Börnin í Aleppo eru börn okkar allra

Frá samstöðufundinum á Ráðhústorginu á Akureyri sl. laugardag. Ljósmynd: Tinna Björg Gunnarsdóttir
Frá samstöðufundinum á Ráðhústorginu á Akureyri sl. laugardag. Ljósmynd: Tinna Björg Gunnarsdóttir

Ég á tvo frábæra stráka, annan tveggja og hálfs hinn er alveg að verða fimm ára. Það kemur fyrir að ég óttast um þá,- að þeir hlaupi út á götu þegar bíll kemur aðvífandi, að þeir detti í stiganum heima hjá sér, en oftast óttast ég þó bara að þeir skemmi eitthvað sem er dýrt og að ég þurfi að borga það því þeir eru jú bísna virkir.

Baldur Starri og Jörundur

Ég hef aldrei þurft að hafa áhyggjur af því að stákarnir mínir yrðu skotnir af hermönnum siðblindra einræðisherra eða af kolbrjáluðum terroristum. Þegar ég les fyrir þá á kvöldin þá geri ég það í algjörri kyrrð, það er engin skothríð fyrir utan svefnherbergisgluggann, engar sprengingar í næsta hverfi. Ég heyri heldur ekki örvæntingarfull öskur syrgjandi foreldra. Þegar ég segi strákunum mínum að ég elski þá og kyssi þá góða nótt, þá hef ég heldur engar áhyggjur af því að þurfa vekja þá um miðja nótt og flýja með þá í gegnum blóðuga bardaga af því að sprengjuregnið er komið of nálægt heimilinu okkar.

Af því að ég fæddist á Íslandi en ekki í Sýrlandi þá þarf ég ekki að óttast um líf barnanna minna á hverjum degi. Ég þarf ekki að hugga mæður sem hafa misst öll börn sín í loftárásum, ég hef heldur aldrei þurft að grafa upp lík barna ættingja minna úr rústum sundurpsprengdra íbúðarhúsa eða bera kennsl á lík nágrannabarnanna úr hrúgu af barnslíkum eftir síðustu loftárás.

Aleppo

Öll höfum við heyrt um hryllinginn sem stríðið í Sýrlandi hefur haft í för með sér fyrir almenna saklausa borgara landsins. Við höfum heyrt fréttirnar lesnar upp þar sem fórnarlömb tilgangslauss ofbeldis sem stríðið í Sýrlandi er, breytt í tölur,- tala látinna eftir síðustu loftárás.

Það er auðvelt að verða ónæmur fyrir fréttum af stríði og jafnvel fyrir fréttamyndum sem sýna hryllinginn. Það er auðvelt að láta sig þetta litlu varða af því að stríðið er svo langt í burtu – það er í Sýrlandi, ekki á Íslandi. En Sýrland er þrátt fyrir allt ekki svo langt í burtu. Á tímum internetsins þegar upplýsingar ferðast á milli heimsálfa á augabragði þá er ekki hægt að segja að heimurinn sé svo ýkja stór. Það er ekki lengur hægt að segja að eitthvað sé svo langt í burtu, heimurinn er orðinn pínulítill og Sýrlendingar eru nágrannar okkar. Það eru meira að segja Sýrlendingar hér á Íslandi sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og flýja út í óvissuna, nokkrir þeirra eru búsettir á Akureyri.

Einn þessara Sýrlensku flóttamanna á Akureyri er ensku kennarinn Khattab Omar Alom­hammad. Ég var svo heppinn að sitja fyrirlestur sem hann hélt í Háskólanum á Akureyri í síðustu viku. Á einum klukkutíma fór hann yfir helstu atriðin úr sögu Sýrlands og menningu þessarar stoltu þjóðar. Ég hreyfst með þegar hann lýsti siðum og venjum sem við fyrstu sín virtust svo frábrugðnar því sem við eigum að venjast hér á Íslandi, en eru við nánari skoðun alveg keimlíkar íslenskum venjum. Khattab sagði líka svo skemmtilega frá og  húmorinn aldrei langt undan. Svo var tekið hlé áður en síðar hluti fyrirlestursins fór fram.

Í síðari hluta fyrirlestursins rakti Khattab hörmungarnar sem dunið hafa á Sýrlendingum frá því að stríðið braust út árið 2011. Þetta hófst allt á því að Sýrlenskir borgarar söfnuðust saman á götum úti til að krefjast aukinna lýðræðisréttinda,- réttinda sem okkur Íslendingum þykir sjálfsögð. Í sex mánuði mótmæltu Sýrlendingar á friðsaman hátt ógnarstjórn hins snarbilaða einræðisherra landsins Bashar al-Assad. En Assad hlustaði ekki. Allan tímann sem mótmælin fóru fram sigaði hann leynisveitum lögreglunnar á  mótmælendur svo lítið bar á, lét pynta saklaust fólk og drepa það. Þar til allt sauð upp úr og stríðið braust út.

Þessi klukkutími er sá áhrifamesti sem ég hef upplifað, þó hef ég ekki þurft að upplifa neitt því líkt sem Khattab lýsti fyrir okkur. Hann sýndi okkur ljósmyndir og myndbönd tekin á farsíma fólks sem var að upplifa hörmungarnar og lýsti því á grafískan hátt sem fyrir augu bar á milli þess sem hann brotnaði saman og grét. Og nemendur í salnum grétu með honum.

Hann sýndi okkur myndband af því þegar fyrsti friðsami mótmælandinn var drepinn með köldu blóði. Hann sýndi okkur myndbönd af grátandi börnum sem kölluðu eftir látnum systkinum sínum,- buguð af sorg. Hann sýndi okkur myndir af foreldrum safna saman líkum barna sinna. Hann sýndi okkur áhrifaríkt viðtal við fimm ára grátandi dreng – hann var að grátbiðja Assad um að hætta að drepa fólkið sitt. Hann spurði þennan tilfinningalausa harðstjóra: „Hvað hef ég gert rangt? Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta?“ Það sló mig hvað þessi drengur var líkur Baldri Starra syni mínum. Og það er einmitt málið, þessi börn eru alveg nákvæmlega eins og börnin okkar, hér heima í örygginu á Íslandi. Þau þurfa bara að lifa við aðstæður þar sem aðeins skelfing og dauði ræður ríkjum.

Aleppo

Á meðan heldur Assad áfram stíðsrekstri sínum, í samvinnu við morðóð glæpasamtök sem kenna sig við Íslamskt ríki og með dyggum stuðningi frá öðrum kolbrjáluðum harðstjóra, Vladimir Putin, Rússlandsforseta. Assad er búinn að leggja land sitt gjörsamlega í rúst, hrekja milljónir saklausra borgara á flótta og myrða hunduð þúsunda. Samt harðneitar hann að fara frá völdum. Hann vill halda í völd sín sama hvað það kostar.

„Ekki gleyma okkur“

 

Khattab opnaði fyrir spurningar að loknum þessum hryllilega fyrirlestri. Mig langaði til að spyrja hann að því hverju Assad væri að berjast fyrir, hvaða raunverulegu hvatir lægju að baki þessu blóðbaði, hvaða völd fælust í því að ríkja yfir mannlausum rjúkandi húsarústum. En ég áttaði mig á því að spurningin hefði verið tilgangslaus. Rökleg hugsun nær ekki yfir það sem er í gangi í Sýrlandi hvað þá yfir það sem liggur að baki.

Ég spurði hann í staðinn að því hvað ég gæti gert, hvað fólkið í kringum mig gæti gert, hvað venjulegt fólk í hinum lýðræðislega vestræna heimi gæti gert til að styðja við stríðshrjáða vini okkar frá Sýrlandi.

„Ekki gleyma okkur!“ Sagði hann. Hann bað okkur um að hefja upp raust okkar og láta skoðun okkar í ljós hvar og hvenær sem er. Hann bað okkur um að láta stjórnvöld okkar vita með friðsömum hætti að þetta ástand lýðum við ekki. Hann bað okkur um að kalla eftir því að stjórnvöld hvar í landi sem er beittu sér af fullri alvöru fyrir því að koma á friði í Sýrlandi. Það væri gert með því að fjarlægja þjófinn og þjóðarmorðingjann Bashar al-Assad einræðisherra Sýrlands frá völdum. Þangað til myndi stríðið halda áfram.

Khattab og fjöl­skylda hans ásamt nokkrum vinum hafa komið sam­an síðastliðna fjóra laug­ar­daga á Ráðhús­torg­inu á Ak­ur­eyri til að mót­mæla friðsam­lega þessu tilgangslausa stríði sem rík­ir í Sýrlandi. Síðasta laugardag tóku Akureyringar heldur betur við sér og fjölmenntu á Ráðhústorgið og sýndu Khattab, fjölskyldu hans og sýlensku þjóðinni samstöðu.

Khattab og fjölskylda mun verða á Ráðhústorginu á ný næstkomandi laugardag kl. 16:00 – 16:30. Það er von mín að sem flestir sjái sér fært um að halda áfram að mæta með fjölskyldunni og sýna þar með samstöðu í verki.

Aleppo

Það er auðvelt að segja sem svo að nokkrar mannseskjur með skilti á Ráðhústorginu á  Akureyri skipti ekki verulega máli, en málið er að hver einasta rödd skiptir gríðarlegu máli. Því fleiri sem láta þetta varða, því meiri hvatning er það fyrir aðra til að gera slíkt hið sama.

Sýnum bræðrum okkar og systrum í Sýrlandi samstöðu og samhug. Á meðan ég er að drekka morgunkaffið mitt áhyggjulaus er verið að myrða saklaus börn í hinni stríðshrjáðu borg Aleppo. Nálgumst málið á nýjan hátt. Börnin í Aleppo eru ekki bara börn annarra. Þau eru börnin okkar allra.

Egill P. Egilsson

 


Nýjast