á segja um reynslu íbúanna af mér, það verða þeir að tjá sig um. Mér líkaði hins vegar svo vel að búa og starfa á Grenivík að ég er þar enn, tæpum 32 árum síðar.

Í mínu hjúkrunarnámi var ekki mikil kennsla í heilsugæsluhjúkrun. Námið miðaði meira að hjúkrun inn á sjúkrastofnunum. Ég var því í byrjun algjör græningi þegar kom að því að vinna ein án náins samstarf við aðrar fagstéttir. Ég var ekki búin að vera lengi starfandi á Grenivík þegar bankað var upp á heima hjá mér eitt kvöldið. Á tröppunum stóð einstaklingur sem rétti fram hendina og sagði: „heldur þú að ég sé brotinn?“ Ég man að ég hugsaði að ég hef bara ekki grænan grun. Smám saman lærði ég svo að meta áverka með því að skoða þá og fá söguna um hvernig slysið kom til. Eftir svona áverkamat þarf í framhaldinu að ákveða hvort viðkomandi þarf að leita frekari aðstoðar, hvort það þurfi strax eða megi bíða til morguns.

Mesti hluti starfs míns eru forvarnir, fræðsla og að reyna að koma í veg fyrir að fólk missi heilsu. Þá er stór hluti starfsins að aðstoða einstaklinga við að viðhalda heilsu og færni sem þeir hafa, svo sem flestir geti haldið sinni reisn til æviloka. Ég segist vera sveitahjúkrunarfræðingur sem veit ekki allt um allt en hef vit á að vísa skjólstæðingum mínum áfram þurfi þeir á frekari sérfræðiþjónustu að halda.

Ég er búin að átta mig á að með því að hafa heilbrigðisþjónustuna sem næst notendum því betri verður hún og árangursríkari. Það að fólk hafi sinn hjúkrunarfræðing og heimilislækni er að mínu mati mikilvægt. Þá tel ég fjölskylduna vera eina heild því ef einn einstaklingur er að glíma við heilsubrest þá eiga hinir í fjölskyldunni líka við erfiðleika að stríða. Það er alveg sama hvort það er barn, unglingur, móðir, faðir eða aldrað foreldri sem er veikt þá hefur það áhrif á aðra í fjölskyldunni. Fólk á oft auðveldara með að tjá sig ef viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður þekkir til fjölskyldunnar heldur en að tjá ókunnugum um erfiðleika, til dæmis að unglingurinn sé í neyslu, móðirin sé með byrjandi minnissjúkdóm, maki sé með einkenni þunglyndis og svo framvegis.

Mér finnst samvinna hinna ýmsu stétta innan heilbrigðiskerfisins nauðsynleg til að góður árangur náist, svo sem samvinna hjúkrunarfræðinga við sjúkraliða, lækna, sálfræðinga, fjölskylduráðgjafa, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa. Það skiptir líka miklu máli fyrir byggðir landsins að eiga eins vel menntað fólk og við höfum til að sinna sjúkraflutningum. Björgunarsveitir landsins eru líka auðvitað alveg ómissandi.

Fyrir Heilsugæsluna er mjög mikilvægt að hafa vel menntað starfsfólk. Því gladdist ég mjög þegar framhaldsnám fyrir hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu byrjaði við Háskólann á Akureyri. Tæknin á eftir að skipta miklu máli fyrir litlar heilsugæslustöðvar. Í framtíðinni verður hægt að tengjast meira við stærri staði til að láta lesa af hjartalínuritum, röntgenmyndum og fá ráð sérfræðinga. Samtengdir gagnagrunnar auka öryggi skjólstæðinga en þegar ég byrjaði í heilsugæslunni voru ekki til tölvur heldur voru allar upplýsingar handskrifaðar á blöð. Í dag skrái ég allt sem ég geri í tölvu.

Ég sé alls ekki eftir því að hafa lært hjúkrunarfræði. Hjúkrun getur verið mjög gefandi starf en jafnframt krefjandi. Það er mannlegt að gera misstök en í þessu starfi getur það orðið afdrifaríkara en í mörgum öðrum störfum. Það sem mér hefur fundist erfiðast við mitt starf er þegar alvarleg veikindi eða slys verða. Þá reynir oft á að vera fyrst og fremst hjúkrunarfræðingur þegar ég þarf að sinna einhverjum sem ég er búin að þekkja lengi, jafnvel í 32 ár. Starf mitt hefur stundum haft áhrif á mína nánustu. Ég hef þurft að sinna bráðatilfellum þegar fjölskyldan var búin að ákveða að gera eitthað annað saman. Ég verð eiginlega að hrósa eiginmanni og börnunum mínum fyrir að taka störfum mínum með jafnaðargeði, en ég man aldrei eftir að þau hafi kvartað heldur tekið því sem sjálfsögðum hlut. Tvær dætur mínar lærðu hjúkrunarfræði og finnst mér mjög gaman að fylgjast með þeim og þeirra störfum.

Eftir tuttugu ár verð ég hætt að vinna sem hjúkrunarfræðingur. Trúlega verð ég enn að reyna að skipta mér af heilsu annarra. Ég upplifi hjúkrunarstarfið ekki bara sem vinnu heldur sem ákveðið lífsform, sem felur það í sér að vera áhugasöm um hagi annarra og láta mig varða hvernig aðrir hafa það.

Peningalega verður líklega enginn ríkur af því að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Andlega getur maður hins vegar orðið fjáður. Að fá að gleðjast með öðrum þegar vel gengur, að fá að taka þátt í sorg og erfiðleikum sem sigrast er á gerir mig auðmjúka og þakkláta. Að fá hrós og þakklæti fyrir vel unnin störf er notalegt. Þetta finnst mér vera fjársjóður sem ég ætla að lifa á þegar komið er á efri ár.

-Sesselja Bjarnadóttir


Nýjast